Innlent

Aðeins tvö virk smit eftir í landinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Skimun fyrir kórónaveirunni hjá Heilsugæslunni Höfða við upphaf faraldursins.
Skimun fyrir kórónaveirunni hjá Heilsugæslunni Höfða við upphaf faraldursins. Vísir/Vilhelm

Tveir eru nú eftir í einangrun vegna kórónuveirusmits á Íslandi samkvæmt opinberum tölum. Enginn greindist með kórónuveiruna sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19 síðasta sólarhringinn hér á landi, þriðja daginn í röð. Staðfest smit eru því enn 1.804.

Á veirufræðideild Landspítalans voru tekin 35 sýni í gær og 196 hjá Íslenskri erfðagreiningu. Virk smit sem vitað er um hér á landi eru tvö, einu færra en í gær, að því er fram kemur á vef landlæknis og almannavarna, covid.is

Enginn liggur inni á sjúkrahúsi með Covid-19 þessa stundina og hafa 1.792 náð bata. Fólki í sóttkví fjölgar um níu á milli daga og eru nú 766. Alls hafa nú 20.389 lokið sóttkví og 59.087 sýni verið tekin.

Tíu hafa látist af völdum veirunnar á Íslandi.

Frá því að ekkert nýtt smit greindist á milli daga í fyrsta skipti frá upphafi faraldursins 23. apríl hafa fimmtán greinst smitaðir af kórónuveirunni. Undanfarna tuttugu daga hafa fjögur ný smit greinst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×