Sport

Skrifaði undir nýjan níu milljarða samning í miðjum heimsfaraldri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian McCaffrey á fullri ferð með Carolina Panthers liðinu í leik á móti New England Patriots.
Christian McCaffrey á fullri ferð með Carolina Panthers liðinu í leik á móti New England Patriots. EPA-EFE/JOHN CETRINO

Christian McCaffrey er orðinn launahæsti hlauparinn í sögu NFL-deildarinnar eftir að hann gekk frá nýjum samningi við Carolina Panthers liðið um helgina.

Carolina Panthers er tilbúið að borga Christian McCaffrey 64 milljónir Bandaríkjadala fyrir næstu fjögur tímabil eða meira en níu milljarða íslenskra króna. Hann fær því sextán milljónir dollara í árslaun eða 2,29 milljarða íslenskra króna.

Christian McCaffrey hefur vissulega spilað frábærlega með Carolina Panthers liðinu undanfarin tvö tímabil og skiljanlegt að félagið vilji gera allt til þess að halda honum.

Það er samt svolítið skrýtið að leikmenn séu að fá slíka risasamninga á þessum óvissutímum þegar enginn veit fyrir víst hvenær íþróttakappleikir geti farið fram á nýjan leik. NFL-deildin á að hefjast aftur í september.

Ezekiel Elliott var launahæsti hlaupari NFL-deildarinnar áður en Christian McCaffrey samdi en Elliott fær fimmtán milljónir dollara í laun á ári hjá Dallas Cowboys eða meira en tvo milljarða í íslenskum krónum. Þriðji er síðan Le'Veon Bell hjá New York Jets með 14,1 milljónir dollara á ári.

Christian McCaffrey er 23 ára gamall og skoraði 19 snertimörk í 16 leikjum með Carolina Panthers á síðustu leiktíð þar sem hann hljóp 2.392 jarda með boltann.

Carolina Panthers tók McCaffrey með áttunda valrétti í nýliðavalinu 2017 og hann var að detta inn á fjórða og síðasta árið á nýliðasamningi sínum.

Þrátt fyrir frábært 2019 tímabil hjá Christian McCaffrey þá vann Carolina Panthers liðið vara 5 af 16 leikjum sínum og komst ekki í úrslitakeppnina.

Miklu munaði um að leikstjórnandinn Cam Newton meiddist og missti af stórum hluta tímabilsins. Panthers liðið hefur nú ákveðið að halda áfram án Cam Newton.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×