Íslenski boltinn

Öruggt hjá Augnablik og Keflavík | Haukar þurftu vítaspyrnukeppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chanté Sandiford markvörður Hauka skaut í stöng í vítakeppninni.
Chanté Sandiford markvörður Hauka skaut í stöng í vítakeppninni. Mynd/Facebook-síða Hauka

Þrír leikir fóru fram í Mjólkurbikar kvenna í dag. Augnablik og Keflavík unnu örugga sigra á meðan Haukar þurftu vítaspyrnukeppni til að leggja Víking að velli.

Augnablik vann öruggan 5-0 sigur á Grindavík á Kópavogsvelli í dag. Björg Bjarmadóttir og Hugrún Helgadóttir skoruðu tvö mörk hvor og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði eitt. Augnablik leikur í Lengjudeildinni á meðan Grindavík er í neðstu deild.

Keflavík fékk Aftureldingu í heimsókn en bæði lið leika í Lengjudeildinni í sumar. Keflavík vann þægilegan 2-0 sigur þökk sé mörkum Dörfn Einarsdóttur og Marínu Rúnar Guðmundsdóttur. 

Að lokum mættust Haukar og Víkingur í Hafnafirði en bæði lið leika í Lengjudeildinni í sumar. Nadía Atladóttir kom gestunum yfir á 20. mínútu en Sæunn Björnsdóttir jafnaði fyrir Hauka mínútu síðar. Brynhildur Vala Björnsdóttir kom gestunum yfir þegar tæplega tíu mínútur voru til hálfleiks en Vienna Behnke jafnaði metin í síðari hálfleik og því þurfti að framlengja.

Ekkert var skorað í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar reyndust Haukar sterkari aðilinn og þær því komnar áfram í næstu umferð.

Í gær tryggðu Tindastóll, ÍA og Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir sér sæti í næstu umferð en nú þegar er búið að draga í næstu umferð.

Valur - ÍBV

ÍA - Augnablik

KR - Tindastóll

Haukar - Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir

Stjarnan - Selfoss

Fylkir - Breiðablik

Þróttur R. - FH

Þór/KA - Keflavík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×