Innlent

Ríkis­stjórnin kynnir breytingar á ferða­tak­mörkunum síðar í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, verður á fundinum í dag ásamt heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, verður á fundinum í dag ásamt heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin hyggst boða til blaðamannafundar síðar í dag þar sem kynntar verða breytingar á ferðatakmörkunum sem tengjast kórónuveirufaraldrinum.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verða þar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

Frekari upplýsinga er að vænta innan tíðar og verður þá nánar greint frá þeim en fundurinn verður í beinni útsendingu hér á Vísi.

Tillögur stýrihóps um afléttingu ferðatakmarkana voru á dagskrá ríkisstjórnarfundar í morgun en hópurinn skilaði tillögum sínum í gær.

Fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær vegna kórónuveirunnar að hann myndi leggja til við heilbrigðisráðherra að þær ferðatakmarkanir sem nú eru í gildi vegna faraldurs kórónuveiru gildi áfram eftir 15. maí; líklega mánuð til viðbótar en mögulega skemur.

Ekki væri þó loku fyrir það skotið að fyrirkomulaginu yrði breytt áður en mánuðurinn er úti.

Núverandi fyrirkomulag er í gildi til 15. maí. Fyrirkomulagið kveður á um bann við komum ríkisborgara utan EES og EFTA til landsins, auk tveggja vikna sóttkvíar fyrir alla sem hingað koma.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×