Bíó og sjónvarp

Óskarnum 2021 frestað

Andri Eysteinsson skrifar
Hildur Guðnadóttir vann Óskarsverðlaun í ár fyrir tónlistina í myndinni the Joker.
Hildur Guðnadóttir vann Óskarsverðlaun í ár fyrir tónlistina í myndinni the Joker. Vísri/getty

Ákvörðun hefur verið tekin um frestun Óskarsverðlaunahátíðarinnar árið 2021 sem átti að fara fram 28. febrúar í Los Angeles. Vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins hefur henni verið frestað til loka aprílmánaðar. BBC greinir frá.

Vegna faraldursins hefur framleiðsla á kvikmyndum sem áttu að koma út á árinu stöðvast. Undir venjulegum kringumstæðum yrðu það kvikmyndir sem kæmu út fyrir 31. desember 2020 gildar til tilnefningar til verðlaunanna en fresturinn hefur verið rýmkaður til loka febrúar.

Um er að ræða fjórða skiptið í sögu Óskarsverðlaunanna sem athöfninni er frestað. Árið 1938 var tekin ákvörðun um frestun vegna flóða í Los Angeles en árið 1968 var frestun vegna morðsins á Martin Luther King jr. og þrettán árum síðar vegna tilraunar til að ráða forseta Bandaríkjanna, Ronald Reagan af dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×