Heimsmarkmiðin

Hálfur milljarður króna frá Íslandi í þróun bóluefnis

Heimsljós
Skjáskot úr útsendingu Global Vaccine Summit í gær þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti um framlag Íslands.
Skjáskot úr útsendingu Global Vaccine Summit í gær þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti um framlag Íslands.

Alls söfnuðust 8,8 milljarðar Bandaríkjadala á ráðstefnu bólusetningarbandalagsins Gavi í gær en markmiðið var að safna 7,4 milljörðum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti um 500 milljóna króna framlag Íslands á ráðstefnunni.

Um er að ræða framlag til til sérstaks aðgerðabandalags fjölmargra ríkja, fyrirtækja og stofnana sem miðar að því að hraða þróun, framleiðslu og dreifingu á bóluefni við COVID-19. Það var stofnað fyrir rúmum mánuði og markmið þess er jafnframt að stuðla að sýnatökum og meðferðarúrræðum fyrir alla, óháð búsetu og efnahag.

Framlag Íslands skiptist í tvennt, 250 milljónir króna fara til Gavi og sama upphæð til CEPI (Coalition for Epidemic Preparedness Innovation) sem er samstarfsvettvangur fyrirtækja og opinberra aðila um viðbúnað gegn farsóttum.

Fjölmargar alþjóðastofnanir og sjóðir á sviði heilbrigðismála, auk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) standa að aðgerðabandalaginu og fjöldi ríkja hefur tilkynnt um framlög til mismunandi stofnana undir hatti þess. Þannig hafa Norðmenn heitið milljarði Bandaríkjadala og Bandaríkin, Bretland, Kanada og Þýskaland heitið hundruð milljóna Bandaríkjadala.

Forsætisráðherra lagði í ræðu sinni áherslu á jafnan aðgang allra að heilsugæslu og öruggum bóluefnum óháð kyni, efnahag og búsetu: „Jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu er einn mikilvægasti þáttur heilbrigðismála og tryggir grunnmannréttindi; réttinn til lífs. Bólusetning færir öllum kynslóðum tækifæri til heilbrigðrar og innihaldsríkrar ævi,“ sagði forsætisráðherra í upphafsávarpi sínu. Katrín sat jafnframt fyrir svörum á fjölmiðlafundi í lok ráðstefnunnar.

Auk forsætisráðherra Íslands ávörpuðu margir þjóðarleiðtogar fjarráðstefnuna sem boðað var til af Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. Bill Gates, stofnandi Microsoft, var jafnframt einn ræðumanna en stofnun Bill og Melindu Gates hefur heitið 250 milljónum Bandaríkjadala til baráttunnar gegn COVID-19.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.






×