Íslenski boltinn

Arnar Freyr frá í tvo mánuði | Enginn markvörður á leið til HK

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Freyr meiddist eftir aðeins rúmar tíu mínútur í fyrsta leik HK á tímabilinu.
Arnar Freyr meiddist eftir aðeins rúmar tíu mínútur í fyrsta leik HK á tímabilinu. vísir/daníel

Enn eru um tveir mánuðir í að markvörðurinn Arnar Freyr Ólafsson geti byrjað að spila með HK á ný.

Arnar fór af velli í upphafi leiks HK og FH í 1. umferð Pepsi Max-deildar karla eftir að hafa tognað aftan í læri. Hann hefur ekkert leikið með Kópavogsliðinu síðan þá.

„Arnar verður sennilega frá í tvo mánuði. Maður veit svo aldrei hvort það lengist eða styttist um tvær vikur,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, í samtali við Vísi í dag.

Sigurður Hrannar Björnsson hefur varið mark HK síðan Arnar meiddist. Brynjar á von á því að HK-ingar setji áfram traust sitt á Sigurð.

„Það stefnir í það,“ sagði Brynjar. Þriðji markvörður HK er hinn nítján ára Hjörvar Daði Arnarsson og hann hefur verið á bekknum í síðustu þremur leikjum liðsins.

Félagaskiptaglugganum verður lokað í dag og hann verður ekki opnaður aftur fyrr en í ágúst. Brynjar segir að HK muni ekki fá sér markvörð, eða annan leikmann, í dag. „Við erum búnir að loka þessu og þetta verður rólegt hjá okkur í dag.“

Valgeir Valgeirsson meiddist í 0-3 sigrinum á Íslandsmeisturum KR um þarsíðustu helgi og hefur misst af síðustu tveimur leikjum HK, sigrinum á Magna í Mjólkurbikarnum og tapinu fyrir Val í Pepsi Max-deildinni.

„Valgeir er að koma til. Þetta gætu verið 1-2 dagar eða 4-5 dagar. Það er erfitt að segja,“ sagði Brynjar en næsti leikur HK er gegn nýliðum Gróttu á laugardaginn.

HK er með þrjú stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í Pepsi Max-deildinni. Á síðasta tímabili endaði liðið í 9. sæti.


Tengdar fréttir

HK fær framherja

HK hefur fengið Stefan Alexander Ljubicic til liðs við sig og á hann að styrkja liðið fyrir komandi átök í Pepsi Max-deild karla.

„Þjóðhátíðarleikurinn stendur upp úr“

Arnar Freyr Ólafsson varð ekki aðalmarkvörður í meistaraflokki fyrr en hann var 23 ára. Misvel gekk fyrst eftir að hann kom í HK en leiðin hefur legið upp á við frá miðju tímabili 2017. Góð samskipti eru ein stærsta ástæðan fyrir sterkum varnarleik HK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×