Innlent

Læknar vilja aukna tryggingavernd vegna faraldursins

Andri Eysteinsson skrifar
Landspítalinn Fossvogi
Landspítalinn Fossvogi Vísir/Vilhelm

Læknafélag Íslands krefur ríkisstjórn Íslands að tryggja að læknar við störf í heilbrigðiskerfinu njóti aukinni tryggingarverndar á meðan glímt er við faraldur kórónuveirunnar. Læknafélagið birti ríkisstjórninni bréf þess efnis í dag.

„Ófullnægjandi tryggingarvernd lækna vegna vinnuslysa hefur komist í hámæli meðal lækna nú í COVID-19 faraldrinum. Fyrir liggur að LÍ hefur lengi verið ósátt við tryggingarvernd lækna samkvæmt kjarasamningi fjármála- og efnahagsráðherra og LÍ,“ segir í bréfinu.

Einnig kemur þar fram að 21 starfsmaður Landspítala hafi greinst með kórónuveirusmit og sé í einangrun. Flestir hafi smitaðir starfsmenn orðið 38. Flestir starfsmenn spítalans í sóttkví hafa verið 280 talsins.

LÍ lítur svo á að nú sé áhætta lækna sambærileg og áhætta lækna við störf í sjúkra- og þyrluflugi en læknar sem sinna slíku njóta verulega betri tryggingarverndar eftir því sem segir í bréfi LÍ til ríkisstjórnarinnar.

„LÍ gerir því kröfu um að Ríkisstjórn Íslands og viðeigandi fagráðuneyti tryggi að læknar við störf í heilbrigðiskerfinu óháð ráðningar- eða samningsfyrirkomulagi, á meðan glímt er við COVID-19 sýkingarfaraldurinn, njóti þeirrar auknu tryggingarverndar sem læknum sem sinna sjúkraflugi og þyrluflugi hefur verið veitt,“ segir í bréfi LÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×