Erlent

Fréttamaður CNN handtekinn í beinni útsendingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Oliver Jimenez var handtekinn í beinni útsendingu.
Oliver Jimenez var handtekinn í beinni útsendingu.

Lögregluþjónar handtóku Omar Jimenez, fréttamann CNN, í Minneapolis í morgun þar sem hann var að fjalla um mótmælin og óeirðirnar sem eiga sér þar stað. Handtakan átti sér stað í beinni útsendingu, þrátt fyrir að Jimenez tilkynnti lögregluþjónum að hann væri fréttamaður. Þrír aðrir starfsmenn CNN voru einnig færðir í handjárn.

Mótmælendur kveiktu í lögreglustöð í borginni í nótt en hún hafði áður verið yfirgefin. Eldur var einnig borinn að öðrum byggingum á svæðinu.

Fjöldi lögregluþjóna kom svo á vettvang í morgun, auk slökkviliðs, og hefur komið til átaka milli lögregluþjóna og mótmælenda.

Handtöku Jimenez má sjá hér að neðan.

Mótmælendur hafa fjölmennt á götum Minneapolis, og annars staðar í Bandaríkjunum, vegna dauða George Floyd.

Floyd dó þegar lögregluþjónn hélt honum niðri með því að halda hné sínu á hálsi hans. Hann kvartaði yfir því að ná ekki andanum og bað lögregluþjóninn um að drepa sig ekki. Jafnvel þó vegfarendur kvörtuðu yfir aðferðum lögreglunnar og bentu á þegar Floyd hætti að hreyfa sig, aðhöfðust lögregluþjónarnir ekki.

Fjórir lögregluþjónar hafa verið reknir vegna málsins.


Tengdar fréttir

Twitter segir Trump hafa hvatt til ofbeldis

Forsvarsmenn Twitter segja nýlegt tíst Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hafa brotið gegn skilmálum fyrirtækisins varðandi það að hvetja til ofbeldis.

„Þeir myrtu bróður minn“

Systir George Floyd, svarts karlmanns sem lést í höndum lögreglu í Minneapolis á mánudagskvöld, kallar eftir því að lögreglumennirnir sem eiga aðild að dauða bróður síns verðu ákærðir fyrir morð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×