Erlent

Olíulekinn í Síberíu mengar stórt stöðuvatn

Kjartan Kjartansson skrifar
Björgunarfólk dælir upp menguðu vatni úr Ambarnaya-ánni við Norilsk í Síberíu. Olían er nú komin út í stórt stöðuvatn.
Björgunarfólk dælir upp menguðu vatni úr Ambarnaya-ánni við Norilsk í Síberíu. Olían er nú komin út í stórt stöðuvatn. Vísir/EPA

Hætta er nú á að dísilolía sem lak frá orkuveri við Norilsk í Síberíu renni út í Norður-Íshafið eftir að hún komst í stórt stöðuvatn. Olíulekinn er sagður versta umhverfisslys af þessu tagi á norðurskautssvæðum Rússlands á síðari tímum.

Neyðarstarfsmenn vinna nú að því að reyna að koma í veg fyrir að olía dreifist víðar. Áætlað er að um 21.000 tonn af olíunni hafi lekið úr tanki við orkuver í Norilsk föstudaginn 29. maí. Þaðan komst olían út í Ambarnaya-ána og hefur hún nú runnið um tuttugu kílómetra norður frá Norilsk í Pyasino-vatnið, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Pyasino-vatn er uppspretta samnefndrar ár sem rennur út í Karahafið sem er hluti af Norður-Íshafinu. Áin er yfirleitt í klakaböndum frá október til júní.

Alexander Uss, ríkisstjóri í Krasnoyarsk-héraði segir mikilvægt að koma í veg fyrir að olían berist út í Pyasino-ána. Hann telur það gerlegt. Þegar hafa um 23.000 rúmmetrar mengaðs jarðvegs verið fjarlægðir.

Talið er að leki hafi komið á olíutankinn þegar stöplar undir honum sukku vegna þiðnandi sífrera sem hann stóð á. Rússneskir saksóknarar hafa fyrirskipað rannsókn á „sérstaklega hættulegum“ mannvirkjum sem standa á freðmýri.

Forstöðumaður orkuversins í Norilsk var handtekinn eftir að í ljós kom að stjórnendur þess tilkynntu yfirvöldum ekki um lekann fyrr en fregnir af honum byrjuðu að berast út á samfélagsmiðlum.


Tengdar fréttir

Neyðarástand vegna meiriháttar olíuleka í Síberíu

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hefur lýst yfir neyðarástandi eftir að um 20.000 tonn af dísilolíu láku út í á í Síberíu norðan heimskautsbaugsins. Olían lak úr tanki sem brast við orkuver við borgina Norilsk á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×