Íslenski boltinn

Framkvæmdastjóri Fótbolti.net um ákvörðun yfirvalda: „Af hverju erum við að þessu?“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hafliði Breiðfjörð er framkvæmdastjóri Fótbolta.net en hann hefur átt miðilinn frá upphafi.
Hafliði Breiðfjörð er framkvæmdastjóri Fótbolta.net en hann hefur átt miðilinn frá upphafi. HEIÐA DÍS BJARNADÓTTIR

Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri Fótbolti.net, skilur lítið í því að sömu reglur gildi ekki yfir alla viðburði hér á landi.

Einungis 200 mega vera í hverju hólfi á þeim fótboltaleikjum sem hafa farið fram undanfarna daga og mun það verða svoleiðis er íslensku úrvalsdeildirnar fara að rúlla.

Hafliði ber saman tvær myndir. Önnur þeirra sýnir mynd frá æfingaleik Breiðablik og Vals þar sem ekki eru margir í stúkunni á meðan samstöðufundur á Austurvelli rúmaði um 3500 manns.

„Á efri myndinni má sjá fótboltaleik í vikunni. Takmörkun um 200 áhorfendur á sama svæði. Allir sitja stilltir og blandast lítið við aðra áhorfendur. Yfirvöld banna stærri samkomur en Íslandsmótið var að hefjast. Allskonar vandamál skapast vegna þessara takmarkanna,“ sagði Hafliði og hélt áfram.

„Neðri myndin sýnir samstöðufund á Austurvelli. Sömu yfirvöld samþykktu fundinn, 3500 manns komu saman og gengu um allt og blönduðu geði við hvort annað. Engin vandamál enda virðast ekki vera nein smit í samfélaginu.“

„Þetta er ósanngjarnt og sjálfsagt að gera kröfu á að sama gangi yfir alla með því að annað hvort fella niður fjöldatakmarkanir eða rýmka þær verulega. Ég spyr aftur afhverju erum við að þessu?“

Pistil Hafliða í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×