Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gærkvöldi ökumann eftir að hann mældist á 125 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 50 kílómetrar á klukkustund. Sá var færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum.
Að öðru leyti snerist gærkvöldið og nóttin að mestu um ökumenn undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna, samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Skömmu fyrir miðnætti var kona handtekin í Hafnarfirði eftir umferðaróhapp. Hún er grunuð um að vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna eða lyfja og var vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar lögreglunnar. Engan sakaði í slysinu.
Minnst tveir ökumenn sem stöðvaðir í nótt voru undir áhrifum og þar að auki ekki með gild ökuréttindi. Annar þeirra hefur ítrekað verið tekinn við akstur án réttinda.