Enski boltinn

Spáir því að ensku liðin missi af 170 milljörðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola lyftir enska meistarabikarnum eftir sigur Manchester City á síðustu leiktíð. Manchester City liðið hefur unnið deildina tvö ár í röð.
Pep Guardiola lyftir enska meistarabikarnum eftir sigur Manchester City á síðustu leiktíð. Manchester City liðið hefur unnið deildina tvö ár í röð. Getty/Michael Regan

Liðin í ensku úrvalsdeildinni munu missa af tekjum upp á einn milljarð punda vegna kórónuveirunnar en þetta kemur fram í matskýrslu fjármálaþjónustufyrirtækisins Deloitte.

Öll íþróttafélög heims hafa þurft að bregðast við tekjumissi eftir að kórónuveiran raskaði allri íþróttastarfsemi í marga mánuði. Hvergi eru upphæðirnar þó jafnháar og í ensku úrvalsdeildinni.

Breska ríkisútvarpið skoðaði samantekt Deloitte um áhrif kórónuveirufaraldurisins á rekstur liðanna í ensku úrvalsdeildinni.

Tekjur ensku úrvalsdeildarliðanna tuttugu voru samanlagt meira en fimm milljarðar punda á 2018-19 tímabilinu og hafa aldrei verið jafnháar. Þetta jafngildir 854 milljörðum íslenskra króna.

Dan Jones hjá Deloitte býst við því félögin verði af mjög miklum tekjum og þurfi að sætta sig við taprekstur vegna ástandsins.

Deloitte reiknar með því að ensku úrvalsdeildarfélögin verði af 500 milljónum punda, 85 milljörðum íslenskra króna, vegna þess að þau þurfa að endurgreiða hluta af sjónvarpspeningunum og tapa miklum tekjum á heimaleikjum sínum.

Deloitte sér hins vegar fram á það að hinar fimm hundruð milljónirnar, talið í pundum, gætu komið til baka á næsta tímabili takist að klára þetta tímabil og svo 2020-21 tímabilið á venjulegum tíma.

Manchester United hefur tekið gefið það út að faraldurinn hafi þegar kostað félagið 28 milljónir punda en að þeir búist við því að heildartapið verði miklu meira.

Enska úrvalsdeildin fer aftur af stað 17. júní en ekkert hefur verið spilað í deildinni síðan í mars. 92 leikir voru eftir af tímabilinu en flest liðanna áttu eftir níu leiki. Klára þarf tímabilið fyrir lok júlímánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×