Innlent

Náði myndbandi af harkalegum bardaga tveggja karra

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skjáskot úr myndbandinu.
Skjáskot úr myndbandinu. Mynd/Skjáskot

Hlynur Vigfús Björnsson, íbúi á Bíldudal varð vitni að ansi ójöfnum leik í gærmorgun þegar karri, karlkyns rjúpa, gekk hreinlega frá öðrum karra í garðinum hjá Hlyni.

Hlynur birti myndband af lokametrum bardagans í Facebook-hópnum Skotveiðispjallið en líkt og sjá má á meðfylgjandi myndbandi gekk sigurvegarinn ansi hart fram í bardaganum, raunar svo hart fram að hann gekk að hinum dauðum.

„Ég hef aldrei upplifað svona sjón áður,“ segir Hlynur í samtali við Vísi en hann vaknaði við sérkennileg hljóð fyrir utan svefnherbergisgluggann í gærmorgun. Voru það karrarnir tveir í hatrömum bardaga.

„Þá voru þeir búnir að vera í bardaga áður en ég kíkti út. Þá teygði ég mig nú í símann en ég hélt að þetta væri nú ekki að ganga svona langt. Svo lá hann bara eftir,“ segir Hlynur.

Líkt og sjá má á myndbandinu er fiður úti um allt í garðinum við upphaf myndbandsins, og því má reikna að bardaginn hafi staðið yfir í dágóða stund áður en Hlynur varð var við bardagann.

„Þetta var eins og vígvöllur,“ segir Hlynur.

Sem fyrr segir segist hann aldrei hafa séð viðlíka hegðun áður hjá rjúpu, þrátt fyrir að hafa stundað rjúpuveiðar í aldarfjórðung. Telur Hlynur líklegt að bardaginn hafi snúist um að annar þeirra hafi verið að verja óðalið sitt í grennd við heimili hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×