Íslenski boltinn

17 dagar í Pepsi Max: Boltinn rúllaði eftir allri línunni og Þórður endaði í 19 mörkum eins og hinir tveir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Morgunblaðið birti myndasyrpu af nítjánda marki Þórðar Guðjónssonar sumarið 1993 en það kom á móti Keflavík. Hér má sjá úrklippu úr opnu Morgunblaðsins þriðjudaginn 21. september 1993.
Morgunblaðið birti myndasyrpu af nítjánda marki Þórðar Guðjónssonar sumarið 1993 en það kom á móti Keflavík. Hér má sjá úrklippu úr opnu Morgunblaðsins þriðjudaginn 21. september 1993. Skjákost af Tímarit.is

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 17 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

Nú er komið að þriðja manninum sem komst í nítján marka hópinn sem meðlimum í hópnum hefur síðan fjölgað síðan.

Þórður Guðjónsson jafnaði fimmtán ára gamalt afrek Péturs Péturssonar og sjö ára gamalt afrek Guðmundar Torfasonar þegar hann skoraði nítján mörk fyrir Skagamenn sumarið 1993.

Þórður varð fyrsti maðurinn til að skora nítján mörk í deildinni án þess að eitt þeirra kæmi úr vítaspyrnu. Pétur skoraði úr þremur vítum 1978 og Guðmundur úr tveimur vítum árið 1986.

Þórður skoraði tvö mörk í fyrsta leik mótsins en svo ekkert mark í næstu þremur leikjum Skagamanna. Hann var á endanum kominn með sex mörk í fyrri umferðinni sem er ekkert slæmt en um leið var ekkert sem benti sérstaklega til þess að markametið væri í hættu.

Seinni umferðin var hins vegar mögnuð hjá Þórði sem skoraði í átta leikjum í röð og þar af voru fimm tvennur.

Frá 26. ágúst til 11. september þá skoraði Þórður tvö mörk í þremur leikjum í röð. Hann var þá kominn með átján mörk og átti tvo leiki eftir. Eftir tvennu á móti ÍBV úti í Eyjum þar sem Skagamenn tryggðu sér endanlega Íslandsmeistaratitilinn var ljóst að þeir fengju 180 mínútur til að hjálpa Þórði að slá markametið.

„Takmarkið hjá mér í ár var að tvöfalda árangurinn í fyrra og gera 12 mörk, en þau eru orðin 18 og nú set ég stefnuna á metið. Ég hugsaði ekkert um það í leiknum fyrr en undir lokin, þegar ég fékk tækifæri til að ná þrennunni og jafna metið um leið, en þetta skýrist á næstunni," sagði Þórður við Morgunblaðið eftir mörkin tvö á móti Eyjamönnum.

Þórði tókst að jafna metið rétt fyrir hálfleik í næsta leik sem var á móti Keflavík. 19 mörk og 90 mínútur eftir.

Í lokaleiknum á móti Val á Hlíðarenda þá fékk Þórður þrjú dauðafæri til að verða fyrstur í sögunni til að skora tuttugu mörk í efstu deild en hann hafði ekki heppnina með sér. Tvö færanna bjuggu hins vegar til bæði mörk Skagamanna í leiknum því Mihajlo Bibercic og Haraldur Ingólfsson fylgdu á eftir skotum hans.

„Í fyrsta færinu var Sævar að koma svo ég varð að flýta mér að skjóta. Þegar Bjarni varði í vinklinum sá ég aldrei hvert boltinn fór því ég datt um leið og ég skaut. En það var stangarskotið sem var mest svekkjandi. Þá horfði ég á eftir boltanum fara í innanverða stöngina og rúlla eftir línunni. En maður getur ekki annað en verið sáttur við að skora 19 mörk í sumar," sagði Þórður við DV eftir leikinn.

Þórður var sérstaklega öflugur á síðasta hálftíma leikjanna en þar skoraði hann 12 af 19 mörkum sínum. Hann skoraði á móti aðeins eitt mark á fyrsta hálftíma leikja sinna.

Þriðji meðlimurinn í nítján marka klúbbnum

Þórður Guðjónsson, ÍA 1993

  • 19 mörk í 18 leikjum
  • 9 á heimavelli - 10 á útivelli
  • 5 í fyrri hálfleik - 14 í seinni hálfeik
  • 6 mörk i fyrri umferð - 13 mörk í seinni umferð
  • 15 skot - 0 víti - 4 skallamörk
  • 7 tvennur - 0 þrennur
  • 5 mörk á móti efstu þremur
  • 8 mörk á móti efri hluta
  • 11 mörk á móti neðri hluta
  • 7 mörk á móti falliðum
  • Markahæstu mánuðir:
  • 8 mörk í ágúst
  • 5 mörk í september
  • 3 mörk í júní
  • Flest mörk á móti einstökum liðum:
  • 4 mörk á móti Víkingi
  • 3 mörk á móti FH

    3 mörk á móti Fylki

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×