Viðskipti erlent

Danske bank yfir­gefur Eist­land

Atli Ísleifsson skrifar
Forsaga málsins er sú að grunur er um að gríðarmikið peningaþvætti hafi átt sér stað í eistnesku útibúi Danske Bank á árunum 2007 til 2015.
Forsaga málsins er sú að grunur er um að gríðarmikið peningaþvætti hafi átt sér stað í eistnesku útibúi Danske Bank á árunum 2007 til 2015. Getty

Danske Bank hefur náð samkomulagi um sölu á eftirstandandi eignum sínum í Eistlandi í kjölfar peningaþvættishneykslis fyrirtæksins. Danske Bank selur starfsemina til eistneska bankans LHV og er söluverðið um 39 milljarðar króna.

Danske Bank seldi fyrir um ári hluta af eistneskri starfsemi sinni til LHV þar sem söluverðið nam um 62 milljörðum. Fáeinum mánuðum fyrir það, eða í febrúar 2019, úrskurðaði eistneska fjármálaeftirlitið að Danske Bank skyldi hætta starfsemi sinni í landinu.

Forsaga málsins er sú að grunur er um að gríðarmikið peningaþvætti hafi átt sér stað í eistnesku útibúi Danske Bank á árunum 2007 til 2015. Leikur grunur á að um 220 milljarðar dollara hafi verið þvættaðir í gegnum útibú danska bankans í Tallinn. Hafa færslur verið tengdar við glæpasamtök í Rússlandi, háttsetta einstaklinga í rússnesku leyniþjónustunni, auk viðskipta við leiðtoga í Norður-Kóreu.

Rannsókn á málinu stendur nú yfir í fjölda ríkja, en tíu fyrrverandi starfsmenn útibús Danske bank í Tallinn voru handteknir vegna gruns um að þeir hafi átt þátt í peningaþvættinu árið 2018.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×