Handbolti

Hugur í KA-mönnum en markmiðin raunhæf

Sindri Sverrisson skrifar
Jónatan Magnússon léttur í bragði fyrir utan KA-heimilið.
Jónatan Magnússon léttur í bragði fyrir utan KA-heimilið. MYND/STÖÐ 2

„KA er stórt félag, með góða sögu, en við erum raunhæfir í öllum okkar markmiðum. Aðalmálið er að það sé gott handboltalíf á Akureyri og það er það sem við byggjum að,“ segir Jónatan Magnússon, þjálfari KA í handbolta.

KA hafnaði í 10. sæti Olís-deildar karla á síðustu leiktíð en hefur síðan fengið til sín landsliðsmanninn Ólaf Gústafsson og Árna Braga Eyjólfsson úr atvinnumennsku í Danmörku, og Ragnar Snæ Njálsson frá Stjörnunni.

„Við erum búnir að vera að byggja þetta upp hérna í skrefum. Það er náttúrulega frábært að fá Óla og frábært að fá Árna, en svo erum við líka að missa leikmenn líka. Við misstum Dag Gauta til dæmis suður [til Stjörnunnar] en fengum Jóa [Jóhann Geir Sævarsson frá Þór] í staðinn. En leikmennirnir sem við höfum fengið eru hugsaðir til að bæta okkur svo að við getum tekið skref, en eins og allir hafa séð er deildin að styrkjast mikið svo að ég er ánægður með fólkið í okkar stjórn sem sér til þess að við getum haldið áfram okkar vegferð við að byggja upp þetta lið, og séum samkeppnishæfir. Ég er mjög ánægður með þá leikmenn sem hafa komið til okkar,“ sagði Jónatan í Sportpakkanum á Stöð 2.

Markmið KA er að fara að minnsta kosti í úrslitakeppni átta efstu liða Olís-deildarinnar á næstu leiktíð:

„Við hugsuðum það svo sem fyrir síðustu leiktíð. Okkur fannst það rökrétt eftir að hafa árið á undan verið einu sæti frá úrslitakeppni. Síðasta tímabil var vonbrigði fyrir okkur, þó að það hafi svo sem ekki klárast. Við viljum taka skref fram á við á hverju ári. Það er mikil vinna fram undan en það er mikill hugur í fólkinu í félaginu,“ sagði Jónatan en nánar er rætt við hann hér að neðan.

Klippa: Sportpakkinn - Jónatan um stöðu KA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×