Íslenski boltinn

Skotmark Vals með fernu á fjórtán mínútum í Færeyjum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Heimir Guðjónsson þekkir hvern krók og kima í Færeyjum
Heimir Guðjónsson þekkir hvern krók og kima í Færeyjum Skjámynd/S2 Sport

Fyrrum lærisveinar Heimis Guðjónssonar hafa farið vel af stað í færeysku úrvalsdeildinni í fótbolta og unnu öruggan 0-5 sigur á Argja Boltfélag í dag þar sem öll mörk leiksins voru skoruð á fyrstu 20 mínútum leiksins.

Aukaspyrnusérfræðingurinn Adrian Justinussen gerði fjögur markanna en þessi 21 árs gamli Færeyingur hefur skorað í öllum leikjum HB á tímabilinu.

Fyrsta mark kappans var beint úr aukaspyrnu á 8.mínútu. Fjórum mínútum síðar skoraði hann einnig beint úr aukaspyrnu og á 17.mínútu fullkomnaði hann þrennu sína og að sjálfsögðu með marki úr aukaspyrnu. Fjórða mark sitt skoraði Adrian svo á 21.mínútu með góðu skoti úr teignum.

Heimir þjálfar nú Val og í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu 977 í gær var Heimir spurður hvort ekki hafi komið til greina að taka þennan efnilega leikmann með sér frá Færeyjum til Vals.

„Um leið og hann langar að gerast atvinnumaður þá tek ég upp símann og hringi í hann,“ sagði Heimir.

Í máli Heimis kom einnig fram að Adrian væri logandi hræddur við að fljúga auk þess sem hann væri í námi í Færeyjum sem gerði það að verkum að hann væri enn að spila í heimalandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×