Víglínan á Stöð 2 í dag er helguð embætti forseta Íslands en forsetakosningar fara fram hinn 27. júní næst komandi. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mætir í fyrri hluta þáttarins til Heimis Más Péturssonar fréttamanns til að fara yfir fyrsta kjörtímabil hans sem er að líða og hvaða hug Guðni ber til framhaldsins.
Áskorandinn Guðmundur Franklín Jónsson kemur í seinni hluta Víglínunnar til að ræða áherslur hans á forsetastóli nái hann að verða fyrstu manna til að velta sitjandi forseta úr embætti. En Guðmundur Franklín hefur lýst vilja til að gera töluverðar breytingar á forsetaembættinu þannig að það verði mun meira gerandi í stjórnmálum líðandi stundar en oftast áður.
Hægt er að skoða sautján mínútna fréttaskýringu Heimis Más, Leiðin til Bessastaða, á sjónvarpshluta Vísis og Maraþon en þátturinn var á dagskrá Stöðvar 2 fimmtudagskvöldið 4. júní.
Þá munu Guðni og Guðmundur Franklín mæta til rökræðna í þættinum Baráttan um Bessastaði sem verður í opinni dagskrá og beinni útsendingu á Stöð 2 klukkan 18:55 fimmtudaginn 11. júní.
Víglínan er í opinni dagskrá á Stöð 2 og Vísi klukkan 17:35 og verður sett inn hér og á sjónvarpshluta Vísis fljótlega eftir útsendingu.