Enski boltinn

„De Bruyne klappar fyrir leikmönnum sem geta ekki einu sinni reimað skóna hans“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Watford standa heiðursvörð fyrir Englandsmeistara Chelsea fyrir þremur árum.
Leikmenn Watford standa heiðursvörð fyrir Englandsmeistara Chelsea fyrir þremur árum. getty/Darren Walsh

Danny Murphy, fyrrverandi leikmaður Liverpool, segir að sú hefð að standa heiðursvörð fyrir Englandsmeistara sé della.

Leikmenn Manchester City munu standa heiðursvörð fyrir nýkrýnda Englandsmeistara Liverpool þegar þeir ganga inn á völlinn fyrir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á fimmtudaginn. Það er fyrsti leikur Liverpool eftir að liðið varð Englandsmeistari.

Murphy segir að stuðningsmönnum sé sama um þessa hefð og vill að hún verði blásin af.

„Þetta er rétt að því leyti að þú vilt sýna sigurvegurum virðingu og hylla þá. Að City muni standa heiðursvörð á fimmtudaginn sýnir auðmýkt. En mér finnst þetta vera kjaftæði,“ sagði Murphy á talkSPORT.

„Ég veit ekki hvenær og af hverju þetta byrjaði en mér myndi finnast óþægilegt að gera þetta. Ég myndi gera þetta þótt ég vildi það ekki, því þetta er ekki einlægt. Stuðningsmennirnir vilja ekki að þú gerir þetta, þú vilt það ekki og þetta er þýðingarlaust.“

Murphy finnst skrítið að góðir leikmenn skuli standa heiðursvörð fyrir leikmenn sem eru ekki nálægt því jafn góðir og þeir.

„Kevin De Bruyne er sennilega besti miðjumaður heims og hann mun klappa fyrir leikmönnum sem geta ekki einu sinni reimað skóna hans,“ sagði Murphy.

De Bruyne og félagar í City urðu Englandsmeistarar 2018 og 2019 en eru núna 23 stigum á eftir Liverpool þegar sjö umferðum er ólokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×