Enski boltinn

Tottenham hættir við að nýta sér úrræði stjórnvalda

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Daniel Levy hefur tekið margar umdeildar ákvarðanir hjá Tottenham en hann segir að kórónuveiran sé það erfiðasta sem hefur komið í hans tuttugu ára tíð hjá félaginu.

Enska úrvalsdeildarliðið Tottenham hefur dregið til baka ákvörðun sína um að nýta sér úrræði breskra stjórnvalda og mun starfsfólk félagsins halda fullum launum í því ástandi sem nú ríkir vegna kórónuveirufaraldursins.

Forráðamenn Tottenham fengu yfir sig holskeflu af gagnrýni fyrir að ætla að nýta sér úrræði stjórnvalda sem hefði gert félaginu kleift að greiða starfsfólki sínu 20% launa sinna á meðan stjórnvöld myndu greiða hin 80 prósentin.

Ekki er um að ræða laun leikmanna aðalliðsins heldur starfsfólks sem vinnur hin ýmsu störf fyrir félagið en alls er um að ræða um 550 manns. Mun Tottenham greiða öllu þessu fólki full laun fyrir mars og apríl. Jafnframt kemur fram að aðeins stjórnarmenn félagsins muni taka á sig launaskerðingar.

Með þessu fetar Tottenham í fótspor Liverpool sem ætlaði í fyrstu að nýta sér úrræðið en hætti svo við eftir kröftug mótmæli.


Tengdar fréttir

Manchester-liðin fara ekki sömu leið og Liverpool

Manchester-liðin tvö, United og City, munu ekki fara sömu leið og nýta sér úrræði stjórnvalda til þess að borga starfsfólki sínu 80% af launum þeirra á meðan kórónuveirufaraldurinn stendur yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×