Íslenski boltinn

Rúnar Kristins með 16-4 tak á Heimi Guðjóns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson hefur unnið færri Íslandsmeistaratitla en Heimir Guðjónsson. Þegar kemur að innbyrðis leikjum þá hefur Rúnar haft tak á Heimi.
Rúnar Kristinsson hefur unnið færri Íslandsmeistaratitla en Heimir Guðjónsson. Þegar kemur að innbyrðis leikjum þá hefur Rúnar haft tak á Heimi. Mynd/Daníel Þór

Rúnar Kristinsson stýrði á laugardagskvöldið KR-liðinu til sigurs í sjötta sinn í efstu deild á móti liði undir stjórn gamla liðsfélaga síns úr KR, Heimis Guðjónssonar.

KR vann leikinn 1-0 og skoraði Óskar Örn Hauksson eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiksins.

Rúnar byrjaði kannski ekki vel á móti Heimi en hefur aftur á móti haft góð tök á honum síðustu ár.

Heimir Guðjónsson vann tvo af þremur fyrstu innbyrðis leikjum liða þeirra í deildinni og einn bikarúrslitaleik að auki.

Eftir þetta fagnaði Rúnar Kristinsson sigri í fjórum deildarleikjum í röð á móti Heimi Guðjónssyni og eftir sigurinn á laugardaginn hefur Rúnar nú unnið fimm af síðustu sjö leikjum liða þeirra í efstu deild.

Frá og með sumrinu 2012 þá hafa lið Rúnars og Heimis þannig mæst sjö sinnum í úrvalsdeild karla. Lærisveinar Rúnars fengu sextán stig í þessum sjö leikjum en lið Heimis aðeins fjögur.

Rúnar er því búinn að ná í fjórfalt fleiri stig en Heimir í innbyrðis deildarleikjum þeirra undanfarin ár. Markatalan í þessum sjö leikjum er síðan 14-6 liðum Rúnars Kristinssonar í vil.

Leikir liða Rúnars Kristinssonar og Heimis Guðjónssonar í úrvalsdeild karla:

  • Rúnar Kristinsson fagnar sigri (6 leikir)
  • 2020: 1-0 sigur KR á Val á útivelli
  • 2013: 3-1 sigur KR á FH á heimavelli
  • 2013: 4-2 sigur KR á FH á útivelli
  • 2012: 3-1 sigur KR á FH á útivelli
  • 2012: 2-0 sigur KR á FH á heimavelli
  • 2011: 2-0 sigur KR á FH á heimavelli
  • Jafntefli (1 leikur)
  • 2014: 1-1 jafntefli KR og FH í Hafnarfirði
  • Heimir Guðjónsson fagnar sigri (3 leikir)
  • 2014: 1-0 sigur FH á KR á útivelli
  • 2011: 2-1 sigur FH á KR á heimavelli
  • 2010: 1-0 sigur FH á KR á útivelli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×