Íslenski boltinn

Mikilvægt að liðin séu meðvituð um þá hættu sem er í loftinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haraldur ræddi við Gaupa í dag.
Haraldur ræddi við Gaupa í dag. Mynd/Stöð 2

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings og formaður stjórnar Íslensks Toppfótbolta, ræddi við Gaupa í Sportpakka Stöðvar 2 um þau áhrif sem kórónusmit hafa á Pepsi Max deildir karla og kvenna. Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum neðst í fréttinni.

„Það er mikilvægt að við þekkjum raunstöðuna á þessum málum af því þessi smit sem komu upp í síðustu viku voru mikið áfall fyrir okkur,“ sagði Haraldur þegar Gaupi hitti hann niðri í Vík fyrr í dag.

„Óþægilegt að hafa þetta hangandi yfir sér en mikilvægt að liðin öll séu meðvituð um þá hættu sem er í loftinu og að leikmenn umgangist hlutina á réttan hátt.“

„Það er mjög lítið svigrúm og ljóst að liðin þurfa að leika mjög þétt til að vinna þetta upp. Jafnvel með tveggja daga millibili,“ sagði Haraldur varðandi leikjaálag þeirra liða sem hafa þurft að fara í sóttkví. Sem stendur eru kvennalið Breiðabliks, KR og Fylkis öll í sóttkví. Sömu sögu er að segja af Stjörnunni karla megin.

„Það er búið að ítreka það þannig að öll lið á höfuðborgar svæðinu eigi að senda sína leikmenn í skimun. Ég held að öllum líði betur eftir á að vita ef allir eru hreinir. Þá erum við búin að núllstilla okkur og vitum hver staðan er. Svo þarf að fara varlega í framhaldinu.“

„Á morgun verður allt vonandi komið á hreint,“ sagði Haraldur varðandi hvenær endanlegar niðurstöður myndu liggja fyrir.

„Það hafa verið upp allskonar sviðsmyndir ef eitthvað svona myndi koma til og við vitum að þetta verður mjög erfitt. Við verðum bara að krossa fingur og vona að þetta hitti okkur ekki frekar en hefur orðið,“ var svarið varðandi það hvort félögin hefðu gert ráðstafanir.

„Vont fyrir liðin. Þurfa væntanlega allt að viku eftir þessar tvær vikur til að koma sér aftur í stand. Þetta er stórmál,“ sagði Haraldur að lokum um hversu mikil áhrif sóttkví getur haft á lið deildanna tveggja.

Klippa: Haraldur ræðir smit í efstu deildum karla og kvenna

Tengdar fréttir

„Hrikaleg staða“ en ef að við spilum verður mótið að telja

Þegar eitt lið þarf að bíða heima í sóttkví í tvær vikur á meðan að önnur geta æft og spilað samkvæmt áætlun, er þá ekki búið að gjaldfella Íslandsmótið í fótbolta 2020? Talsmenn liða sem orðið hafa fyrir barðinu á afleiðingum kórónuveirufaraldursins bera sig ágætlega þó að vandinn sé augljós.

Klara um frestanir: „Vita allir að svig­rúmið er ekki mikið“

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að svigrúmið sé lítið, en þó eitthvað, til þess að fresta og endurraða þeim leikjum sem frestaðir hafa verið vegna kórónuveirusmits í leikmannahópum Breiðabliks í Pepsi Max-deild kvenna og Stjörnunnar í Pepsi Max-deild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×