Fótbolti

Aukin meiðslatíðni eftir að deildin fór aftur af stað | Hernandez meiddur enn á ný

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hernandez (fyrir miðju) fagnar einu marki Lewandowski um helgina.
Hernandez (fyrir miðju) fagnar einu marki Lewandowski um helgina. EPA-EFE/CHRISTOF STACH

Þýska úrvalsdeildin var fyrsta deild Evrópu til að hefja leik að nýju eftir rúma tveggja mánaða pásu vegna kórónufaraldursins. Frá því að deildin fór aftur af stað um miðjan maí mánuð hefur meiðslatíðni leikmanna aukist til muna.

Þó svo að leikmenn hafi æft í hléinu og í litlum hópum þar á eftir þá fengu þeir aðeins tíu daga af hefðbundnum æfingum áður en deildin fór aftur af stað. Virðist það alltof stuttur tími til að undirbúa leikmenn undir þau átök sem fylgja þvi að spila í þýsku úrvalsdeildinni.

Í fyrstu átta leikjum deildarinnar eftir hléið meiddust sex leikmenn. Til að mynda meiddist ungstirnið Giovanni Reyna í upphitun fyrir fyrsta leik Borussia Dortmund og Thorgan Hazard fór meiddur af velli síðar í sama leik.

Lucas Hernandez, varnarmaður Bayern Munich, meiddist svo enn á ný um helgina er liðið lagði Fortuna Düs­seldorf örugglega 5-0. Hernandez hefur ekki átt sjö dagana sæla hjá Bayern en hann var keyptur á 80 milljónir evra frá Atletico Madrid síðasta sumar. 

Hefur þessi franski varnarmaður, sem varð heimsmeistari með Frökkum í Rússlandi sumarið 2018, aðeins byrjað átta leiki fyrir Bayern á leiktíðinni. Það hefur ekki komið að sök en Bayern er á toppi deildarinnar með sjö stiga forskot á Dortmund sem situr í öðru sæti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×