Böðvar Böðvarsson er í íslenska landsliðshópnum á móti Rúmeníu ef marka má færslu á fésbókarsíðu pólska félagsins hans.
Íslensku landsliðsþjálfararnir ætla greinilega að fara nýja leið í vinstri bakvarðarstöðunni en Böðvar hefur aldrei spilað keppnisleik með íslenska landsliðinu.
Jagiellonia Bialystok óskaði Böðvari til hamingju með það að hafa verið valinn í íslenska landsliðshópinn.
Böðvar er 24 ára vinstri bakvörður sem er uppalinn í FH og lék með Hafnarfjarðarliðinu áður en hann fór út til Póllands.
Böðvar hefur spilað fimm A-landsleiki á ferlinum en þeir hafa allir farið fram í janúar eða febrúar. Síðasti landsleikur hans var á móti Svíþjóð 11. janúar 2019 en sá fyrsti á æfingamóti í Kína í janúar 2017.
Böðvar Böðvarsson hefur ekki verið í hópnum hjá Jagiellonia Bialystok í síðustu leikjum en lék síðast með liðinu 22. febrúar síðastliðinn.
Hann er búinn að spila 9 af 26 deildarleikjum tímabilsins.