Enski boltinn

Ruud Gullit var rekinn frá Chelsea fyrir 22 árum en er samt enn sár út í einn mann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruud Gullit hitti blaðamenn eftir að hann var rekinn og sagðist vera í algjöru sjokki. Hann er búinn að jafna sig í dag en hefur þó enn ekki fyrirgefið einum manni fyrir þessa verstu lífsreynslu sína.
Ruud Gullit hitti blaðamenn eftir að hann var rekinn og sagðist vera í algjöru sjokki. Hann er búinn að jafna sig í dag en hefur þó enn ekki fyrirgefið einum manni fyrir þessa verstu lífsreynslu sína. EPA PHOTO/GERRY PENNY

Hollendingurinn Ruud Gullit var risastjarna í fótboltaheiminum og hafði verið mjög sigursæll á Ítalíu þegar Glenn Hoddle fékk hann til að koma til Chelsea árið 1995. Gullit segist hafa elskað tímann hjá Chelsea en endirinn var bæði mjög óvæntur og ósanngjarn að hans mati.

Ruud Gullit ræddi tíma sinn hjá Chelsea í viðtali við breska ríkisútvarpið þar sem hann meðal annars fór vel yfir það þegar hann var rekinn úr starfi þegar liðið sat í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar í febrúarmánuði 1998.

Ruud Gullit var fyrirliði Evrópumeistara Hollendinga frá 1988 og hafði unnið fjölda titla með AC Milan. Árið 1987 fékk hann Gullknött France Football, Ballon d'Or, sem besti leikmaður Evrópu og árið eftir varð hann í öðru sæti.

„Ég gerðist spilandi knattspyrnustjóri ári eftir að ég kom til félagsins eftir að Glenn Hoddle hætti og gerðist landsliðsþjálfari Englendinga,“ sagði Ruud Gullit en hafði áður spilað í tvö tímabil með Sampdoria eftir gullaldarárin sín hjá AC Milan.

Ruud Gullit og eftirmaður hans Gianluca Vialli. Vialli tók við af Gullit þegar Hollendingurinn var rekinn.Getty/Alessandro Sabattini

„Ég fékk til félagsins Gianfranco Zola, Gianluca Vialli, Roberto di Matteo og Frank Leboeuf. Við unnum enska bikarinn 1997 og vorum í öðru sæti í deildinni í febrúar 1998 auk þess að vera komnir í átta liða úrslit Evrópukeppni bikarhafa. Ég var líka í viðræðum um að fá þá Jaap Stam frá PSV Eindhoven og Brian Laudrup frá Rangers,“ sagði Ruud Gullit.

Chelsea liðið hafði reyndar dottið niður í þriðja sætið eftir 2-0 tap á móti Arsenal í síðasta leiknum hans Gullit. Arsenal komst þá upp fyrir Chelsea og í annað sætið á eftir Manchester United. Arsenal varð síðan enskur meistari þetta vor en Chelsea endaði í fjórða sæti því Liverpool fór líka upp fyrir Lundúnaliðið á lokakaflanum.

Daginn áður en hann var rekinn var Ruud Gullit að spila golf með einum þjálfaranum, Gwyn Williams, og tveimur leikmann liðsins, þeim Gianfranco Zola og Kevin Hitchcock.

„Ég var að reyna að ná í Laudrup á meðan við vorum að spila en hann svaraði ekki sem var skrýtið,“ sagði Gullit.

„Það kom síðan í ljós að Gwyn, sem var einn af mínum bestu vinum og hafði hjálpað mér mikið, vissi nákvæmlega hvað væri í gangi og að þeir ætluðu að reka mig. Hann var að spila með mér golf til að halda mér í burtu og passa upp á það að ég væri ekki á neinum stöðum þar sem Laudrup væri,“ sagði Gullit.

„Það var skelfileg lífsreynsla að vera rekinn og það var engin ástæða til þess. Þeir létu sem svo að þetta væri út af samningamálum og launakröfum mínum en það var algjör bull því engar viðræður höfðu farið fram. Þeir ætluðu alltaf að reka mig,“ sagði Gullit.

„Það versta er hvað Gwyn gerði. Ég skildi ekki hvernig hann gat gert þetta við mann sem hann eyddi öllum dögum með. Hann hefði ekki þurft annað en að segja mér að passa mig því eitthvað væri í gangi,“ sagði Ruud Gullit.

„Þetta er það versta sem einhver hefur gert mér, bæði á ferlinum og í mínu lífi, Það voru mestu vonbrigðin að einhver gæti gert þetta við mig og ég get ekki fyrirgefið honum fyrir það,“ sagði Gullit.

Gianluca Vialli tók við Chelsea liðinu af Ruud Gullit en hann var líka spilandi þjálfari hjá liðinu. Vialli var stjórinn næstu tvö tímabil en þurfti síðan að taka pokann sinn eftir aðeins fimm leiki á 2000-01 tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×