Erlent

Rúm­lega fjögur þúsund nú látnir í Sví­þjóð

Atli Ísleifsson skrifar
Anders Tegnell tók við starfi sóttvarnalæknis Svíþjóðar árið 2013.
Anders Tegnell tók við starfi sóttvarnalæknis Svíþjóðar árið 2013. EPA

Alls eru skráð dauðsföll í Svíþjóð sem rakin eru til Covid-19 nú fjögur þúsund talsins. Greint var frá því í hádeginu að 31 dauðsfall til viðbótar hafi verið skráð síðasta sólarhringinn og eru þau því orðin 4.029 í heildina.

Heilbrigðisyfirvöld í Svíþjóð, með sóttvarnalækninn Anders Tegnell í broddi fylkingar, vilja meina að hjarðónæmi, en ekki lokun samfélagsins, sé rétta leiðin til að bregðast við faraldri nýju kórónuveirunnar. 

Sú nálgun hefur víða sætt nokkurri gagnrýni, meðal annars af hálfu Annika Linde, forvera Tegnell í starfi, en Linde gegndi starfi sóttvarnalæknis á árunum 2005 til 2013.

Mótefni hefur mælst í 7,3 prósent þeirra sem hafa gengist undir sýnatöku í Stokkhólmi. Í frétt NRK segir að hlutfallið sé mun lægra en Lýðheilsustofnun Svíþjóðar hafði vonast eftir.

Í Svíþjóð eru nú skráð 40 dauðsföll vegna Covid-19 á hverja 100 þúsund íbúa, sem setur landið í eitt efstu sætanna á lista yfir skráð dauðsföll miðað við höfðatölu. Alls hafa verið skráð 33.843 kórónuveirusmit í landinu.

Tegnell segir þróunina í landinu vera á réttri leið þar sem tilkynnt er um færri smit með hverjum deginum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×