Innlent

Dómur staðfestur yfir Júlíusi Vífli fyrir peningaþvætti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Júlíus Vífill var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en sagði af sér um það leyti sem Panamaskjölin voru til umfjöllunar en í ljós kom að hann átti aflandsfélag á Panama.
Júlíus Vífill var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en sagði af sér um það leyti sem Panamaskjölin voru til umfjöllunar en í ljós kom að hann átti aflandsfélag á Panama. Vísir

Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerðist sekur um peningaþvætti með því að geyma ávinning af skattalagabroti inn á erlendum bankareikningi í sínu nafni og ráðstafa ávinningnum síðar á nýjan bankareikning í eigu vörslusjóðs sem hann var rétthafi að. 

Svo segir í dómi Landsréttar sem staðfesti tíu mánaða dóm yfir Júlíusi Vífli í héraði. Í dómi Landsréttar kom fram að hafið væri yfir vafa að sá hluti þeirra fjármuna, á annað hundrað milljónir króna sem hefðu verið inni á umræddum bankareikningum og ákært væri fyrir, hefði verið ólögmætur ávinningur af skattalagabroti Júlíusar Vífils.

Ekki hafði þýðingu að frumbrotið sem ávinningurinn stafaði frá hefði verið fyrnt þegar rannsókn hófst. Þá var ekki fallist á varnir borgarfulltrúans fyrrverandi um að brotið hefði ekki verið refsivert sökum þess að sjálfsþvætti hefði ekki verið refsivert samkvæmt lögum á þeim tíma þegar ávinningurinn féll til. Því síður að brotið hefði verið fyrnt þegar ákæra var gefin út í málinu.

Fullnustu refsingarinnar yfir Júlíusi Vífli var frestað skilorðsbundið í tvö ár sem þýðir að hann þarf ekki að taka út refsingu í fangelsi nema hann brjóti af sér innan tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×