Enski boltinn

Brutust inn til Alli og ógnuðu honum með hníf

Sindri Sverrisson skrifar
Dele Alli lenti í ömurlegu atviki síðustu nótt.
Dele Alli lenti í ömurlegu atviki síðustu nótt. VÍSIR/GETTY

Þjófar brutust inn á heimili Dele Alli, leikmanns Tottenham, síðustu nótt. Þeir ógnuðu honum með hníf og kýldu knattspyrnumanninn í andlitið áður en þeir höfðu með sér skartgripi og úr á brott.

Þjófarnir voru tveir en þeir brutust inn í hús Alli í norðurhluta Lundúna laust eftir miðnætti í nótt. Alli hefur haldið sig þar í útgöngubanni vegna kórónuveirufaraldursins, ásamt bróður sínum, kærustum þeirra tveggja og vini. Alli fékk högg í andlitið en meiddist ekki alvarlega.

Samkvæmt Daily Mail er Alli og hans fólk í nokkru losti eftir innbrotið. Öryggismyndavélar eru allt í kringum húsið og hefur lögregla fengið myndbandsupptökur og hafið rannsókn á málinu.

Búist er við því að Tottenham hefji á mánudaginn æfingar að nýju eftir útgöngubann en vonir standa til þess að hægt verði að hefja keppni að nýju í ensku úrvalsdeildinni þann 12. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×