Íslenski boltinn

Birgitta með fimmu gegn Fram - Ljóst hvaða lið mætast í 2. umferð bikarsins

Sindri Sverrisson skrifar
Birgitta Hallgrímsdóttir, hér á ferðinni í leik gegn Aftureldingu, skoraði fimm mörk í kvöld.
Birgitta Hallgrímsdóttir, hér á ferðinni í leik gegn Aftureldingu, skoraði fimm mörk í kvöld. FACEBOOK/@umfgfotbolti

Nú er orðið ljóst hvaða lið mætast í 2. umferð Mjólkurbikars karla og kvenna í fótbolta en síðustu leikjunum í 1. umferð lauk í kvöld.

Eini leikur kvöldsins í Mjólkurbikar karla var á milli ÍH og Berserkja þar sem Garðar Ingi Leifsson átti stærstan þátt í 3-1-sigri ÍH. Fyrsta mark liðsins kom eftir skot hans úr aukaspyrnu, hann skoraði svo beint úr annarri aukaspyrnu og þriðja markið í lokin úr víti. ÍH tekur á móti GG á laugardaginn í 2. umferð sem leikin er 12.-14. júní, en hér má sjá leikina í þeirri umferð. Leikur Grindavíkur og ÍBV verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á laugardag kl. 16.

Í Mjólkurbikar kvenna vann Víkingur R. 5-3 sigur gegn Gróttu í framlengdum leik. Nadía Atladóttir fullkomnaði þrennu sína fyrir Víkinga í framlengingunni en Grótta, sem komst í 3-2 snemma í seinni hálfleik, var manni færri frá 59. mínútu þegar Emma Steinsen Jónsdóttir fékk að líta rauða spjaldið. María Lovísa Jónasdóttir skoraði tvö marka liðsins.

Birgitta Hallgrímsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði öll fimm mörkin í 5-0 sigri Grindavíkur á Fram. Afturelding vann HK 3-0 en lesa má um þann leik hér, og Augnablik skellti Fjölni 5-0 í Grafarvogi.

Í 2. umferð, þeirri síðustu áður en úrvalsdeildarliðin mæta til leiks, sækir Afturelding lið Keflavíkur heim, Haukar fá Gróttu í heimsókn, og Augnablik mætir Grindavík. Aðra leiki umferðarinnar má sjá á vef KSÍ.

Upplýsingar um markaskorara eru af urslit.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×