Körfubolti

Hilmar Smári snýr aftur til Stjörnunnar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Orri Gunnarsson og Hilmar Smári Henningsson kampakátir eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitlinum í Síkinu síðasta vor. 
Orri Gunnarsson og Hilmar Smári Henningsson kampakátir eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitlinum í Síkinu síðasta vor.  Vísir/Hulda Margrét

Hilmar Smári Henningsson er genginn aftur til liðs við Stjörnuna í Bónus deild karla í körfubolta eftir hálft tímabil hjá litaénska félaginu Jovana. 

Hilmar Smári var stór hluti af Íslandsmeistaraliði Stjörnunnar á síðasta tímabili en vitjaði nýrra ævintýra eftir Evrópumótið með íslenska landsliðinu. Hlutirnir gengu ekki upp þar, Hilmar var kvaddur af félaginu í gær og Stjarnan var snögg að bjóða honum samning. 

Hilmar, sem varð 25 ára í september, hefur áður reynslu af því að spila erlendis en hann var leikmaður Valencia á Spáni 2019-21 og Eisbären Bremerhaven í Þýskalandi 2023-24. Hann er uppalinn hjá Haukum en hefur einnig leikið með Þór á Akureyri og svo Stjörnunni. 

Á síðasta tímabili með Stjörnunni var Hilmar með 21,6 stig, 4,1 frákast og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppninni. Í úrslitakeppninni var hann með 19,8 stig, 4,1 frákast og 3,4 stoðsendingar.

Stjarnan er í 5. sæti Bónus deildarinnar, með átta sigra og fimm töp, og spilar næst við Keflavík fimmtudaginn 15. janúar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×