Enski boltinn

Nú vantar bara að aflýsa tímabilinu til að breyta draumatímabili Liverpool í algjöra martröð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það voru þung skrefin hjá Virgil van Dijk og öðrum leikmönnum eftir tapið á móti Atletico Madrid á Anfield í gærkvöldi.
Það voru þung skrefin hjá Virgil van Dijk og öðrum leikmönnum eftir tapið á móti Atletico Madrid á Anfield í gærkvöldi. Getty/Alex Livesey

Liverpool getur nú aðeins unnið einn titil í vor eftir að liðið féll úr Meistaradeildinni á Anfield í gærkvöldi. Englandsmeistaratitilinn sem liðið hefur saknað síðan 1990.

Þegar leikmenn Liverpool komu úr vetrarfríinu sem knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp varði með kjafti og klóm virtust miklir blómatímar vera fram undan. Annað hefur komið á daginn.

Liverpool sat þá ósigrað á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og var ríkjandi heims- og Evrópumeistari í fótbolta. Það voru spennandi tímar fram undan og Klopp var líka búinn að leyfa leikmönnum Liverpool að hlaða batteríin fyrir fjölmarga leiki fram undan.

Þessir leikir verða þó töluvert færri en hann eflaust áætlaði og álagið verður ekki mikið á liðinu á næstunni. Síðustu vikur hafa nefnilega verið Liverpool liðinu afar erfiðar. Liðið hefur nú tapað fjórum sinnum í síðustu sex leikjum og er dottið út úr bæði Meistaradeildinni og enska bikarnum.

Möguleikinn á að fara taplaust í gegnum ensku úrvalsdeildina endaði með óvæntum 3-0 skelli á móti Watford fyrir tveimur vikum.

Liverpool hafði áður tapaði 1-0 í fyrri leiknum á móti Atletico Madrid í Meistaradeildinni.

Þann 3. mars síðasliðinn tapaði Liverpool síðan 2-0 í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar á móti Chelsea, þremur dögum eftir tapið á móti Watford.

Í gærkvöldi, ellefu dögum eftir Watford leikinn, datt Liverpool síðan út úr Meistaradeildinni með 3-2 tapi á heimavelli sínum gegn Atletico Madrid í framlengdum leik. Liverpool réð lögum og lofum á vellinum í níutíu mínútur en léleg færanýting og frammistaða Adrian í markinu varð liðinu að falli.

Liverpool á vissulega enska meistaratitilinn vísann en þá þarf líka að klára tímabilið. Það getur líklega ekkert lið náð Liverpool að stigum en tímabilið gæti aftur á móti verið flautað af vegna kórónuveiruna.

Fari svo að enska úrvalsdeildin aflýsi tímabilinu á næstunni væri það til að kóróna breytinguna úr sannkölluðu draumatímabili Liverpool í algjöra martröð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×