Skoðun

Styrkjum samkeppnislöggjöfina

Ólafur Stephensen skrifar

Alþingi samþykkti breytingar á samkeppnislögum rétt fyrir þinglok. Segja má að sú vegferð, sem hófst með birtingu frumvarpsdraga Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í október í fyrra, hafi endað á betri stað en á horfðist í upphafi.

Atlögu í þágu hagsmuna stórfyrirtækja hrint

Í drögunum var að finna tillögu um að Samkeppniseftirlitið yrði svipt heimild sinni til að bera niðurstöður áfrýjunarnefndar samkeppnismála undir dómstóla. Félag atvinnurekenda lagðist eindregið gegn þeirri tillögu og benti á að hún myndi torvelda Samkeppniseftirlitinu að gæta hagsmuna keppinauta brotlegra fyrirtækja og neytenda, sem samkeppnisbrot bitna á. Þessi tillaga var ekki lengur í frumvarpinu þegar það var lagt fram á þingi.

Þar var hins vegar önnur tillaga sem stuðlaði að því að veikja Samkeppniseftirlitið; um að afnema heimild þess til íhlutunar á tilteknum mörkuðum án þess að beinlínis hafi verið brotið gegn samkeppnislögum, heldur sé fyrir hendi háttsemi eða aðstæður sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni, almenningi til tjóns. FA lagðist mjög eindregið gegn því að þessi heimild yrði felld úr lögunum og færði rök fyrir því að hún stæði í vegi fyrir því að markaðir gætu starfað neytendum til tjóns og tryggði því hagsmuni neytenda og atvinnulífsins í heild. „Með því að samþykkja umrædda breytingu væri Alþingi að ganga erinda stórfyrirtækja sem vilja starfa við litla eða enga samkeppni og koma í veg fyrir að áskorendur geti komið inn á mikilvæga markaði og stuðlað þar að samkeppni sem er samfélaginu öllu til hagsbóta,“ sagði í umsögn FA um frumvarpið.

Í núverandi óvissuástandi kreppunnar í kjölfar heimsfaraldursins, þar sem sennilegt er að samþjöppun eignarhalds eigi sér stað á ýmsum mörkuðum, er enn mikilvægara en ella að Samkeppniseftirlitið hafi þessa heimild.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis tók mark á þessum rökum og hætti við að fella umrædda heimild Samkeppniseftirlitsins úr lögum. Gerðar voru breytingar á frumvarpinu sem ramma heimildina betur inn og gera m.a. skýrara en áður að aðstæður sem takmarka samkeppni á mörkuðum geta ekki síður verið af völdum opinberra aðila en einkafyrirtækja, sem FA telur mikilvæga viðbót við lögin.

Að þessum breytingum á málinu virtum verður ekki betur séð en að ágætlega hafi tekizt að hrinda atlögu að samkeppnislögunum í þágu hagsmuna stórfyrirtækja, sem vilja endilega losna við að samkeppnisyfirvöld andi niður um hálsmálið á þeim.

Breytingar sem stuðla að skilvirkni

Aðrar breytingar sem gerðar voru á lögunum eru að mati FA flestar til bóta og stuðla að aukinni skilvirkni samkeppniseftirlits. Þar má nefna ákvæði um að heimilt verði að leita til dómstóla með ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins án þess að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála liggi fyrir.

FA taldi líka eðlilegt að hækka fjárhæðarmörk tilkynningaskyldra samruna úr tveimur milljörðum króna í þrjá, til að vinna gegn þeirri þróun að æ stærri hluti tíma Samkeppniseftirlitsins fari í að skoða samruna og uppkaup stórfyrirtækja á smærri fyrirtækjum, en minni tími sé fyrir vikið aflögu til að sinna kvörtunum og kærum smærri fyrirtækja vegna samkeppnisbrota.

Heimild til fyrirtækja til að meta sjálf hvort skilyrði fyrir undanþágum frá 10. og 12. grein samkeppnislaganna séu fyrir hendi er sömuleiðis til einföldunar og tímasparnaðar, enda meti Samkeppniseftirlitið eftir á hvort háttsemi fyrirtækjanna rúmist innan ramma laganna.

Næsta vers

FA gerði ýmsar tillögur um viðbætur við samkeppnislögin, sem ekki hlutu náð fyrir augum efnahags- og viðskiptanefndar. Þar má nefna skýrari ákvæði um réttarfar þegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins er skotið til dómstóla. FA lagði líka til að áfrýjunarnefnd samkeppnismála yrði efld með því að mæla sérstaklega fyrir um að hún skuli skipuð færustu sérfræðingum á sviði samkeppnisréttar á hverjum tíma. FA lagði einnig til, í þágu skilvirkni og styttri málsmeðferðartíma, að heimilt yrði að bera niðurstöður nefndarinnar beint undir Landsrétt.

Félag atvinnurekenda lagði til í umsögn sinni við frumvarpið að bætt yrði inn í samkeppnislögin ákvæðum sem styrktu réttarstöðu þolenda samkeppnisbrota, bæði keppinauta brotlegra fyrirtækja og neytenda. Eftir fund með efnahags- og viðskiptanefnd sendi FA henni að beiðni nefndarmanna minnisblað með ýtarlegum tillögum í þessa veru. Mögulega olli tímaskortur því að þau ákvæði rötuðu ekki inn i samkeppnislögin, því að nefndarmenn sýndu tillögum FA bæði áhuga og skilning.

Skýrari réttur keppinauta brotlegra fyrirtækja og neytenda til að sækja bætur fyrir samkeppnislagabrot stuðlar að meiri varnaðaráhrifum og öflugri framkvæmd samkeppnisreglnanna. Aðhaldið kemur þá ekki eingöngu frá ríkisstofnun, heldur ekki síður einkaaðilum. Það er klárlega næsta vers í styrkingu samkeppnislöggjafarinnar að bæta slíkum ákvæðum við hana.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×