Enski boltinn

Chilwell næstur inn hjá Chelsea

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ben Chilwell.
Ben Chilwell. vísir/getty

Enski varnarmaðurinn Ben Chilwell er næstur á óskalista Frank Lampard, stjóra Chelsea, en enskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Chelsea undirbúi nú tilboð í þennan 24 ára gamla bakvörð Leicester City.

Ljóst er að Chelsea mun þurfa að punga út hárri fjárhæð fyrir kappann þar sem hann er samningsbundinn Leicester til 2024.

Chilwell hefur fest sig í sessi í stöðu vinstri bakvarðar hjá enska landsliðinu á næstu árum og sér Lampard hann fyrir sér sem framtíðarbakvörð í liði Chelsea. Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á liði Chelsea í sumar og eru vinstri bakverðirnir Marcos Alonso og Emerson á meðal þeirra sem verða líklega seldir frá félaginu.

Forráðamenn Chelsea hafa ekki setið auðum höndum undanfarnar vikur þó ekkert hafi verið spilað í enska boltanum en félagið er komið langt með 49 milljón punda kaup á þýska framherjanum eftirsótta Timo Werner.

Í lok febrúar gekk Chelsea frá kaupum á marokkóska miðjumanninum Hakim Ziyech frá Ajax og mun hann ganga í raðir félagsins í sumar.

Chelsea er í 4.sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðum er ólokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×