Innlent

Tryggvi krefst launa út kjör­tíma­bilið frá Reyk­hóla­hreppi

Atli Ísleifsson skrifar
Tryggvi Harðarson tók við embætti sveitarstjóra Reykhólahrepps haustið 2018.
Tryggvi Harðarson tók við embætti sveitarstjóra Reykhólahrepps haustið 2018. VÍSIR/EGILL/REYKHÓLAHREPPUR

Tryggvi Harðarson, sem sagt var upp sem sveitarstjóri Reykhólahrepps í apríl síðastliðnumð, hefur gert kröfu um að fá greidd laun út núverandi kjörtímabil, það er til júní 2022.

Bæjarins besta greinir frá þessu. Í fréttinni segir að Tryggvi fái greidd laun uppsagnarfrestinn, eða í þrjá mánuði.

Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar á miðvikudag, en haft er eftir Ingibjörgu B. Erlingsdóttur sveitarstjóra að ekki hafi verið fallist á kröfu sveitarstjórans fyrrverandi.

Er áætlað að krafan hljómi upp á samtals 30 milljónir króna að meðtöldum launatengdum gjöldum fyrir framangreint tímabil.

Tryggvi var ráðinn sveitarstjóri í Reykhólahreppi á haustmánuðum 2018, en hann hafði áður gegnt embætti sveitarstjóra Þingeyjarsveitar og Seyðisfirði. Þar áður átti hann sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×