Íslenski boltinn

„Of gott vopn til að nota það svona illa“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Innköstin rosalegu.
Innköstin rosalegu. vísir/s2s

KA fékk í vetur til sín Mikkel Qvist en hann kom til félagsins að láni frá Horsens í Danmörku. Aðal styrkleiki Qvist eru rosaleg innköst eins og sást í markalausa jafnteflinu gegn Víkingi um helgina.

Qvist var ekki með í 1. umferðinni er KA tapaði fyrir ÍA á útivelli en hann var mættur í byrjunarliðið þegar bikarmeistararnir komu í heimsókn. Farið var yfir innköst hans í Pepsi Max-stúkunni á mánudagskvöldið og Tómas Ingi Tómasson hafði ekki séð annað eins.

„Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Þetta er svo fáránlega sterkt vopn en þegar þú ert búinn að grýta fimm sinnum í hendurnar á Ingvari, ertu þá ekkert að fara kasta neitt annað? Eða eitthvað styttra? Eða eitthvað flatara?“ sagði Tómas Ingi og hélt áfram.

„Þegar þú ert með svona þá ertu úti á æfingavelli og setur tvö til þrjú dæmi upp. Þetta er of gott vopn til þess að nota það svona illa, finnst mér. Þetta er eins og rosa flottar hornspyrnur sem enda allar á markverðinum.“

KA mætir Leikni Reykjavík í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld og hefjast leikar klukkan 18.00 norðan heiða. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Klippa: Pepsi Max-stúkan - Umræða um innköst KA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×