Innlent

Hópur Hildar fær 10 daga til að útfæra skimun ferðamanna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flugvélar Icelandair standa óhreyfðar meðan millilandaflug liggur niðri. Ætla má að meiri hreyfing verði á Keflavíkurflugvelli þegar opnað verður fyrir komur ferðamanna á næstu vikum - með skilyrðum.
Flugvélar Icelandair standa óhreyfðar meðan millilandaflug liggur niðri. Ætla má að meiri hreyfing verði á Keflavíkurflugvelli þegar opnað verður fyrir komur ferðamanna á næstu vikum - með skilyrðum. vísir/vilhelm

Stjórnvöld hafa skipað verkefnahóp sem ætlað er að útfæra skimunina við kórónuveirunni sem fram á að fara á landamærum landsins. Stefnt er að því að ferðamenn geti komið aftur hingað til lands gegn því að þeir fari í skimun, framvísi vottorði eða fari í tveggja vikna sóttkví, eigi síðar en 15. júní.

Hópurinn mun njóta leiðsagnar Hildar Helgadóttur, forstöðumanns á Landspítala, og er honum ætlað að skila niðurstöðum sínum fyrir 25. maí. Eins og Vísir greindi frá í morgun er enn mörgum spurningum ósvarað um fyrirkomulag skimana, sem þegar er farið að valda ruglingi í erlendum fjölmiðlum.

Hlutverk verkefnastjórnarinnar verður meðal annars að leggja fram tillögur að framkvæmd sýnatöku og greiningar hjá farþegum sem koma til landsins, með flugi til Keflavíkur sem og með öðrum leiðum. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnarráðinu er gengið út frá því að öllum sem það kjósa fái skimun við komuna til landsins.

Þá fær hópurinn einnig það verkefni að greina kröfur sem þarf að gera til fyrrnefndra heilbrigðisvottorða sem ferðamenn gætu framvísað á landamærunum, hvernig þeim skuli framvísað og þau metin af hérlendum yfirvöldum.

Áætlun með ítarlegri verk- og tímaáætlun ásamt kostnaðaráætlun skal liggja fyrir eigi síðar en 25. maí næstkomandi.

Í hópnum munu auk fyrrnefndrar Hildar eiga sæti fulltrúar sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra, ISAVIA, Landspítala og lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli. Yfirlögfræðingur heilbrigðisráðuneytisins verður starfsmaður verkefnastjórnarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×