„Óþekkt veira í Kína líklega ný gerð kórónaveiru“. Svona hljóðaði fyrirsögn fréttar sem birtist hér á Vísi þann 13. janúar síðastliðinn. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og daglegt líf eins og við þekktum það gjörbreyst, allt út af þessari óþekktu veiru sem í dag er þekkt sem kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum Covid-19. Formlegt heiti veirunnar er SARS-CoV-2. Í umfjölluninni sem hér fer á eftir er stiklað á stóru í fyrsta kafla Covid-19-sögu Íslands og er vert að taka fram að svo margt hefur gerst undanfarna mánuði að umfjöllunin er ekki tæmandi. Það verður seint sagt að nýliðinn vetur hafi verið sá besti, þá sérstaklega þegar litið er til veðursins á landinu. Í desember gekk mikið óveður yfir með tilheyrandi eyðileggingu og langvarandi rafmagnsleysi þar sem ástandið var verst á Norðurlandi. Ungur piltur lést eftir að hafa fallið í Núpá í Sölvadal þegar hann var að vinna við að hreinsa krapa við stíflu í ánni. Um miðjan janúar féllu síðan snjóflóð á Flateyri og Suðureyri. Flóðin ollu miklu tjóni en sem betur fer varð ekki manntjón heldur mannbjörg þegar unglingsstúlku var bjargað á lífi úr öðru flóðinu á Flateyri. Á Valentínusardag, 14. febrúar, kom síðan enn ein óveðurslægðin. Aftur varð mikið tjón víða um land vegna veðurofsans þar sem bílar til dæmis skemmdust, rafmagnsstaurar brotnuðu og klæðningar á byggingum fuku af. Kórónuveiran átti þannig eftir að gera þennan slæma vetur verri en hún lét kannski ekki mikið yfir sér til að byrja með. Í fyrstu frétt Vísis af veirunni sagði að einn hefði þá látist vegna hennar og tugir smitast. Næstu daga á eftir birtust fleiri fréttir um veiruna. Var meðal annars sagt frá því að talið væri að hundruð Kínverja hefðu smitast af veirunni og að hún dreifðist hratt um landið. Þann 20. janúar ræddi fréttastofa við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, sem sagði enga ástæðu til að óttast þessa nýju veiru hér á landi, enn sem komið væri. Þá sagði hann jafnframt ekkert benda til þess að veiran smitaðist á milli manna. Frá borginni Wuhan í Kína í byrjun febrúar þar sem algjört útgöngubann var þá í gildi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.Vísir/Getty „Nánast allir sem hafa veikst og eru með staðfesta sýkingu hafa verið á ákveðnum útimarkaði í Wuhan í Kína. Þar hefur veiran fundist í umhverfissýnum. Þannig að menn eru fyrst og fremst að beina spjótum sínum að þessum stað. En svo hefur fólk sem hefur verið þar og ferðast til annarra landi líka verið að greinast. Ef veiran fer að smitast manna á milli og veldur miklum skakkaföllum þá gæti önnur staða komið upp en það á allt eftir að koma í ljós,“ sagði Þórólfur. Daginn eftir staðfestu heilbrigðisyfirvöld í Kína að smit gæti borist frá manni til manns og sama dag var fyrsta tilfelli veirunnar staðfest í Bandaríkjunum. Í sömu viku fóru að berast fregnir af því að grunur væri um smit í Bretlandi og Finnlandi og fyrsta tilfelli veirunnar í Evrópu var svo staðfest í Frakklandi þann 25. janúar. Óvissustig og afbókanir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum Þremur dögum áður hafði Vísir sagt frá því að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi væru að dusta rykið af viðbragðsáætlunum sínum. Það var síðan þann 28. janúar sem ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi vegna veirunnar hér á landi og daginn eftir var sagt frá því að hótel og hópferðafyrirtæki væru byrjuð að fá afbókanir fyrir sumarið. Þessi mynd er tekin á Keflavíkurflugvelli þann 31. janúar. Ferðamenn frá Asíu á leið heim eru með andlitsgrímur en þá var kórónuveiran farin að breiðast út um álfuna.Vísir/Vilhelm Þann 1. febrúar sagði sóttvarnalæknir svo frá því að nú væri hægt að greina kórónuveiruna hér á landi og var þann sama dag byrjað að skima fyrir henni. Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, sagði líklegt að veiran myndi greinast hér á landi. Það væri þó engin ástæða til að örvænta. Fjórum dögum síðar var greint frá því að Íslendingar sem væru að koma frá Kína þyrftu að fara í fjórtán daga sóttkví við komuna til landsins vegna kórónuveirunnar. Kínverskir ferðamenn þurftu þó ekki að fara í sóttkví. Þá beindi sóttvarnalæknir þeim tilmælum til almennings að huga vel að hreinlæti og þá sérstaklega handþvotti og að spritta sig. Landinn tók vel í þau tilmæli, að minnsta kosti ef marka má hversu mikið seldist af handspritti en Vísir ræddi við heildsala sem sagði hálfsársbirgðir hafa selst upp á fjórum dögum. Um miðjan febrúar höfðu 24 sýni verið tekin hér á landi og rannsökuð með tilliti til nýju kórónuveirunnar. Ekkert sýni reyndist jákvætt. Bless við handabönd, koss og knús Í seinni hluta febrúar tók veiran síðan að breiðast hratt út á Ítalíu og þann 24. febrúar var Íslendingum sem höfðu heimsótt fjögur héruð á Norður-Ítalíu gert að sæta tveggja vikna sóttkví við heimkomu. Daginn eftir var síðan greint frá því að sjö Íslendingar, hið minnsta, væru í sóttkví á hóteli á Tenerife eftir að smit greindist á hótelinu. Sama dag ræddi Vísir við Rögnvald Ólafsson, aðalvarðstjóra hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hann sagði þá stund runna upp að Íslendingar ættu að forðast handabönd og kossaflens vegna kórónuveirunnar. Tveimur dögum síðar sendu heilbrigðisyfirvöld frá sér tilkynningu þar sem Íslendingum var ráðið frá því að fara til Suður-Kóreu, Írans, Kína og áðurnefndra fjögurra héraða á Ítalíu. Þá var hvatt til sérstakrar varúðar þegar ferðast væri til annarra svæða á Ítalíu, Tenerife, Japans, Singapúr og Hong Kong. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra á fyrsta blaðamannafundinum vegna kórónuveirunnar.Vísir/Vilhelm Síðar þennan sama dag, þann 26. febrúar, héldu yfirvöld hér á landi fyrsta blaðamannafundinn vegna kórónuveirunnar. Þar sátu þeir Rögnvaldur og Þórólfur fyrir svörum. Á þessum tíma höfðu um 80 þúsund manns greinst með veiruna í heiminum og um 3.000 manns látist vegna hennar, langflestir í Kína. Fram kom í máli Rögnvaldar að undanfarna daga hefðu yfirvöld fundið fyrir auknum áhuga almennings á veirunni og á næstunni yrðu reglulegir blaðamannafundir á borð við þennan. Þar með hófust daglegir upplýsingafundir yfirvalda vegna faraldursins. Fyrsti Íslendingurinn sem greindist með veiruna Það var síðan föstudaginn 28. febrúar sem að fyrsta staðfesta tilfelli kórónuveirunnar greindist hér á landi. Hættustigi almannavarna var í kjölfarið lýst yfir. Í tilkynningu frá embætti landlæknis kom fram að íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefði verið færður í einangrun á Landspítalanum eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir veirunni. Maðurinn væri ekki alvarlega veikur en með dæmi gerð einkenni Covid 19-sjúkdómsins. Hann hafði nýlega verið á Norður-Ítalíu en utan skilgreinds hættusvæðis fyrir veiruna. Síðdegis þennan næstsíðasta dag febrúarmánaðar boðuðu almannavarnir og landlæknir til blaðamannafundar. Aftur sat Þórólfur fyrir svörum en nú ásamt þeim Ölmu Möller, landlækni, og Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra. Þríeykið svokallaða, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Alma Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á sínum fyrsta upplýsingafundi saman. Með þeim á þessum fundi var Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala. Það skal tekið fram að hér var ekki búið að setja tveggja metra regluna.Vísir/Vilhelm Þar með var þríeykið svokallaða myndað en Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, var einnig á fundinum. Næstu tvo daga greindust tveir til viðbótar og hundruð fóru í sóttkví vegna þeirra smita. Smitunum fjölgaði síðan jafnt og þétt fyrstu vikuna og þann 6. mars, viku eftir að fyrsta smitið greindist, voru staðfest tilfelli orðin 45. Þar af voru fjögur innanlandssmit. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir. Heimsóknarbann var sett á á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem og á Landspítalanum. Árshátíðum frestað og ýmis álitamál Áhrifa faraldursins gætti strax á fyrstu vikunni. Fyrirtæki frestuðu árshátíðum og stórum viðburðum á borð við sýningu Verk og vit var einnig frestað. Þá komu upp ýmis álitamál. Þannig voru verkalýðsfélögin og Samtök atvinnulífsins ekki sammála um það að vinnuveitandi ætti að greiða laun fólks í sóttkví. Stjórnvöld stigu inn í og lýstu því yfir að laun þeirra sem gert væri að fara í sóttkví yrðu tryggð. Það varð síðan töluvert fjaðrafok þegar Íslensk erfðagreining (ÍE) bauðst til þess að skima fyrir veirunni og greina hana. Á tímabili leit út fyrir að ekkert yrði af því að fyrirtækið myndi hefja skimun þar sem Vísindasiðanefnd og Persónuvernd gerðu athugasemdir við skimunina. Ef um vísindarannsókn væri að ræða væri slíkt leyfisskylt samkvæmt lögum en Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, sagði fyrirtækið ætla að taka þátt í klíniskri vinnu en ekki vísindarannsókn. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sagði óvissu með fyrirhugaða notkun gagnanna hafa kallað á frekari skýringar frá ÍE. Þegar þær höfðu fengist kom í ljós að skimunin væri ekki leyfisskyld. Þar með var ekkert því til fyrirstöðu að ÍE færi að skima fyrir veirunni og greina hana. Hófst skimunin föstudaginn 13. mars. „Maður snöggreiðist innan í sér þegar maður heyrir svona ákvarðanir“ Daginn áður höfðu stórtíðindi borist frá Bandaríkjunum þegar Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tilkynnti um bann við ferðalögum frá Evrópu til Bandaríkjanna til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar en Evrópu var nú orðin miðpunktur faraldursins. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, ávarpar hér þjóð sína þann 11. mars síðastliðinn og tilkynnir um ferðabannið frá Evrópu til Bandaríkjanna.EPA/Doug Mills Bannið náði til allra íbúa landa innan Schengen-svæðisins en bandarískir ríkisborgarar gátu komið heim frá Evrópu. Þá voru Bandaríkjamenn hvattir til þess að ferðast ekki til Evrópu. Strax varð ljóst að efnahagsleg áhrif þessarar einhliða ákvörðunar Trump yrðu mikil hér á landi enda bandarískir ferðamenn stærsti hópurinn sem farið hefur um Leifsstöð síðustu ár. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði ferðabannið gríðarlegt reiðarslag fyrir þjóðina. „Maður snöggreiðist innan í sér þegar maður heyrir svona ákvarðanir sem manni finnst að eigi ekki að geta komið upp í alþjóðasamskiptum, án fyrirvara og einhliða. Ég lít þannig á að við ættum frekar að efla samstarf ríkja um að lágmarka útbreiðsluna og efnahagsleg áhrif af henni,“ sagði Bjarni meðal annars í viðtali í Bítinu á Bylgjunni þann 12. mars. Þennan sama dag fóru staðfest smit hér á landi svo yfir 100 þegar tilkynnt var um það að 103 einstaklingar hefðu greinst með kórónuveiruna hér á landi. Föstudagurinn þrettándi og samkomubann Það var síðan skammt stórra högga á milli því daginn eftir, föstudaginn 13. mars, boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar þar sem tilkynnt var um samkomubann í fjórar vikur sem tók gildi á miðnætti 15. mars. Var þetta í fyrsta sinn sem slíkt samkomubann var sett á í lýðveldissögunni en miðað var við að ekki mættu fleiri en 100 manns koma saman. Þá var tveggja metra reglunni komið á sem almenningur ætti að þekkja vel í dag. Háskólum og framhaldsskólum var lokað og lagt upp með fjarnám í þeim menntastofnunum. Starf leikskóla og grunnskóla var áfram heimilt en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Áhrifa samkomubannsins gætti strax þennan föstudag þótt það tæki ekki gildi fyrr en tæpum þremur sólarhringum síðar. Þannig myndaðist örtröð í verslunum og landinn tók að hamstra vörur. Yfirvöld sögðu það ástæðulaust þar sem nóg væri til að vörum í landinu. Það var enginn fótbolti í samkomubanninu, hvorki hér á landi né víðast hvar annars staðar.Vísir/Vilhelm Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) ákvað að fresta öllum leikjum á meðan á samkomubannið væri og Handknattleiksamband Íslands (HSÍ) frestaði öllum leikjum ótímabundið. Þá setti Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) allt á ís í að minnsta kosti fjórar vikur. Þjóðkirkjan felldi síðan niður allt messuhald og allar fermingar vegna samkomubannsins. Sagði í tilkynningu að ákvörðunin væri tekin með almannaheill í húfi og að hún myndi gilda á meðan það væri samkomubann. Fyrsti dagur samkomubanns og ferðabann ESB Sama dag og tilkynnt var um samkomubannið samþykkti Alþingi síðan fyrsta frumvarpið sem lagt var fram til þess að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins á efnahagslífið. Frumvarpið sneri að því að fyrirtæki gátu fengið frest á tryggingagjaldi og staðgreiðslu opinberra gjalda. Var það samþykkt samhljóða með 47 atkvæðum en sextán þingmenn voru fjarverandi. Samkomubannið tók síðan gildi klukkan 00:01 aðfaranótt mánudagsins 16. mars. Þá höfðu 186 greinst með kórónuveiruna hér á landi, samkvæmt upplýsingum á covid.is, og tæplega 1.800 einstaklingar voru í sóttkví. Þrír voru á sjúkrahúsi vegna veirunnar, þar af tveir á gjörgæslu. Fjölmargir skólar og leikskólar voru lokaðir fyrsta dag samkomubannsins auk þess sem sundlaugar og líkamsræktarstöðvar lokuðu víða. Dagurinn var nýttur til þess að skipuleggja starfið og hvernig hægt væri að hafa opið í samkomubanni. Myndin er tekin í Bónus í Holtagörðum eftir að samkomubann hafði tekið gildi. Starfsmaður verslunarinnar sést hér sótthreinsa sameiginlegan snertiflöt; handfangið á innkaupakerru.Vísir/Vilhelm Undir kvöld bárust síðan fréttir af ferðabanni til Evrópusambandsins og annarra Schengen-ríkja sem ætlað var að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Slíkt bann er enn í gildi og tekur Ísland þátt í því en þegar fyrstu fréttir af banninu bárust sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, um mikil og stór tíðindi að ræða sem bæru mjög brátt að. Skoða þyrfti hvað ferðabannið myndi þýða í framkvæmd fyrir Ísland. „Það hefur verið okkar lína, miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag að þetta myndi ekki skila tilætluðum árangri,“ sagði Áslaug. Fjórum dögum síðar lá fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í banninu. „Þrátt fyrir að ferðabann hafi ekki verið ofarlega hjá okkar sérfræðingum sem árangursrík aðferð gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins þá hefur verið biðlað til okkar að taka þátt í lokun landamæra ESB- og Schengen-ríkjanna og við eigum óhægt um vik að skorast undan því,“ sagði dómsmálaráðherra þá. Ástralskur ferðamaður sem lést reyndist smitaður af veirunni Að loknum fyrsta degi samkomubannsins lá fyrir að kennsludögum yrði fækkað hjá nemendum í grunn- og leikskólum á öllu landinu vegna veirunnar. Talið var inn í verslanir sem grípa þurftu til ýmissa ráðstafanna vegna bannsins og þá var ákveðið að opna sundlaugarnar á ný á þriðjudeginum. Maðurinn hafði verið á ferðalagi hér á landi ásamt konu sinni þegar hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.Vísir/Vilhelm Á öðrum degi samkomubanns, þriðjudaginn 17. mars, var síðan greint frá því að ferðamaður frá Ástralíu sem lést á Húsavík daginn áður hefði reynst smitaður af kórónuveirunni. Þá lá ekki fyrir hvort að maðurinn hefði látist vegna Covid-19-sjúkdómsins en síðar fékkst sú dánarorsök staðfest. Ástralinn, sem var á fertugsaldri, var því sá fyrsti sem lést hér á landi af völdum Covid-19. Ljóst var að faraldurinn var að færast mjög í aukana og að efnahagsleg áhrif af útbreiðslu veirunnar yrðu mikil. Smitum fjölgaði ört í fyrstu viku samkomubannsins og boðuðu yfirvöld hertari aðgerðir. Þá var öllum Íslendingum sem og öðrum með búsetu hér á landi gert að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins frá og með 19. mars. Þær reglur eru enn í gildi auk þess sem erlendir ferðamenn þurfa að sæta tveggja vikna sóttkví komi þeir hingað til lands. Þær reglur tóku gildi 24. apríl og gilda til 15. júní að óbreyttu. Hlutabætur, brúarlán og frestun skattgreiðslna Áður en tilkynnt var um hertari reglur í samkomubanni boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar og kynnti aðgerðir til að bregðast við miklum efnahagslegum áhrifum af faraldrinum. Ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar laugardaginn 21. mars. Umfang þeirra nam 230 milljörðum króna og fólu meðal annars í sér svokallaða hlutabótaleið, brúarlán til fyrirtækja og frestun skattgreiðslna. Það var síðan á miðnætti aðfaranótt þriðjudagsins 24. mars sem hert samkomubann tók gildi. Samkomubann hafði reyndar þá þegar verið hert í Vestmannaeyjum þar sem viðburðir þar sem fleiri en tíu komu saman voru bannaðir. Staðfest smit í Eyjum voru orðin 41 þann 24. mars og tæplega 500 bæjarbúar voru komnir í sóttkví. Á landsvísu höfðu 648 verið greindir með veiruna og meira en 8.000 manns voru í sóttkví. Stjörnutorg var á meðal þeirra staða sem lokuðu vegna samkomubannsins.Vísir/Vilhelm Ekkert sund, engin klipping og engin æfing Hert samkomubann á landsvísu fól það í sér að ekki máttu fleiri en 20 manns koma saman. Sundlaugum, söfnum, líkamsræktarstöðvum, börum, skemmtistöðum og spilasölum var lokað og þá mátti ekki veita þjónustu þar sem mikil nánd er á milli viðskiptavina og þess sem veitir þjónustuna. Þar með lokuðu hárgreiðslustofur, tannlæknastofur og stofur sjúkraþjálfara svo eitthvað sé nefnt. Fjölda veitingastaða var einnig lokað sem og verslunum og þá féll allt íþróttastarf niður. Stórar matvöruverslanir og apótek voru undanskilin 20 manna banninu; þar máttu allt að 100 manns koma saman en tryggja þurfti að hægt væri að framfylgja tveggja metra reglunni. Sama dag og hert samkomubann tók gildi tilkynnti Landspítalinn síðan að liðlega sjötug kona hefði látist á mánudeginum af völdum Covid-19. Hún hafði glímt við langvarandi veikindi. Mikil áhrif á daglegt líf Það er ekki ofsögum sagt að kórónuveiran og samkomubannið hafi haft víðtæk áhrif á daglegt líf þjóðarinnar. Þannig þurftu margir vinnustaðir og starfsmenn þeirra að aðlagast fljótt þegar ljóst var að ekki mættu fleiri en 20 koma saman í sama rýminu. Fjöldi vinnandi fólks hóf að vinna heima í svokallaðri fjarvinnu. Þar sem skólastarf var skert þurftu foreldrar jafnvel líka að sinna einhverri kennslu heima, fyrir utan auðvitað að sinna börnunum sjálfum og þörfum þeirra, á milli þess sem þeir reyndu að sinna vinnunni. Margrét Helga Erlingsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, sést hér lesa fréttir á Bylgjunni heiman frá sér í apríl. Með henni á myndinni er dóttir hennar, Ísabella Ellen Jónsdóttir.Vísir/Vilhelm Þá var afþreying af skornum skammti þar sem öllum sundlaugum, söfnum, leikhúsum, kvikmyndahúsum og líkamsræktarstöðvum hafði verið skellt í lás. Það var því ekki annað í stöðunni en að drífa sig út að hjóla, ganga eða hlaupa og margir komu sér upp lítilli rækt heima. Þessi breyting á okkar daglega lífi sást meðal annars í auknum fjölda þeirra sem fóru um göngu- og hjólastíga höfuðborgarsvæðisins á tveimur jafnfljótum eða hjóli. Á sumum stígum var fjölgunin meira en 35 þúsund vegfarendur á milli ára. Það var síðan mikil ásókn í að kaupa ketilbjöllur og handlóð og seldust þær vörur eins og heitar lummur. Bökunarvörur seldust einnig í stórum stíl og súrdeigsæði greip þjóðina. Margir hafa því eflaust bakað meira en venjulega í samkomubanninu og sumir eignast sinn eigin súr. Áhrifin á umferðina voru síðan töluverð. Samkomubannið hafði þau áhrif að Íslendingar voru minna á ferðinni og ferðabönn ESB og Bandaríkjanna leiddu til þess að ferðamönnum sem komu til landsins snarfækkaði á aðeins örfáum dögum. Umferðin um hringveginn dróst þannig saman um allt að 40% og á höfuðborgarsvæðinu um allt að 15% á fyrstu dögum og vikum samkomubanns og ferðabanns. Myndin er tekin á Hellisheiði þegar faraldurinn stóð sem hæst. Mjög dró úr umferð um land allt vegna faraldursins.Vísir/Vilhelm Svartsýnasta spá gerði ráð fyrir 2.300 smitum Það má segja að það helsta sem landlæknir og sóttvarnalæknir lögðu áherslu á þegar kom að viðbrögðum yfirvalda við faraldrinum hér á landi var að verja viðkvæmustu hópana fyrir smiti og að verja heilbrigðiskerfið; að gera Landspítalanum kleift að sinna þeim sem myndu smitast af veirunni og að allir sem myndu þurfa á því að halda gætu lagst þar inn án þess að álagið á spítalann yrði óviðráðanlegt. Þótt lítið væri vitað um veiruna þegar faraldurinn hófst lá fyrir að eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma væri í sérstakri hættu á að veikjast alvarlega ef það smitaðist, og þar með látast af völdum Covid-19. Til verndar þessum hópum var því sett á heimsóknarbann á hjúkrunar- og dvalarheimilum og á Landspítalanum. Yfirvöld litu síðan til spálíkans vísindamanna Háskóla Íslands til þess að reyna að fá einhverja mynd af því hver þróun faraldursins hér á landi gæti orðið. Í frétt á Vísi þann 25. mars var sagt frá nýju spálíkani háskólans þar sem kom fram að búist væri við því að rúmlega 1.500 manns myndu greinast með Covid-19. Svartsýnasta spáin gerði þó ráð fyrir því að allt að 2.300 greindum smitum. Þá var því spáð að faraldurinn myndi ná hámarki í fyrstu viku apríl og fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm yrði þá um 1.200 manns. Meira en þúsund smit og mikið álag á Landspítalanum Og það var ekki að ástæðulausu sem yfirvöld höfðu áhyggjur af miklu álagi á Landspítalann. Þann 27. mars sagði Vísir frá því að sex einstaklingar væru nú inniliggjandi á gjörgæsludeild spítalans og að þeir væru allir á öndunarvél. Róðurinn var tekinn að þyngjast verulega á spítalanum vegna faraldursins en þennan sama dag voru staðfest smit orðin 890 talsins. Þá voru rúmlega 100 manns með meðalslæm eða versnandi einkenni vegna Covid-19. Tveimur dögum síðar voru staðfest smit síðan orðin fleiri en þúsund. Nítján manns voru á sjúkrahúsi og þar af níu á gjörgæslu. Um 9.500 voru í sóttkví og um 15.500 sýni höfðu verið tekin. 124 var batnað af Covid-19. Um mánaðamótin mars/apríl gerði svartsýnasta spá vísindamanna HÍ ráð fyrir því að mesta álag á gjörgæsludeild Landspítalans yrði í annarri viku aprílmánaðar. Þá mætti búast við því að allt að átján manns myndu þurfa innlögn á gjörgæslu en að hátt 200 manns myndu þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði næg rúm til staðar á gjörgæslunni en að mönnun deildarinnar gæti orðið takmarkandi þáttur þegar álag myndi aukast. Þá fóru yfirvöld að brýna fyrir fólki að ferðast ekki út á land um páskana þar sem það gæti aukið álagið á heilbrigðiskerfið. Skimun fyrir kórónuveirunni hjá Heilsugæslunni Höfða. Alls hafa verið tekin sýni hjá tæplega 58 þúsund manns.Vísir/Vilhelm Aldrei höfðu fleiri misst vinnuna eða hluta úr vinnu á jafnskömmum tíma Strax um miðjan mars var ljóst að faraldurinn myndi hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn og að atvinnuleysi myndi aukast, ekki síst innan stærstu útflutningsgreinar landsins, ferðaþjónustunnar. Þann 23. mars tilkynnti Icelandair að það myndi segja upp 240 manns og skerða starfshlutfallið hjá 92% starfsfólks. Þeir starfsmenn sem voru áfram í fullu starfi lækkuðu um 20% í launum, framkvæmdastjórar um 25% og laun forstjóra og stjórnar lækkuðu um 30%. Þá sagði Isavia upp rúmlega 100 manns og 164 misstu vinnuna hjá Bláa lóninu, einum vinsælasta ferðamannastað landsins. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði að aldrei hefðu fleiri misst vinnuna á jafnskömmum tíma en á þessum nokkrum vikum í mars. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.Vísir/Egill Um mánaðamótin mars/apríl höfðu 23 þúsund manns sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls og 5.400 manns um almennar atvinnuleysibætur. Sautján hópuppsagnir höfðu verið tilkynntar til Vinnumálastofnunar. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, lýsti miklum áhyggjum af miklu atvinnuleysi í bænum sem hann óttaðist að gæti farið upp í allt að 20%. Berg í Bolungarvík Þann 31. mars tilkynnti lögreglan á Vestfjörðum að fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hefði greinst í Bolungarvík. Stór hluti kennara og nemenda í bænum fór í sóttkví eftir að smitið kom upp og daginn eftir voru aðgerðir hertar á norðanverðum Vestfjörðum. Leik- og grunnskólum Bolungarvíkur og Ísafjarðar var lokað frá og með 2. apríl og samkomubann var miðað við fimm manns. Fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum mátti ekki fara yfir þrjátíu manns. Þann 3. apríl var síðan greint frá því á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST) að íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík hefði greinst með kórónuveiruna: „Eitt Covid-19 smit hefur verið staðfest á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Tveir íbúar til viðbótar eru í einangrun og eru sýni úr þeim á leið til Reykjavíkur. Átta heimilismenn eru í sóttkví, samtals ellefu manns. Berg er hluti af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Stærstur hluti starfsmanna á Bergi, eða sautján, eru í sóttkví og til viðbótar eru starfsmenn á Bóli einnig í sóttkví. Ból er heimili fyrir fatlað barn sem rekið er í húsnæði sem samtengt er Bergi. Starfsfólk hefur verið flutt eftir föngum af öðrum deildum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til aðstoðar. Þá hefur verið kallað á fólk úr bakvarðasveitum og von er á fólki í dag frá öðrum landshlutum. Verulegt álag er á starfsmönnum á heimilinu og frekari þörf fyrir vel þjálfað starfsfólk á næstu dögum og vikum,“ sagði í tilkynningunni á vefsíðu HVEST. Hópsýking kom upp á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og var staðan grafalvarleg um tíma.Bolungarvík.is Bakvörður grunaður um lögbrot Gylfi Ólafsson, forstjóri stofnunarinnar, rakti málið í þræði á Twitter-síðu sinni í lok apríl. Þar kom fram að fyrsta smitið á Bergi hefði verið staðfest þann 1. apríl. Þann 6. apríl komu fyrstu bakverðirnir úr bakvarðasveit heilbrigðisstarfsfólks vestur á firði. Daginn áður hafði verið greint frá því að íbúi á hjúkrunarheimilinu hefði látist úr Covid-19. Tveir aðrir heimilismenn voru með staðfest smit og þrír til viðbótar voru í einangrun. Fjórum dögum eftir að bakverðirnir komu til starfa á Bergi, á föstudaginn langa, vaknaði grunur um að einn þeirra, kona á miðjum aldri, hefði villt á sér heimildir. Hún var grunuð um að hafa falsað gögn um tilskilin réttindi til heilbrigðisstarfa auk þess sem hún var grunuð um að hafa stolið eða reynt að stela lyfjum á hjúkrunarheimilinu. Málinu var vísað til lögreglu sem tók það til rannsóknar og sendi það svo áfram til héraðssaksóknara í byrjun maí sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út. Alls greindust sjö af ellefu íbúum á Bergi með Covid-19. Tveir þeirra létust af völdum sjúkdómsins. Af þrjátíu starfsmönnum hjúkrunarheimilisins smituðust átta af veirunni. Í þræði forstjóri HVEST á Twitter í lok apríl kom fram að alls hefðu 6% íbúa Bolungarvíkur smitast af veirunni. This is the story of how a remote Icelandic fishing community and its nursing home were hit hard by Covid-19 while also facing harsh winter storms. I'm the CEO of its regional healthcare institute. THREAD. pic.twitter.com/GWBN2VuiOE— Gylfi Ólafsson (@GylfiOlafsson) April 30, 2020 Hápunktinum náð Á meðan ástandið var sem alvarlegast á Bergi var staðan einnig slæm á landsvísu. 3. apríl tilkynnti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, að hún myndi fara að tillögu sóttvarnalæknis og framlengja samkomubannið til 4. maí. „Þótt vel hafi gengið að halda útbreiðslu smita í skefjum veldur áhyggjum hve alvarlega veikum einstaklingum sem þurfa á gjörgæslu að halda hefur fjölgað hratt,“ sagði í tilkynningu á vef ráðuneytisins. Þennan dag voru alls 45 manns á sjúkrahúsi vegna Covid-19, þar af 12 á gjörgæslu og af þeim níu í öndunarvél að því er fram kom á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis. Þann 5. apríl náði faraldurinn síðan hámarki sínu þegar litið er til virkra smita samkvæmt tölulegum upplýsingum á covid.is. Þann dag voru 1.096 einstaklingar með virkt smit en 460 höfðu náð bata. Fleiri en 1.500 höfðu því greinst með kórónuveiruna hér á landi. Degi síðar var svo greint frá sjötta dauðsfallinu vegna Covid-19. Þann sama dag, 6. apríl, var einnig greint frá því að tvö andlát væru rannsökuð sem sakamál. Annars vegar var karlmaður úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið sambýliskonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði í lok mars. Hins vegar var karlmaður um þrítugt úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið móður sinni að bana í heimahúsi í Hafnarfirði í byrjun apríl. Á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis þann 8. apríl sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, síðan frá því að hann teldi hápunkti faraldursins náð. Fleiri næðu sér nú af smiti en þeir sem væru að greinast með veiruna á hverjum degi. Á sama fundi benti Alma Möller, landlæknir, á að þótt toppi faraldursins væri náð í smitum yrði toppnum í heilbrigðiskerfinu ekki náð fyrr en eftir viku til tíu daga. „Ferðumst innanhúss“ Skírdag bar upp á 9. apríl í ár. Eins og áður segir höfðu yfirvöld hvatt landsmenn til þess að vera ekki á faraldsfæti um páskana til að koma í veg fyrir aukið álag á heilbrigðiskerfið. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, biðlaði til þjóðarinnar að ferðast innanhúss um páskana, með öðrum orðum að halda sig heima. Þrátt fyrir fréttir um að margir væru til dæmis í sumarbústöðum í Bláskógabyggð yfir páskana þá benti til að mynda umferðin út úr höfuðborginni til þess að fleiri héldu sig nú heima í páskafríinu en undanfarin ár. Lögreglan sagði umferðina út úr borginni í aðdraganda páska þannig hafa verið töluvert minni en í fyrra. Víðir var því ánægður með landsmenn að lokinni páskahelginni og sagði allt hafa gengið vel. „Það voru engin stórslys og ekkert sem gerðist sem jók álagið á heilbrigðiskerfið. Það var það sem maður var að leitast eftir og auðvitað er maður bara alsæll með það að þetta hafi gengið. Við höfðum verulegar áhyggjur af þessu fyrir páska eins og kom skýrt fram að ef eitthvað myndi ganga á þannig að kerfið myndi fá meira álag sem það má ekki við,“ sagði Víðir í viðtali að morgni 14. apríl. Þríeykið á einum af þeim tugum upplýsingafunda sem haldnir hafa verið vegna kórónuveirufaraldursins.Vísir/Vilhelm Hefðbundið skólahald og slakað á heimsóknarbanni Síðar þann sama dag boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar þar sem hún tilkynnti um fyrstu skrefin varðandi tilslakanir á samkomubanninu. Þá voru 641 einstaklingur með virkt kórónuveirusmit. Alls 1.078 höfðu náð sér eftir að hafa smitast en átta höfðu látist eftir að hafa fengið Covid-19. Tilslakanirnar sem ríkisstjórnin kynnti fólu meðal annars í sér að fjöldamörk samkomubanns yrðu hækkuð úr 20 í 50 manns, opnað yrði fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum, framhalds- og háskólar yrðu opnaðir með takmörkunum og ýmis þjónustustarfsemi yrði leyfð á ný, til að mynda starfsemi hárgreiðslustofa, tannlækna og nuddara. Sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, barir og skemmtistaðir yrðu þó áfram lokaðir. Breytingarnar skyldu taka gildi þann 4. maí. Þá var jafnframt lagt til í minnisblaði sóttvarnalæknis, sem tillögur heilbrigðisráðherra um tilslakanir samkomubannsins byggðu á, að fjöldasamkomur hér á landi yrðu takmarkaðar við að hámarki 2.000 manns að minnsta kosti út ágúst. Engar slíkar reglur hafa þó enn tekið gildi en ráðherra sagði mikilvægt að skipuleggjendur stórra viðburða sumarsins hefðu þessa tölu á bak við eyrað. Tveimur dögum eftir að fyrstu tilslakanir voru kynntar bárust fréttir af því að stefnt væri á að aflétta heimsóknarbanni á hjúkrunar- og dvalarheimilum þann 4. maí. Ströng skilyrði yrðu þó fyrir heimsóknum á heimilin. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, sagði í samtali við fréttastofu að heimsóknarbannið, sem þá hafði varað í 40 daga, hefði verið mörgum mjög þungbært en það hefði þó verið algjörlega nauðsynleg ráðstöfun. Væntingar og vonbrigði Á þessum tíma, um miðjan apríl, var ljóst að faraldurinn sjálfur var á niðurleið. Áhrif hans á samfélagið, og þá ekki hvað síst á efnahagslífið, voru hins vegar langt í frá hverfandi og sér í raun ekki fyrir endann á þeim. Þegar ríkisstjórnin kynnti fyrsta aðgerðapakka sinn í mars lá fyrir að nauðsynlegt yrði að ráðast í frekari aðgerðir. Algjört tekjufall hafði orðið í ferðaþjónustunni og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum sem hafði verið gert að loka vegna faraldursins. Icelandair boðaði frekari uppsagnir í apríl og Bjarnheiður Halldórsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, varaði því að meirihluti ferðaþjónustufyrirtækja færu í þrot ef ekki kæmu til sértækari aðgerðir til handa greininni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnir aðgerðapakka tvö í Safnahúsinu í apríl.Vísir/Vilhelm Þann 21. apríl kynnti ríkisstjórnin svo aðgerðapakka tvö. Kostnaður við pakkann í heild sinni var áætlaður um 60 milljarðar. Aðgerðirnar fólu meðal annars í sér styrki til fyrirtækja sem hafði verið gert að loka vegna faraldursins og hagstæð lán til meðalstórra fyrirtækja. Þá yrðu fjármunir settir í að skapa sumarstörf fyrir námsmenn og 8,5 milljörðum skyldi varið í félagslegar aðgerðir vegna viðkvæmra hópa. Væntingarnar til þessa aðgerðapakka voru miklar, ekki hvað síst innan ferðaþjónustunnar, en forsvarsmenn fyrirtækja í greininni lýstu miklum vonbrigðum með pakkann. Kölluðu þeir eftir svörum frá stjórnvöldum um framhald hlutabótaleiðarinnar og hvort að ríkið hygðist greiða hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti svo að fyrirtæki sem hefðu orðið fyrir nánast algjöru tekjufalli gætu farið í nokkurs hýði á meðan það versta gengi yfir. Lagði ferðaþjónustan áherslu á að fá svör fyrir mánaðamótin apríl/maí. Stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar Viku eftir að aðgerðapakki tvö var kynntur, eða þann 28. apríl, blés ríkisstjórnin til blaðamannafundar og kynnti aðgerðapakka þrjú. Í honum fólst að hlutabótaleiðin var framlengd til ágústloka en útfærslunni breytt. Þá gátu fyrirtæki sem orðið höfðu fyrir 75% tekjuskerðingu eða meira sótt um stuðning frá ríkinu til greiðslu hluta launa fólks sem sagt væri upp störfum vegna kórónuveirufaraldursins. Einnig voru boðaðar einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem myndu miða að því að þau gætu komist í skjól með einföldum hætti. Aðgerðirnar veittu fyrirtækjum í ferðaþjónustu von sagði Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor, í samtali við fréttastofu. „Þessi björgunarpakki ríkistjórnarinnar veitir fyrirtækjum í ferðaþjónustu von sem var að slökkna bara í gær. Auðvitað hjálpar þetta ekki öllum en þetta mun koma mörgum til bjargar,“ sagði Ásberg í kvöldfréttum Stöðvar 2. Um tveimur klukkutímum eftir að ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar sendi Icelandair frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að 2.140 starfsmönnum fyrirtækisins yrði sagt upp. Þar af voru 897 flugfreyjur og þjónar. Þeir sem myndu áfram starfa hjá félaginu væru langflestir í skertu starfshlutfalli og aðrir í fullu starfi með skert laun. Samhliða var ráðist í breytingar á skipulagi félagsins og daginn eftir bárust fregnir af því að fyrirtækið ætlaði að sækja sér allt að 29 milljarða króna í nýju hlutafjárútboði. Ein af þotum Icelandair á Keflavíkurflugvelli en þær eru flestar ekki í notkun vegna mikilla ferðatakmarkana sem eru gildi út af veirunni.Vísir/Vilhelm Staðan í atvinnumálum verst á Suðurnesjum Hópuppsögn Icelandair er stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar. 29. apríl bárust Vinnumálastofnun síðan fimmtán tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 700 til 800 manns misstu vinnuna, langflestir starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja. Þá þegar voru alls um 50.000 manns á atvinnuleysisbótum eða hlutaatvinnuleysisbótum. Alls bárust Vinnumálastofnun 56 tilkynningar um hópuppsagnir í apríl þar sem 4.643 starfsmönnum var sagt upp störfum. Það bættist ofan á hópuppsagnir marsmánaðar þegar 29 fyrirtæki sögðu upp 1207 manns. Samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn sem gefin var út í fyrr í þessum mánuði fór heildaratvinnuleysi í apríl upp í 17,8% samanlagt, það er 7,5% atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og 10,3% vegna minnkaðs starfshlutfalls. Staðan er verst á Suðurnesjum eða eins og segir í skýrslu Vinnumálastofnunar: „Atvinnuleysi fór í 25,2% á Suðurnesjum í apríl og fór úr 14,1% í mars. Það skiptist þannig að almennt atvinnuleysi er 11,2% og atvinnuleysi sem tengist minnkaða starfshlutfallinu er 14,0%. Atvinnuástand á Suðurnesjum er sýnu verst á landinu enda hefur flugstarfsemi og ferðaþjónusta meira vægi í atvinnulífi Suðurnesja en í öðrum landshlutum.“ Greiddu arð, keyptu eigin bréf og nýttu hlutabótaleiðina Líkt og tölur Vinnumálastofnunar bera með sér eru tugir þúsunda vinnandi fólks á hinni svokölluðu hlutabótaleið. Meira en 6.000 fyrirtæki hafa nýtt sér leiðina en það hefur ekki verið óumdeilt hvaða fyrirtæki hafa nýtt sér úrræðið og með hvaða hætti. Þegar lög um hlutabætur voru sett var úrræðið haft opið og engin ákvæði til að mynda í lögunum um að fyrirtæki sem höfðu greitt sér arð eða keypt eigin hlutabréf, með öðrum orðum stöndug fyrirtæki, gætu ekki sett fólk á hlutabætur og látið ríkið greiða þannig launakostnaðinn á móti sér. Þó var ljóst, og kemur skýrt fram í greinargerð frumvarps um hlutabætur, að úrræðið var fyrst og fremst hugsað fyrir fyrirtæki sem ættu við tímabundinn rekstrarvanda að etja vegna kórónuveirunnar. Er í greinargerðinni til að mynda sérstaklega vikið að ferðaþjónustunni. Það vakti því töluverða reiði þegar greint var frá því fyrir um tveimur vikum að fyrirtæki sem standa að flestu leyti vel hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina; jafnvel sett yfir 100 starfsmenn á hlutabætur en greitt sér út arð eða keypt eigin bréf skömmu áður. Þannig setti Össur 165 starfsmenn á hlutabætur en á aðalfundi þann 12. mars hafði verið ákveðið að greiða eigendum 1,2 milljarða í arð. Þá var starfshlutfall um helmings starfsmanna Skeljungs lækkað en félagið greiddi hluthöfum sínum 600 milljóna króna arð í aprílbyrjun og keypti eigin bréf fyrir 186 milljónir í sama mánuði. Hagar nýttu sér einnig hlutabótaleiðina en höfðu keypt eigin bréf fyrir meira en 400 milljónir króna frá því í lok febrúar. Festi hf. nýtti sér einnig úrræði en gert er ráð fyrir 7,3 milljarða rekstrarhagnaði á árinu hjá fyrirtækinu. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri félagsins, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann gerði ekki ráð fyrir því að Festi myndi hætta að nýta sér úrræðið. Óþolandi að sjá fyrirtæki misnota aðstoð stjórnvalda Bæði verkalýðshreyfingin og ráðherrar gagnrýndu stöndug fyrirtæki fyrir að nýta sér hlutabótaleiðina. Sagði Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, algjörlega óþolandi að sjá fyrirtæki misnota aðstoð stjórnvalda og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði fyrirtækin reka rýting í samstöðuna sem stjórnvöld væru að kalla eftir. „Fyrirtæki sem augljóslega eru fjárhagslega sterk og geta verið að dreifa peningum til hluthafa sinna, þau eiga ekki að hafa það sem sitt fyrsta úrræði að leita til ríkisins til þess að standa undir launakostnaði starfsmanna sinna,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu þann 8. maí. Daginn áður hafði Skeljungur tilkynnt að félagið ætlaði að hætta að nýta hlutabótaleiðina. Starfsmenn yrðu ráðnir aftur í fullt starf og Vinnumálastofnun fengi bæturnar endurgreiddar. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, koma af ríkisstjórnarfundi.Vísir/Vilhelm Fleiri fyrirtæki fylgdu í kjölfarið, þar á meðal Hagar, Festi og Össur. Össur og Hagar tilkynntu að þau ætluðu að hætta að nýta úrræðið og endurgreiða bæturnar. Festi tilkynntu einnig að þau ætluðu ekki að nýta hlutabótaleiðina lengur og sagði forstjórinn í samtali við Vísi að fyrirtækið hefði haft samband við Vinnumálastofnun með það fyrir augum að endurgreiða bæturnar. Kaupfélag Skagfirðinga, Iceland Seafood og Samherji tilkynntu öll að þau myndu endurgreiða Vinnumálastofnun og stjórnendur Origo ákváðu að hætta að nýta hlutabótaúrræðið. Sú ákvörðun gilti afturvirkt. Esja Gæðafæði ákvað jafnframt að hætta að nýta sér úrræðið og endurgreiða Vinnumálastofnun og það sama gilti um dótturfélög útgerðafélagsins Brim sem nýttu úrræðið. Eins og áður segir verður hlutabótaleiðin framlengd en í frumvarpi félagsmálaráðherra þess efnis eru sett skilyrði fyrir því að þau fyrirtæki sem nýti sér úrræðið muni til dæmis ekki greiða sér arð eða kaupa eigin hlutabréf á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023. Farið hraðar í tilslakanir á samkomubanni en til stóð Á meðan hrikt hefur í stoðum íslensk efnahagslífs undanfarinn mánuð eða svo vegna kórónuveirunnar hafa borist betri fréttir af þróun faraldursins. Nú er það svo að aðeins þrír eru með virk smit hér á landi samkvæmt covid.is, enginn á spítala og þar af leiðandi enginn á gjörgæslu. Þann 4. maí tóku fyrstu tilslakanir á samkomubanninu gildi. Þann sama dag sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að hann myndi leggja það til við heilbrigðisráðherra að opna sundlaugar landsins á ný þann 18. maí, með takmörkunum þó. Upplýsingafundir almannavarna og landlæknis voru nú ekki lengur daglegir þar sem ekki var talin þörf á því. Það var því á fundi tveimur dögum síðar sem Þórólfur tilkynnti að vegna þess hve vel hefði gengið að hemja faraldurinn yrði farið í næstu tilslakanir á samkomubanni fyrr en áætlað var. Áður hafði verið nefnt að næstu tilslakanir yrðu í byrjun júní en nú sagði Þórólfur að þær yrðu þann 25. maí. Líkamsræktarstöðvar yrðu meðal annars opnaðar með takmörkunum og 100 manns yrði að öllum líkindum leyft að koma saman í stað 50 eins og nú er. Á næsta upplýsingafundi tveimur dögum síðar kom svo fram í máli sóttvarnalæknis að hægt yrði að stíga stærra skref 25. maí; líklegt væri að samkomubannið myndi miða við fleiri en 100 manns. Nú liggur fyrir að næstkomandi mánudag mega að hámarki 200 manns koma saman. Líkamsræktarstöðvar mega opna, væntanlega með svipuðum takmörkunum og gilda nú í sundi þar sem gestir mega aldrei vera fleiri en nemur helmingi þess hámarksfjölda sem sundlaugin hefur leyfi fyrir. Þá mega barir, skemmtistaðir og spilasalir einnig opna á mánudaginn en ekki hafa opið lengur en til klukkan 23. Það var fámenni í miðbæ Reykajvíkur eitt föstudagskvöld í apríl þegar ljósmyndari Vísis var þar á ferðinni enda hefur djammið legið í dvala í tæpa tvo mánuði vegna samkomubannsins.Vísir/Vilhelm Umdeild opnun landamæra um miðjan júní Það var síðan á þriðjudaginn í síðustu viku sem ríkisstjórnin kynnti að stefnt væri að því að opna landamæri Íslands eigi síðar en 15. júní næstkomandi. Erlendum ferðamönnum og Íslendingum sem hingað koma til lands býðst þá að fara í skimun vegna kórónuveirunnar á Keflavíkurflugvelli. Reynist sýnið neikvætt þurfa þeir ekki að fara í tveggja vikna sóttkví. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði þessi skref í afléttingum ferðatakmarkana stór en varfærin. Þá sagði sóttvarnalæknir að hugmyndirnar um opnun landsins væru nokkuð í þeim anda sem hann hefði verið að hugsa. Hann þvertók fyrir að hafa látið undan þrýstingi um að slakað yrði á kröfum um sóttkví við komuna til landsins. Sagði Þórólfur að honum væri það ljóst að hann þyrfti fyrst og fremst að taka tillit til heilsufarssjónarmiða. Honum væri það jafnframt ljóst að á einhverjum tímapunkti þyrfti að opna landið. „Hvort sem það er í dag, eftir sex mánuði eða ár þá munum við alltaf standa frammi fyrir þessum spurningum og við þurfum að svara því hvernig það á að gerast,“ sagði sóttvarnalæknir. Ákvörðunin um opnun landamæranna er hins vegar umdeild, ekki hvað síst innan læknastéttarinnar. Hefur til dæmis verið gagnrýnt að tilkynnt hafi verið um að til stæði opna landið áður en áhættumat Landspítalans liggi fyrir varðandi það hvort spítalinn ráði við það aukna álag sem fylgi opnuninni. Þá liggur ekki fyrir hvernig staðið verður að sýnatökunni á Keflavíkurflugvelli. Verkefnisstjórn sem fékk það hlutverk að sjá um undirbúning og framkvæmd skimunarinnar á að skila sinni skýrslu næstkomandi mánudag. Afar fáir hafa verið á ferli á Keflavíkurflugvelli undanfarna tvo mánuði eða svo enda hefur farþegaflug nánast alfarið legið niðri um allan heim vegna kórónuveirufaraldursins.Vísir/Vilhelm „Ef við pössum okkur ekki vel þá getum við fengið aftur svona bylgju“ Þegar þetta er skrifað hafa alls 1.803 greinst með SARS-CoV-2 hér á landi og tíu látist af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem veiran veldur. Talað er um að þetta hafi verið fyrsta bylgja faraldursins og að önnur bylgja muni koma síðar á árinu. Stjórnendur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hafa til að mynda varað við því. Sóttvarnalæknir hefur sagt að það sé ómögulegt að segja til um hvort önnur bylgja komi og hvernig hún komi þá til með að vera. Alls kyns óvissuþættir spili inn í, til dæmis hvort að veiran muni breyta sér og verða mögulega vægari og hvort að einhverjar aðrar aðstæður komi upp sem geri það að verkum að hægt verði að ráða betur við faraldurinn. Þá skipti miklu máli að gæta að einstaklingsbundnum sótt- og sýkingarvörnum. „Við höfum nú rætt um þetta allan tímann frá því að þetta byrjaði, hvenær kemur bylgja tvö, hvenær kemur bylgja þrjú og hvernig verður hún og svona? Svarið við þessu er bara að þetta veit enginn. Þetta veit ekki Anthony Fauci, þetta vita heldur ekki aðilar hjá WHO. Menn geta spáð og spekúlerað en hvernig þetta verður nákvæmlega, það er ómögulegt að segja, alveg gjörsamlega. Kórónuveirur eru þannig að þær eru viðloðandi, þær hafa yfirleitt ekki gengið í neinum sérstökum bylgjum. Þannig að verður þetta viðvarandi ástand, fáum við aðra bylgju? Það fer bara eftir því hvað við pössum okkur vel. Ef við pössum okkur ekki vel þá getum við fengið aftur svona bylgju eins og við erum nýkomin út úr. Ef við pössum okkur vel og reynum að gæta að einstaklingsbundnum hreinlætisaðgerðum þá munum við geta haldið þessari veiru niðri,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis síðastliðinn mánudag. Faraldur kórónuveiru (COVID-19) Samkomubann á Íslandi Fréttaskýringar Mest lesið Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Vaktin: Totur farnar að teygja sig til norðurs Innlent Eldri maður á gamalli Corollu ógnaði ekki lífi hjóna á nýjum Ram Innlent Hörð viðbrögð við vaxtahækkunum Innlent Sigmundur hafi viljað í kennslustund með nemendum Innlent Segir íbúafundinn ekki hafa verið nægilega upplýsandi Innlent „Allt athafnasvæði Bláa lónsins er innan varnargarða“ Innlent Tilbúin að aflýsa verkföllum í fjórum leikskólum Innlent Með hundruð kílóa af þýfi heima hjá sér Innlent Ákærður fyrir að nauðga og myrða þrettán ára stúlku Erlent
„Óþekkt veira í Kína líklega ný gerð kórónaveiru“. Svona hljóðaði fyrirsögn fréttar sem birtist hér á Vísi þann 13. janúar síðastliðinn. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og daglegt líf eins og við þekktum það gjörbreyst, allt út af þessari óþekktu veiru sem í dag er þekkt sem kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum Covid-19. Formlegt heiti veirunnar er SARS-CoV-2. Í umfjölluninni sem hér fer á eftir er stiklað á stóru í fyrsta kafla Covid-19-sögu Íslands og er vert að taka fram að svo margt hefur gerst undanfarna mánuði að umfjöllunin er ekki tæmandi. Það verður seint sagt að nýliðinn vetur hafi verið sá besti, þá sérstaklega þegar litið er til veðursins á landinu. Í desember gekk mikið óveður yfir með tilheyrandi eyðileggingu og langvarandi rafmagnsleysi þar sem ástandið var verst á Norðurlandi. Ungur piltur lést eftir að hafa fallið í Núpá í Sölvadal þegar hann var að vinna við að hreinsa krapa við stíflu í ánni. Um miðjan janúar féllu síðan snjóflóð á Flateyri og Suðureyri. Flóðin ollu miklu tjóni en sem betur fer varð ekki manntjón heldur mannbjörg þegar unglingsstúlku var bjargað á lífi úr öðru flóðinu á Flateyri. Á Valentínusardag, 14. febrúar, kom síðan enn ein óveðurslægðin. Aftur varð mikið tjón víða um land vegna veðurofsans þar sem bílar til dæmis skemmdust, rafmagnsstaurar brotnuðu og klæðningar á byggingum fuku af. Kórónuveiran átti þannig eftir að gera þennan slæma vetur verri en hún lét kannski ekki mikið yfir sér til að byrja með. Í fyrstu frétt Vísis af veirunni sagði að einn hefði þá látist vegna hennar og tugir smitast. Næstu daga á eftir birtust fleiri fréttir um veiruna. Var meðal annars sagt frá því að talið væri að hundruð Kínverja hefðu smitast af veirunni og að hún dreifðist hratt um landið. Þann 20. janúar ræddi fréttastofa við Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni, sem sagði enga ástæðu til að óttast þessa nýju veiru hér á landi, enn sem komið væri. Þá sagði hann jafnframt ekkert benda til þess að veiran smitaðist á milli manna. Frá borginni Wuhan í Kína í byrjun febrúar þar sem algjört útgöngubann var þá í gildi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.Vísir/Getty „Nánast allir sem hafa veikst og eru með staðfesta sýkingu hafa verið á ákveðnum útimarkaði í Wuhan í Kína. Þar hefur veiran fundist í umhverfissýnum. Þannig að menn eru fyrst og fremst að beina spjótum sínum að þessum stað. En svo hefur fólk sem hefur verið þar og ferðast til annarra landi líka verið að greinast. Ef veiran fer að smitast manna á milli og veldur miklum skakkaföllum þá gæti önnur staða komið upp en það á allt eftir að koma í ljós,“ sagði Þórólfur. Daginn eftir staðfestu heilbrigðisyfirvöld í Kína að smit gæti borist frá manni til manns og sama dag var fyrsta tilfelli veirunnar staðfest í Bandaríkjunum. Í sömu viku fóru að berast fregnir af því að grunur væri um smit í Bretlandi og Finnlandi og fyrsta tilfelli veirunnar í Evrópu var svo staðfest í Frakklandi þann 25. janúar. Óvissustig og afbókanir hjá ferðaþjónustufyrirtækjum Þremur dögum áður hafði Vísir sagt frá því að heilbrigðisyfirvöld á Íslandi væru að dusta rykið af viðbragðsáætlunum sínum. Það var síðan þann 28. janúar sem ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi vegna veirunnar hér á landi og daginn eftir var sagt frá því að hótel og hópferðafyrirtæki væru byrjuð að fá afbókanir fyrir sumarið. Þessi mynd er tekin á Keflavíkurflugvelli þann 31. janúar. Ferðamenn frá Asíu á leið heim eru með andlitsgrímur en þá var kórónuveiran farin að breiðast út um álfuna.Vísir/Vilhelm Þann 1. febrúar sagði sóttvarnalæknir svo frá því að nú væri hægt að greina kórónuveiruna hér á landi og var þann sama dag byrjað að skima fyrir henni. Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, sagði líklegt að veiran myndi greinast hér á landi. Það væri þó engin ástæða til að örvænta. Fjórum dögum síðar var greint frá því að Íslendingar sem væru að koma frá Kína þyrftu að fara í fjórtán daga sóttkví við komuna til landsins vegna kórónuveirunnar. Kínverskir ferðamenn þurftu þó ekki að fara í sóttkví. Þá beindi sóttvarnalæknir þeim tilmælum til almennings að huga vel að hreinlæti og þá sérstaklega handþvotti og að spritta sig. Landinn tók vel í þau tilmæli, að minnsta kosti ef marka má hversu mikið seldist af handspritti en Vísir ræddi við heildsala sem sagði hálfsársbirgðir hafa selst upp á fjórum dögum. Um miðjan febrúar höfðu 24 sýni verið tekin hér á landi og rannsökuð með tilliti til nýju kórónuveirunnar. Ekkert sýni reyndist jákvætt. Bless við handabönd, koss og knús Í seinni hluta febrúar tók veiran síðan að breiðast hratt út á Ítalíu og þann 24. febrúar var Íslendingum sem höfðu heimsótt fjögur héruð á Norður-Ítalíu gert að sæta tveggja vikna sóttkví við heimkomu. Daginn eftir var síðan greint frá því að sjö Íslendingar, hið minnsta, væru í sóttkví á hóteli á Tenerife eftir að smit greindist á hótelinu. Sama dag ræddi Vísir við Rögnvald Ólafsson, aðalvarðstjóra hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Hann sagði þá stund runna upp að Íslendingar ættu að forðast handabönd og kossaflens vegna kórónuveirunnar. Tveimur dögum síðar sendu heilbrigðisyfirvöld frá sér tilkynningu þar sem Íslendingum var ráðið frá því að fara til Suður-Kóreu, Írans, Kína og áðurnefndra fjögurra héraða á Ítalíu. Þá var hvatt til sérstakrar varúðar þegar ferðast væri til annarra svæða á Ítalíu, Tenerife, Japans, Singapúr og Hong Kong. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og Rögnvaldur Ólafsson, aðalvarðstjóri hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra á fyrsta blaðamannafundinum vegna kórónuveirunnar.Vísir/Vilhelm Síðar þennan sama dag, þann 26. febrúar, héldu yfirvöld hér á landi fyrsta blaðamannafundinn vegna kórónuveirunnar. Þar sátu þeir Rögnvaldur og Þórólfur fyrir svörum. Á þessum tíma höfðu um 80 þúsund manns greinst með veiruna í heiminum og um 3.000 manns látist vegna hennar, langflestir í Kína. Fram kom í máli Rögnvaldar að undanfarna daga hefðu yfirvöld fundið fyrir auknum áhuga almennings á veirunni og á næstunni yrðu reglulegir blaðamannafundir á borð við þennan. Þar með hófust daglegir upplýsingafundir yfirvalda vegna faraldursins. Fyrsti Íslendingurinn sem greindist með veiruna Það var síðan föstudaginn 28. febrúar sem að fyrsta staðfesta tilfelli kórónuveirunnar greindist hér á landi. Hættustigi almannavarna var í kjölfarið lýst yfir. Í tilkynningu frá embætti landlæknis kom fram að íslenskur karlmaður á fimmtugsaldri hefði verið færður í einangrun á Landspítalanum eftir að sýni úr honum reyndist jákvætt fyrir veirunni. Maðurinn væri ekki alvarlega veikur en með dæmi gerð einkenni Covid 19-sjúkdómsins. Hann hafði nýlega verið á Norður-Ítalíu en utan skilgreinds hættusvæðis fyrir veiruna. Síðdegis þennan næstsíðasta dag febrúarmánaðar boðuðu almannavarnir og landlæknir til blaðamannafundar. Aftur sat Þórólfur fyrir svörum en nú ásamt þeim Ölmu Möller, landlækni, og Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra. Þríeykið svokallaða, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Alma Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á sínum fyrsta upplýsingafundi saman. Með þeim á þessum fundi var Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala. Það skal tekið fram að hér var ekki búið að setja tveggja metra regluna.Vísir/Vilhelm Þar með var þríeykið svokallaða myndað en Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Landspítala, var einnig á fundinum. Næstu tvo daga greindust tveir til viðbótar og hundruð fóru í sóttkví vegna þeirra smita. Smitunum fjölgaði síðan jafnt og þétt fyrstu vikuna og þann 6. mars, viku eftir að fyrsta smitið greindist, voru staðfest tilfelli orðin 45. Þar af voru fjögur innanlandssmit. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir. Heimsóknarbann var sett á á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem og á Landspítalanum. Árshátíðum frestað og ýmis álitamál Áhrifa faraldursins gætti strax á fyrstu vikunni. Fyrirtæki frestuðu árshátíðum og stórum viðburðum á borð við sýningu Verk og vit var einnig frestað. Þá komu upp ýmis álitamál. Þannig voru verkalýðsfélögin og Samtök atvinnulífsins ekki sammála um það að vinnuveitandi ætti að greiða laun fólks í sóttkví. Stjórnvöld stigu inn í og lýstu því yfir að laun þeirra sem gert væri að fara í sóttkví yrðu tryggð. Það varð síðan töluvert fjaðrafok þegar Íslensk erfðagreining (ÍE) bauðst til þess að skima fyrir veirunni og greina hana. Á tímabili leit út fyrir að ekkert yrði af því að fyrirtækið myndi hefja skimun þar sem Vísindasiðanefnd og Persónuvernd gerðu athugasemdir við skimunina. Ef um vísindarannsókn væri að ræða væri slíkt leyfisskylt samkvæmt lögum en Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, sagði fyrirtækið ætla að taka þátt í klíniskri vinnu en ekki vísindarannsókn. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sagði óvissu með fyrirhugaða notkun gagnanna hafa kallað á frekari skýringar frá ÍE. Þegar þær höfðu fengist kom í ljós að skimunin væri ekki leyfisskyld. Þar með var ekkert því til fyrirstöðu að ÍE færi að skima fyrir veirunni og greina hana. Hófst skimunin föstudaginn 13. mars. „Maður snöggreiðist innan í sér þegar maður heyrir svona ákvarðanir“ Daginn áður höfðu stórtíðindi borist frá Bandaríkjunum þegar Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tilkynnti um bann við ferðalögum frá Evrópu til Bandaríkjanna til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar en Evrópu var nú orðin miðpunktur faraldursins. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, ávarpar hér þjóð sína þann 11. mars síðastliðinn og tilkynnir um ferðabannið frá Evrópu til Bandaríkjanna.EPA/Doug Mills Bannið náði til allra íbúa landa innan Schengen-svæðisins en bandarískir ríkisborgarar gátu komið heim frá Evrópu. Þá voru Bandaríkjamenn hvattir til þess að ferðast ekki til Evrópu. Strax varð ljóst að efnahagsleg áhrif þessarar einhliða ákvörðunar Trump yrðu mikil hér á landi enda bandarískir ferðamenn stærsti hópurinn sem farið hefur um Leifsstöð síðustu ár. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði ferðabannið gríðarlegt reiðarslag fyrir þjóðina. „Maður snöggreiðist innan í sér þegar maður heyrir svona ákvarðanir sem manni finnst að eigi ekki að geta komið upp í alþjóðasamskiptum, án fyrirvara og einhliða. Ég lít þannig á að við ættum frekar að efla samstarf ríkja um að lágmarka útbreiðsluna og efnahagsleg áhrif af henni,“ sagði Bjarni meðal annars í viðtali í Bítinu á Bylgjunni þann 12. mars. Þennan sama dag fóru staðfest smit hér á landi svo yfir 100 þegar tilkynnt var um það að 103 einstaklingar hefðu greinst með kórónuveiruna hér á landi. Föstudagurinn þrettándi og samkomubann Það var síðan skammt stórra högga á milli því daginn eftir, föstudaginn 13. mars, boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar þar sem tilkynnt var um samkomubann í fjórar vikur sem tók gildi á miðnætti 15. mars. Var þetta í fyrsta sinn sem slíkt samkomubann var sett á í lýðveldissögunni en miðað var við að ekki mættu fleiri en 100 manns koma saman. Þá var tveggja metra reglunni komið á sem almenningur ætti að þekkja vel í dag. Háskólum og framhaldsskólum var lokað og lagt upp með fjarnám í þeim menntastofnunum. Starf leikskóla og grunnskóla var áfram heimilt en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Áhrifa samkomubannsins gætti strax þennan föstudag þótt það tæki ekki gildi fyrr en tæpum þremur sólarhringum síðar. Þannig myndaðist örtröð í verslunum og landinn tók að hamstra vörur. Yfirvöld sögðu það ástæðulaust þar sem nóg væri til að vörum í landinu. Það var enginn fótbolti í samkomubanninu, hvorki hér á landi né víðast hvar annars staðar.Vísir/Vilhelm Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) ákvað að fresta öllum leikjum á meðan á samkomubannið væri og Handknattleiksamband Íslands (HSÍ) frestaði öllum leikjum ótímabundið. Þá setti Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) allt á ís í að minnsta kosti fjórar vikur. Þjóðkirkjan felldi síðan niður allt messuhald og allar fermingar vegna samkomubannsins. Sagði í tilkynningu að ákvörðunin væri tekin með almannaheill í húfi og að hún myndi gilda á meðan það væri samkomubann. Fyrsti dagur samkomubanns og ferðabann ESB Sama dag og tilkynnt var um samkomubannið samþykkti Alþingi síðan fyrsta frumvarpið sem lagt var fram til þess að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins á efnahagslífið. Frumvarpið sneri að því að fyrirtæki gátu fengið frest á tryggingagjaldi og staðgreiðslu opinberra gjalda. Var það samþykkt samhljóða með 47 atkvæðum en sextán þingmenn voru fjarverandi. Samkomubannið tók síðan gildi klukkan 00:01 aðfaranótt mánudagsins 16. mars. Þá höfðu 186 greinst með kórónuveiruna hér á landi, samkvæmt upplýsingum á covid.is, og tæplega 1.800 einstaklingar voru í sóttkví. Þrír voru á sjúkrahúsi vegna veirunnar, þar af tveir á gjörgæslu. Fjölmargir skólar og leikskólar voru lokaðir fyrsta dag samkomubannsins auk þess sem sundlaugar og líkamsræktarstöðvar lokuðu víða. Dagurinn var nýttur til þess að skipuleggja starfið og hvernig hægt væri að hafa opið í samkomubanni. Myndin er tekin í Bónus í Holtagörðum eftir að samkomubann hafði tekið gildi. Starfsmaður verslunarinnar sést hér sótthreinsa sameiginlegan snertiflöt; handfangið á innkaupakerru.Vísir/Vilhelm Undir kvöld bárust síðan fréttir af ferðabanni til Evrópusambandsins og annarra Schengen-ríkja sem ætlað var að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Slíkt bann er enn í gildi og tekur Ísland þátt í því en þegar fyrstu fréttir af banninu bárust sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, um mikil og stór tíðindi að ræða sem bæru mjög brátt að. Skoða þyrfti hvað ferðabannið myndi þýða í framkvæmd fyrir Ísland. „Það hefur verið okkar lína, miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag að þetta myndi ekki skila tilætluðum árangri,“ sagði Áslaug. Fjórum dögum síðar lá fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að taka þátt í banninu. „Þrátt fyrir að ferðabann hafi ekki verið ofarlega hjá okkar sérfræðingum sem árangursrík aðferð gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins þá hefur verið biðlað til okkar að taka þátt í lokun landamæra ESB- og Schengen-ríkjanna og við eigum óhægt um vik að skorast undan því,“ sagði dómsmálaráðherra þá. Ástralskur ferðamaður sem lést reyndist smitaður af veirunni Að loknum fyrsta degi samkomubannsins lá fyrir að kennsludögum yrði fækkað hjá nemendum í grunn- og leikskólum á öllu landinu vegna veirunnar. Talið var inn í verslanir sem grípa þurftu til ýmissa ráðstafanna vegna bannsins og þá var ákveðið að opna sundlaugarnar á ný á þriðjudeginum. Maðurinn hafði verið á ferðalagi hér á landi ásamt konu sinni þegar hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.Vísir/Vilhelm Á öðrum degi samkomubanns, þriðjudaginn 17. mars, var síðan greint frá því að ferðamaður frá Ástralíu sem lést á Húsavík daginn áður hefði reynst smitaður af kórónuveirunni. Þá lá ekki fyrir hvort að maðurinn hefði látist vegna Covid-19-sjúkdómsins en síðar fékkst sú dánarorsök staðfest. Ástralinn, sem var á fertugsaldri, var því sá fyrsti sem lést hér á landi af völdum Covid-19. Ljóst var að faraldurinn var að færast mjög í aukana og að efnahagsleg áhrif af útbreiðslu veirunnar yrðu mikil. Smitum fjölgaði ört í fyrstu viku samkomubannsins og boðuðu yfirvöld hertari aðgerðir. Þá var öllum Íslendingum sem og öðrum með búsetu hér á landi gert að sæta tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins frá og með 19. mars. Þær reglur eru enn í gildi auk þess sem erlendir ferðamenn þurfa að sæta tveggja vikna sóttkví komi þeir hingað til lands. Þær reglur tóku gildi 24. apríl og gilda til 15. júní að óbreyttu. Hlutabætur, brúarlán og frestun skattgreiðslna Áður en tilkynnt var um hertari reglur í samkomubanni boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar og kynnti aðgerðir til að bregðast við miklum efnahagslegum áhrifum af faraldrinum. Ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar laugardaginn 21. mars. Umfang þeirra nam 230 milljörðum króna og fólu meðal annars í sér svokallaða hlutabótaleið, brúarlán til fyrirtækja og frestun skattgreiðslna. Það var síðan á miðnætti aðfaranótt þriðjudagsins 24. mars sem hert samkomubann tók gildi. Samkomubann hafði reyndar þá þegar verið hert í Vestmannaeyjum þar sem viðburðir þar sem fleiri en tíu komu saman voru bannaðir. Staðfest smit í Eyjum voru orðin 41 þann 24. mars og tæplega 500 bæjarbúar voru komnir í sóttkví. Á landsvísu höfðu 648 verið greindir með veiruna og meira en 8.000 manns voru í sóttkví. Stjörnutorg var á meðal þeirra staða sem lokuðu vegna samkomubannsins.Vísir/Vilhelm Ekkert sund, engin klipping og engin æfing Hert samkomubann á landsvísu fól það í sér að ekki máttu fleiri en 20 manns koma saman. Sundlaugum, söfnum, líkamsræktarstöðvum, börum, skemmtistöðum og spilasölum var lokað og þá mátti ekki veita þjónustu þar sem mikil nánd er á milli viðskiptavina og þess sem veitir þjónustuna. Þar með lokuðu hárgreiðslustofur, tannlæknastofur og stofur sjúkraþjálfara svo eitthvað sé nefnt. Fjölda veitingastaða var einnig lokað sem og verslunum og þá féll allt íþróttastarf niður. Stórar matvöruverslanir og apótek voru undanskilin 20 manna banninu; þar máttu allt að 100 manns koma saman en tryggja þurfti að hægt væri að framfylgja tveggja metra reglunni. Sama dag og hert samkomubann tók gildi tilkynnti Landspítalinn síðan að liðlega sjötug kona hefði látist á mánudeginum af völdum Covid-19. Hún hafði glímt við langvarandi veikindi. Mikil áhrif á daglegt líf Það er ekki ofsögum sagt að kórónuveiran og samkomubannið hafi haft víðtæk áhrif á daglegt líf þjóðarinnar. Þannig þurftu margir vinnustaðir og starfsmenn þeirra að aðlagast fljótt þegar ljóst var að ekki mættu fleiri en 20 koma saman í sama rýminu. Fjöldi vinnandi fólks hóf að vinna heima í svokallaðri fjarvinnu. Þar sem skólastarf var skert þurftu foreldrar jafnvel líka að sinna einhverri kennslu heima, fyrir utan auðvitað að sinna börnunum sjálfum og þörfum þeirra, á milli þess sem þeir reyndu að sinna vinnunni. Margrét Helga Erlingsdóttir, fréttamaður Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, sést hér lesa fréttir á Bylgjunni heiman frá sér í apríl. Með henni á myndinni er dóttir hennar, Ísabella Ellen Jónsdóttir.Vísir/Vilhelm Þá var afþreying af skornum skammti þar sem öllum sundlaugum, söfnum, leikhúsum, kvikmyndahúsum og líkamsræktarstöðvum hafði verið skellt í lás. Það var því ekki annað í stöðunni en að drífa sig út að hjóla, ganga eða hlaupa og margir komu sér upp lítilli rækt heima. Þessi breyting á okkar daglega lífi sást meðal annars í auknum fjölda þeirra sem fóru um göngu- og hjólastíga höfuðborgarsvæðisins á tveimur jafnfljótum eða hjóli. Á sumum stígum var fjölgunin meira en 35 þúsund vegfarendur á milli ára. Það var síðan mikil ásókn í að kaupa ketilbjöllur og handlóð og seldust þær vörur eins og heitar lummur. Bökunarvörur seldust einnig í stórum stíl og súrdeigsæði greip þjóðina. Margir hafa því eflaust bakað meira en venjulega í samkomubanninu og sumir eignast sinn eigin súr. Áhrifin á umferðina voru síðan töluverð. Samkomubannið hafði þau áhrif að Íslendingar voru minna á ferðinni og ferðabönn ESB og Bandaríkjanna leiddu til þess að ferðamönnum sem komu til landsins snarfækkaði á aðeins örfáum dögum. Umferðin um hringveginn dróst þannig saman um allt að 40% og á höfuðborgarsvæðinu um allt að 15% á fyrstu dögum og vikum samkomubanns og ferðabanns. Myndin er tekin á Hellisheiði þegar faraldurinn stóð sem hæst. Mjög dró úr umferð um land allt vegna faraldursins.Vísir/Vilhelm Svartsýnasta spá gerði ráð fyrir 2.300 smitum Það má segja að það helsta sem landlæknir og sóttvarnalæknir lögðu áherslu á þegar kom að viðbrögðum yfirvalda við faraldrinum hér á landi var að verja viðkvæmustu hópana fyrir smiti og að verja heilbrigðiskerfið; að gera Landspítalanum kleift að sinna þeim sem myndu smitast af veirunni og að allir sem myndu þurfa á því að halda gætu lagst þar inn án þess að álagið á spítalann yrði óviðráðanlegt. Þótt lítið væri vitað um veiruna þegar faraldurinn hófst lá fyrir að eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma væri í sérstakri hættu á að veikjast alvarlega ef það smitaðist, og þar með látast af völdum Covid-19. Til verndar þessum hópum var því sett á heimsóknarbann á hjúkrunar- og dvalarheimilum og á Landspítalanum. Yfirvöld litu síðan til spálíkans vísindamanna Háskóla Íslands til þess að reyna að fá einhverja mynd af því hver þróun faraldursins hér á landi gæti orðið. Í frétt á Vísi þann 25. mars var sagt frá nýju spálíkani háskólans þar sem kom fram að búist væri við því að rúmlega 1.500 manns myndu greinast með Covid-19. Svartsýnasta spáin gerði þó ráð fyrir því að allt að 2.300 greindum smitum. Þá var því spáð að faraldurinn myndi ná hámarki í fyrstu viku apríl og fjöldi greindra einstaklinga með virkan sjúkdóm yrði þá um 1.200 manns. Meira en þúsund smit og mikið álag á Landspítalanum Og það var ekki að ástæðulausu sem yfirvöld höfðu áhyggjur af miklu álagi á Landspítalann. Þann 27. mars sagði Vísir frá því að sex einstaklingar væru nú inniliggjandi á gjörgæsludeild spítalans og að þeir væru allir á öndunarvél. Róðurinn var tekinn að þyngjast verulega á spítalanum vegna faraldursins en þennan sama dag voru staðfest smit orðin 890 talsins. Þá voru rúmlega 100 manns með meðalslæm eða versnandi einkenni vegna Covid-19. Tveimur dögum síðar voru staðfest smit síðan orðin fleiri en þúsund. Nítján manns voru á sjúkrahúsi og þar af níu á gjörgæslu. Um 9.500 voru í sóttkví og um 15.500 sýni höfðu verið tekin. 124 var batnað af Covid-19. Um mánaðamótin mars/apríl gerði svartsýnasta spá vísindamanna HÍ ráð fyrir því að mesta álag á gjörgæsludeild Landspítalans yrði í annarri viku aprílmánaðar. Þá mætti búast við því að allt að átján manns myndu þurfa innlögn á gjörgæslu en að hátt 200 manns myndu þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði næg rúm til staðar á gjörgæslunni en að mönnun deildarinnar gæti orðið takmarkandi þáttur þegar álag myndi aukast. Þá fóru yfirvöld að brýna fyrir fólki að ferðast ekki út á land um páskana þar sem það gæti aukið álagið á heilbrigðiskerfið. Skimun fyrir kórónuveirunni hjá Heilsugæslunni Höfða. Alls hafa verið tekin sýni hjá tæplega 58 þúsund manns.Vísir/Vilhelm Aldrei höfðu fleiri misst vinnuna eða hluta úr vinnu á jafnskömmum tíma Strax um miðjan mars var ljóst að faraldurinn myndi hafa mikil áhrif á vinnumarkaðinn og að atvinnuleysi myndi aukast, ekki síst innan stærstu útflutningsgreinar landsins, ferðaþjónustunnar. Þann 23. mars tilkynnti Icelandair að það myndi segja upp 240 manns og skerða starfshlutfallið hjá 92% starfsfólks. Þeir starfsmenn sem voru áfram í fullu starfi lækkuðu um 20% í launum, framkvæmdastjórar um 25% og laun forstjóra og stjórnar lækkuðu um 30%. Þá sagði Isavia upp rúmlega 100 manns og 164 misstu vinnuna hjá Bláa lóninu, einum vinsælasta ferðamannastað landsins. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, sagði að aldrei hefðu fleiri misst vinnuna á jafnskömmum tíma en á þessum nokkrum vikum í mars. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.Vísir/Egill Um mánaðamótin mars/apríl höfðu 23 þúsund manns sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls og 5.400 manns um almennar atvinnuleysibætur. Sautján hópuppsagnir höfðu verið tilkynntar til Vinnumálastofnunar. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, lýsti miklum áhyggjum af miklu atvinnuleysi í bænum sem hann óttaðist að gæti farið upp í allt að 20%. Berg í Bolungarvík Þann 31. mars tilkynnti lögreglan á Vestfjörðum að fyrsta tilfelli kórónuveirunnar hefði greinst í Bolungarvík. Stór hluti kennara og nemenda í bænum fór í sóttkví eftir að smitið kom upp og daginn eftir voru aðgerðir hertar á norðanverðum Vestfjörðum. Leik- og grunnskólum Bolungarvíkur og Ísafjarðar var lokað frá og með 2. apríl og samkomubann var miðað við fimm manns. Fjöldi viðskiptavina í stærri verslunum mátti ekki fara yfir þrjátíu manns. Þann 3. apríl var síðan greint frá því á vefsíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVEST) að íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík hefði greinst með kórónuveiruna: „Eitt Covid-19 smit hefur verið staðfest á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík. Tveir íbúar til viðbótar eru í einangrun og eru sýni úr þeim á leið til Reykjavíkur. Átta heimilismenn eru í sóttkví, samtals ellefu manns. Berg er hluti af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Stærstur hluti starfsmanna á Bergi, eða sautján, eru í sóttkví og til viðbótar eru starfsmenn á Bóli einnig í sóttkví. Ból er heimili fyrir fatlað barn sem rekið er í húsnæði sem samtengt er Bergi. Starfsfólk hefur verið flutt eftir föngum af öðrum deildum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til aðstoðar. Þá hefur verið kallað á fólk úr bakvarðasveitum og von er á fólki í dag frá öðrum landshlutum. Verulegt álag er á starfsmönnum á heimilinu og frekari þörf fyrir vel þjálfað starfsfólk á næstu dögum og vikum,“ sagði í tilkynningunni á vefsíðu HVEST. Hópsýking kom upp á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík og var staðan grafalvarleg um tíma.Bolungarvík.is Bakvörður grunaður um lögbrot Gylfi Ólafsson, forstjóri stofnunarinnar, rakti málið í þræði á Twitter-síðu sinni í lok apríl. Þar kom fram að fyrsta smitið á Bergi hefði verið staðfest þann 1. apríl. Þann 6. apríl komu fyrstu bakverðirnir úr bakvarðasveit heilbrigðisstarfsfólks vestur á firði. Daginn áður hafði verið greint frá því að íbúi á hjúkrunarheimilinu hefði látist úr Covid-19. Tveir aðrir heimilismenn voru með staðfest smit og þrír til viðbótar voru í einangrun. Fjórum dögum eftir að bakverðirnir komu til starfa á Bergi, á föstudaginn langa, vaknaði grunur um að einn þeirra, kona á miðjum aldri, hefði villt á sér heimildir. Hún var grunuð um að hafa falsað gögn um tilskilin réttindi til heilbrigðisstarfa auk þess sem hún var grunuð um að hafa stolið eða reynt að stela lyfjum á hjúkrunarheimilinu. Málinu var vísað til lögreglu sem tók það til rannsóknar og sendi það svo áfram til héraðssaksóknara í byrjun maí sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út. Alls greindust sjö af ellefu íbúum á Bergi með Covid-19. Tveir þeirra létust af völdum sjúkdómsins. Af þrjátíu starfsmönnum hjúkrunarheimilisins smituðust átta af veirunni. Í þræði forstjóri HVEST á Twitter í lok apríl kom fram að alls hefðu 6% íbúa Bolungarvíkur smitast af veirunni. This is the story of how a remote Icelandic fishing community and its nursing home were hit hard by Covid-19 while also facing harsh winter storms. I'm the CEO of its regional healthcare institute. THREAD. pic.twitter.com/GWBN2VuiOE— Gylfi Ólafsson (@GylfiOlafsson) April 30, 2020 Hápunktinum náð Á meðan ástandið var sem alvarlegast á Bergi var staðan einnig slæm á landsvísu. 3. apríl tilkynnti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, að hún myndi fara að tillögu sóttvarnalæknis og framlengja samkomubannið til 4. maí. „Þótt vel hafi gengið að halda útbreiðslu smita í skefjum veldur áhyggjum hve alvarlega veikum einstaklingum sem þurfa á gjörgæslu að halda hefur fjölgað hratt,“ sagði í tilkynningu á vef ráðuneytisins. Þennan dag voru alls 45 manns á sjúkrahúsi vegna Covid-19, þar af 12 á gjörgæslu og af þeim níu í öndunarvél að því er fram kom á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis. Þann 5. apríl náði faraldurinn síðan hámarki sínu þegar litið er til virkra smita samkvæmt tölulegum upplýsingum á covid.is. Þann dag voru 1.096 einstaklingar með virkt smit en 460 höfðu náð bata. Fleiri en 1.500 höfðu því greinst með kórónuveiruna hér á landi. Degi síðar var svo greint frá sjötta dauðsfallinu vegna Covid-19. Þann sama dag, 6. apríl, var einnig greint frá því að tvö andlát væru rannsökuð sem sakamál. Annars vegar var karlmaður úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið sambýliskonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði í lok mars. Hins vegar var karlmaður um þrítugt úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið móður sinni að bana í heimahúsi í Hafnarfirði í byrjun apríl. Á daglegum upplýsingafundi almannavarna og landlæknis þann 8. apríl sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, síðan frá því að hann teldi hápunkti faraldursins náð. Fleiri næðu sér nú af smiti en þeir sem væru að greinast með veiruna á hverjum degi. Á sama fundi benti Alma Möller, landlæknir, á að þótt toppi faraldursins væri náð í smitum yrði toppnum í heilbrigðiskerfinu ekki náð fyrr en eftir viku til tíu daga. „Ferðumst innanhúss“ Skírdag bar upp á 9. apríl í ár. Eins og áður segir höfðu yfirvöld hvatt landsmenn til þess að vera ekki á faraldsfæti um páskana til að koma í veg fyrir aukið álag á heilbrigðiskerfið. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, biðlaði til þjóðarinnar að ferðast innanhúss um páskana, með öðrum orðum að halda sig heima. Þrátt fyrir fréttir um að margir væru til dæmis í sumarbústöðum í Bláskógabyggð yfir páskana þá benti til að mynda umferðin út úr höfuðborginni til þess að fleiri héldu sig nú heima í páskafríinu en undanfarin ár. Lögreglan sagði umferðina út úr borginni í aðdraganda páska þannig hafa verið töluvert minni en í fyrra. Víðir var því ánægður með landsmenn að lokinni páskahelginni og sagði allt hafa gengið vel. „Það voru engin stórslys og ekkert sem gerðist sem jók álagið á heilbrigðiskerfið. Það var það sem maður var að leitast eftir og auðvitað er maður bara alsæll með það að þetta hafi gengið. Við höfðum verulegar áhyggjur af þessu fyrir páska eins og kom skýrt fram að ef eitthvað myndi ganga á þannig að kerfið myndi fá meira álag sem það má ekki við,“ sagði Víðir í viðtali að morgni 14. apríl. Þríeykið á einum af þeim tugum upplýsingafunda sem haldnir hafa verið vegna kórónuveirufaraldursins.Vísir/Vilhelm Hefðbundið skólahald og slakað á heimsóknarbanni Síðar þann sama dag boðaði ríkisstjórnin til blaðamannafundar þar sem hún tilkynnti um fyrstu skrefin varðandi tilslakanir á samkomubanninu. Þá voru 641 einstaklingur með virkt kórónuveirusmit. Alls 1.078 höfðu náð sér eftir að hafa smitast en átta höfðu látist eftir að hafa fengið Covid-19. Tilslakanirnar sem ríkisstjórnin kynnti fólu meðal annars í sér að fjöldamörk samkomubanns yrðu hækkuð úr 20 í 50 manns, opnað yrði fyrir hefðbundið skólahald í leik- og grunnskólum, framhalds- og háskólar yrðu opnaðir með takmörkunum og ýmis þjónustustarfsemi yrði leyfð á ný, til að mynda starfsemi hárgreiðslustofa, tannlækna og nuddara. Sundlaugar, líkamsræktarstöðvar, barir og skemmtistaðir yrðu þó áfram lokaðir. Breytingarnar skyldu taka gildi þann 4. maí. Þá var jafnframt lagt til í minnisblaði sóttvarnalæknis, sem tillögur heilbrigðisráðherra um tilslakanir samkomubannsins byggðu á, að fjöldasamkomur hér á landi yrðu takmarkaðar við að hámarki 2.000 manns að minnsta kosti út ágúst. Engar slíkar reglur hafa þó enn tekið gildi en ráðherra sagði mikilvægt að skipuleggjendur stórra viðburða sumarsins hefðu þessa tölu á bak við eyrað. Tveimur dögum eftir að fyrstu tilslakanir voru kynntar bárust fréttir af því að stefnt væri á að aflétta heimsóknarbanni á hjúkrunar- og dvalarheimilum þann 4. maí. Ströng skilyrði yrðu þó fyrir heimsóknum á heimilin. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu, sagði í samtali við fréttastofu að heimsóknarbannið, sem þá hafði varað í 40 daga, hefði verið mörgum mjög þungbært en það hefði þó verið algjörlega nauðsynleg ráðstöfun. Væntingar og vonbrigði Á þessum tíma, um miðjan apríl, var ljóst að faraldurinn sjálfur var á niðurleið. Áhrif hans á samfélagið, og þá ekki hvað síst á efnahagslífið, voru hins vegar langt í frá hverfandi og sér í raun ekki fyrir endann á þeim. Þegar ríkisstjórnin kynnti fyrsta aðgerðapakka sinn í mars lá fyrir að nauðsynlegt yrði að ráðast í frekari aðgerðir. Algjört tekjufall hafði orðið í ferðaþjónustunni og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum sem hafði verið gert að loka vegna faraldursins. Icelandair boðaði frekari uppsagnir í apríl og Bjarnheiður Halldórsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, varaði því að meirihluti ferðaþjónustufyrirtækja færu í þrot ef ekki kæmu til sértækari aðgerðir til handa greininni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnir aðgerðapakka tvö í Safnahúsinu í apríl.Vísir/Vilhelm Þann 21. apríl kynnti ríkisstjórnin svo aðgerðapakka tvö. Kostnaður við pakkann í heild sinni var áætlaður um 60 milljarðar. Aðgerðirnar fólu meðal annars í sér styrki til fyrirtækja sem hafði verið gert að loka vegna faraldursins og hagstæð lán til meðalstórra fyrirtækja. Þá yrðu fjármunir settir í að skapa sumarstörf fyrir námsmenn og 8,5 milljörðum skyldi varið í félagslegar aðgerðir vegna viðkvæmra hópa. Væntingarnar til þessa aðgerðapakka voru miklar, ekki hvað síst innan ferðaþjónustunnar, en forsvarsmenn fyrirtækja í greininni lýstu miklum vonbrigðum með pakkann. Kölluðu þeir eftir svörum frá stjórnvöldum um framhald hlutabótaleiðarinnar og hvort að ríkið hygðist greiða hluta launa starfsfólks á uppsagnarfresti svo að fyrirtæki sem hefðu orðið fyrir nánast algjöru tekjufalli gætu farið í nokkurs hýði á meðan það versta gengi yfir. Lagði ferðaþjónustan áherslu á að fá svör fyrir mánaðamótin apríl/maí. Stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar Viku eftir að aðgerðapakki tvö var kynntur, eða þann 28. apríl, blés ríkisstjórnin til blaðamannafundar og kynnti aðgerðapakka þrjú. Í honum fólst að hlutabótaleiðin var framlengd til ágústloka en útfærslunni breytt. Þá gátu fyrirtæki sem orðið höfðu fyrir 75% tekjuskerðingu eða meira sótt um stuðning frá ríkinu til greiðslu hluta launa fólks sem sagt væri upp störfum vegna kórónuveirufaraldursins. Einnig voru boðaðar einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem myndu miða að því að þau gætu komist í skjól með einföldum hætti. Aðgerðirnar veittu fyrirtækjum í ferðaþjónustu von sagði Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar Nordic Visitor, í samtali við fréttastofu. „Þessi björgunarpakki ríkistjórnarinnar veitir fyrirtækjum í ferðaþjónustu von sem var að slökkna bara í gær. Auðvitað hjálpar þetta ekki öllum en þetta mun koma mörgum til bjargar,“ sagði Ásberg í kvöldfréttum Stöðvar 2. Um tveimur klukkutímum eftir að ríkisstjórnin kynnti aðgerðir sínar sendi Icelandair frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að 2.140 starfsmönnum fyrirtækisins yrði sagt upp. Þar af voru 897 flugfreyjur og þjónar. Þeir sem myndu áfram starfa hjá félaginu væru langflestir í skertu starfshlutfalli og aðrir í fullu starfi með skert laun. Samhliða var ráðist í breytingar á skipulagi félagsins og daginn eftir bárust fregnir af því að fyrirtækið ætlaði að sækja sér allt að 29 milljarða króna í nýju hlutafjárútboði. Ein af þotum Icelandair á Keflavíkurflugvelli en þær eru flestar ekki í notkun vegna mikilla ferðatakmarkana sem eru gildi út af veirunni.Vísir/Vilhelm Staðan í atvinnumálum verst á Suðurnesjum Hópuppsögn Icelandair er stærsta hópuppsögn Íslandssögunnar. 29. apríl bárust Vinnumálastofnun síðan fimmtán tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 700 til 800 manns misstu vinnuna, langflestir starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja. Þá þegar voru alls um 50.000 manns á atvinnuleysisbótum eða hlutaatvinnuleysisbótum. Alls bárust Vinnumálastofnun 56 tilkynningar um hópuppsagnir í apríl þar sem 4.643 starfsmönnum var sagt upp störfum. Það bættist ofan á hópuppsagnir marsmánaðar þegar 29 fyrirtæki sögðu upp 1207 manns. Samkvæmt skýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn sem gefin var út í fyrr í þessum mánuði fór heildaratvinnuleysi í apríl upp í 17,8% samanlagt, það er 7,5% atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og 10,3% vegna minnkaðs starfshlutfalls. Staðan er verst á Suðurnesjum eða eins og segir í skýrslu Vinnumálastofnunar: „Atvinnuleysi fór í 25,2% á Suðurnesjum í apríl og fór úr 14,1% í mars. Það skiptist þannig að almennt atvinnuleysi er 11,2% og atvinnuleysi sem tengist minnkaða starfshlutfallinu er 14,0%. Atvinnuástand á Suðurnesjum er sýnu verst á landinu enda hefur flugstarfsemi og ferðaþjónusta meira vægi í atvinnulífi Suðurnesja en í öðrum landshlutum.“ Greiddu arð, keyptu eigin bréf og nýttu hlutabótaleiðina Líkt og tölur Vinnumálastofnunar bera með sér eru tugir þúsunda vinnandi fólks á hinni svokölluðu hlutabótaleið. Meira en 6.000 fyrirtæki hafa nýtt sér leiðina en það hefur ekki verið óumdeilt hvaða fyrirtæki hafa nýtt sér úrræðið og með hvaða hætti. Þegar lög um hlutabætur voru sett var úrræðið haft opið og engin ákvæði til að mynda í lögunum um að fyrirtæki sem höfðu greitt sér arð eða keypt eigin hlutabréf, með öðrum orðum stöndug fyrirtæki, gætu ekki sett fólk á hlutabætur og látið ríkið greiða þannig launakostnaðinn á móti sér. Þó var ljóst, og kemur skýrt fram í greinargerð frumvarps um hlutabætur, að úrræðið var fyrst og fremst hugsað fyrir fyrirtæki sem ættu við tímabundinn rekstrarvanda að etja vegna kórónuveirunnar. Er í greinargerðinni til að mynda sérstaklega vikið að ferðaþjónustunni. Það vakti því töluverða reiði þegar greint var frá því fyrir um tveimur vikum að fyrirtæki sem standa að flestu leyti vel hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina; jafnvel sett yfir 100 starfsmenn á hlutabætur en greitt sér út arð eða keypt eigin bréf skömmu áður. Þannig setti Össur 165 starfsmenn á hlutabætur en á aðalfundi þann 12. mars hafði verið ákveðið að greiða eigendum 1,2 milljarða í arð. Þá var starfshlutfall um helmings starfsmanna Skeljungs lækkað en félagið greiddi hluthöfum sínum 600 milljóna króna arð í aprílbyrjun og keypti eigin bréf fyrir 186 milljónir í sama mánuði. Hagar nýttu sér einnig hlutabótaleiðina en höfðu keypt eigin bréf fyrir meira en 400 milljónir króna frá því í lok febrúar. Festi hf. nýtti sér einnig úrræði en gert er ráð fyrir 7,3 milljarða rekstrarhagnaði á árinu hjá fyrirtækinu. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri félagsins, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að hann gerði ekki ráð fyrir því að Festi myndi hætta að nýta sér úrræðið. Óþolandi að sjá fyrirtæki misnota aðstoð stjórnvalda Bæði verkalýðshreyfingin og ráðherrar gagnrýndu stöndug fyrirtæki fyrir að nýta sér hlutabótaleiðina. Sagði Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, algjörlega óþolandi að sjá fyrirtæki misnota aðstoð stjórnvalda og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði fyrirtækin reka rýting í samstöðuna sem stjórnvöld væru að kalla eftir. „Fyrirtæki sem augljóslega eru fjárhagslega sterk og geta verið að dreifa peningum til hluthafa sinna, þau eiga ekki að hafa það sem sitt fyrsta úrræði að leita til ríkisins til þess að standa undir launakostnaði starfsmanna sinna,“ sagði Bjarni í samtali við fréttastofu þann 8. maí. Daginn áður hafði Skeljungur tilkynnt að félagið ætlaði að hætta að nýta hlutabótaleiðina. Starfsmenn yrðu ráðnir aftur í fullt starf og Vinnumálastofnun fengi bæturnar endurgreiddar. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra, koma af ríkisstjórnarfundi.Vísir/Vilhelm Fleiri fyrirtæki fylgdu í kjölfarið, þar á meðal Hagar, Festi og Össur. Össur og Hagar tilkynntu að þau ætluðu að hætta að nýta úrræðið og endurgreiða bæturnar. Festi tilkynntu einnig að þau ætluðu ekki að nýta hlutabótaleiðina lengur og sagði forstjórinn í samtali við Vísi að fyrirtækið hefði haft samband við Vinnumálastofnun með það fyrir augum að endurgreiða bæturnar. Kaupfélag Skagfirðinga, Iceland Seafood og Samherji tilkynntu öll að þau myndu endurgreiða Vinnumálastofnun og stjórnendur Origo ákváðu að hætta að nýta hlutabótaúrræðið. Sú ákvörðun gilti afturvirkt. Esja Gæðafæði ákvað jafnframt að hætta að nýta sér úrræðið og endurgreiða Vinnumálastofnun og það sama gilti um dótturfélög útgerðafélagsins Brim sem nýttu úrræðið. Eins og áður segir verður hlutabótaleiðin framlengd en í frumvarpi félagsmálaráðherra þess efnis eru sett skilyrði fyrir því að þau fyrirtæki sem nýti sér úrræðið muni til dæmis ekki greiða sér arð eða kaupa eigin hlutabréf á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023. Farið hraðar í tilslakanir á samkomubanni en til stóð Á meðan hrikt hefur í stoðum íslensk efnahagslífs undanfarinn mánuð eða svo vegna kórónuveirunnar hafa borist betri fréttir af þróun faraldursins. Nú er það svo að aðeins þrír eru með virk smit hér á landi samkvæmt covid.is, enginn á spítala og þar af leiðandi enginn á gjörgæslu. Þann 4. maí tóku fyrstu tilslakanir á samkomubanninu gildi. Þann sama dag sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að hann myndi leggja það til við heilbrigðisráðherra að opna sundlaugar landsins á ný þann 18. maí, með takmörkunum þó. Upplýsingafundir almannavarna og landlæknis voru nú ekki lengur daglegir þar sem ekki var talin þörf á því. Það var því á fundi tveimur dögum síðar sem Þórólfur tilkynnti að vegna þess hve vel hefði gengið að hemja faraldurinn yrði farið í næstu tilslakanir á samkomubanni fyrr en áætlað var. Áður hafði verið nefnt að næstu tilslakanir yrðu í byrjun júní en nú sagði Þórólfur að þær yrðu þann 25. maí. Líkamsræktarstöðvar yrðu meðal annars opnaðar með takmörkunum og 100 manns yrði að öllum líkindum leyft að koma saman í stað 50 eins og nú er. Á næsta upplýsingafundi tveimur dögum síðar kom svo fram í máli sóttvarnalæknis að hægt yrði að stíga stærra skref 25. maí; líklegt væri að samkomubannið myndi miða við fleiri en 100 manns. Nú liggur fyrir að næstkomandi mánudag mega að hámarki 200 manns koma saman. Líkamsræktarstöðvar mega opna, væntanlega með svipuðum takmörkunum og gilda nú í sundi þar sem gestir mega aldrei vera fleiri en nemur helmingi þess hámarksfjölda sem sundlaugin hefur leyfi fyrir. Þá mega barir, skemmtistaðir og spilasalir einnig opna á mánudaginn en ekki hafa opið lengur en til klukkan 23. Það var fámenni í miðbæ Reykajvíkur eitt föstudagskvöld í apríl þegar ljósmyndari Vísis var þar á ferðinni enda hefur djammið legið í dvala í tæpa tvo mánuði vegna samkomubannsins.Vísir/Vilhelm Umdeild opnun landamæra um miðjan júní Það var síðan á þriðjudaginn í síðustu viku sem ríkisstjórnin kynnti að stefnt væri að því að opna landamæri Íslands eigi síðar en 15. júní næstkomandi. Erlendum ferðamönnum og Íslendingum sem hingað koma til lands býðst þá að fara í skimun vegna kórónuveirunnar á Keflavíkurflugvelli. Reynist sýnið neikvætt þurfa þeir ekki að fara í tveggja vikna sóttkví. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði þessi skref í afléttingum ferðatakmarkana stór en varfærin. Þá sagði sóttvarnalæknir að hugmyndirnar um opnun landsins væru nokkuð í þeim anda sem hann hefði verið að hugsa. Hann þvertók fyrir að hafa látið undan þrýstingi um að slakað yrði á kröfum um sóttkví við komuna til landsins. Sagði Þórólfur að honum væri það ljóst að hann þyrfti fyrst og fremst að taka tillit til heilsufarssjónarmiða. Honum væri það jafnframt ljóst að á einhverjum tímapunkti þyrfti að opna landið. „Hvort sem það er í dag, eftir sex mánuði eða ár þá munum við alltaf standa frammi fyrir þessum spurningum og við þurfum að svara því hvernig það á að gerast,“ sagði sóttvarnalæknir. Ákvörðunin um opnun landamæranna er hins vegar umdeild, ekki hvað síst innan læknastéttarinnar. Hefur til dæmis verið gagnrýnt að tilkynnt hafi verið um að til stæði opna landið áður en áhættumat Landspítalans liggi fyrir varðandi það hvort spítalinn ráði við það aukna álag sem fylgi opnuninni. Þá liggur ekki fyrir hvernig staðið verður að sýnatökunni á Keflavíkurflugvelli. Verkefnisstjórn sem fékk það hlutverk að sjá um undirbúning og framkvæmd skimunarinnar á að skila sinni skýrslu næstkomandi mánudag. Afar fáir hafa verið á ferli á Keflavíkurflugvelli undanfarna tvo mánuði eða svo enda hefur farþegaflug nánast alfarið legið niðri um allan heim vegna kórónuveirufaraldursins.Vísir/Vilhelm „Ef við pössum okkur ekki vel þá getum við fengið aftur svona bylgju“ Þegar þetta er skrifað hafa alls 1.803 greinst með SARS-CoV-2 hér á landi og tíu látist af völdum Covid-19, sjúkdómsins sem veiran veldur. Talað er um að þetta hafi verið fyrsta bylgja faraldursins og að önnur bylgja muni koma síðar á árinu. Stjórnendur hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) hafa til að mynda varað við því. Sóttvarnalæknir hefur sagt að það sé ómögulegt að segja til um hvort önnur bylgja komi og hvernig hún komi þá til með að vera. Alls kyns óvissuþættir spili inn í, til dæmis hvort að veiran muni breyta sér og verða mögulega vægari og hvort að einhverjar aðrar aðstæður komi upp sem geri það að verkum að hægt verði að ráða betur við faraldurinn. Þá skipti miklu máli að gæta að einstaklingsbundnum sótt- og sýkingarvörnum. „Við höfum nú rætt um þetta allan tímann frá því að þetta byrjaði, hvenær kemur bylgja tvö, hvenær kemur bylgja þrjú og hvernig verður hún og svona? Svarið við þessu er bara að þetta veit enginn. Þetta veit ekki Anthony Fauci, þetta vita heldur ekki aðilar hjá WHO. Menn geta spáð og spekúlerað en hvernig þetta verður nákvæmlega, það er ómögulegt að segja, alveg gjörsamlega. Kórónuveirur eru þannig að þær eru viðloðandi, þær hafa yfirleitt ekki gengið í neinum sérstökum bylgjum. Þannig að verður þetta viðvarandi ástand, fáum við aðra bylgju? Það fer bara eftir því hvað við pössum okkur vel. Ef við pössum okkur ekki vel þá getum við fengið aftur svona bylgju eins og við erum nýkomin út úr. Ef við pössum okkur vel og reynum að gæta að einstaklingsbundnum hreinlætisaðgerðum þá munum við geta haldið þessari veiru niðri,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis síðastliðinn mánudag.