Erlent

Sjö skotnir og fimm urðu fyrir bílum í samkvæmi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónn að störfum í Charlotte. Myndin tengist fréttinni þó ekki beint.
Lögregluþjónn að störfum í Charlotte. Myndin tengist fréttinni þó ekki beint. Getty/Sean Rayford

Minnst tveir eru dánir og sjö særðir eftir skotárás í Charlotte í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum í nótt. Auk þeirra sjö sem eru særðir eru fimm slasaðir eftir að ekið var á þau, samkvæmt Johnny Jennings, lögreglustjóra.

Fólkið var að hlaupa á brott þegar ekið var á það af öðru fólki sem var einnig á flótta. Ástand hinna særðu og þeirra sem urðu fyrir bílum liggur ekki fyrir. Heimildir héraðsmiðilsins WBTW herma þó að minnst fimm séu í lífshættu.

Upplýsingar eru enn á reiki en Jennings sagði útlit fyrir að minnst tveir hafi hleypt af skotum en enginn hefur verið handtekinn að svo stöddu. Þá liggur ekki fyrir hver eða hverjir voru skotmörk árásarinnar.

Verið var að halda götusamkvæmi þegar skotum var hleypt af, samkvæmt AP fréttaveitunni. Þegar lögreglu bar að garði voru hundruð manna á götum hverfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×