Álfasaga fær ekki að nota slagorðið „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt,“ til sölu og markaðssetningar á matarpökkum og annarri tengdri vöru. Slagorðið er talið svipa of til slagorðs Eldum rétt, „Eldum rétt,“ sem fyrirtækið hefur einkaleyfi á. Að þessu komst Héraðsdómur Reykjaness og kemur fram í dómi sem féll í dag. Þá er Álfasögu einnig óheimilt að starfrækja heimasíðuna bordumrett.is.
Eldum rétt hóf rekstur árið 2013 og hefur notað heitið Eldum Rétt frá þeim tíma. Í janúar 2014 hóf fyrirtækið sölu á matarpökkum sem viðskiptavinir kaupa og elda síðan sjálfir samkvæmt uppskrift og nota hráefni sem fylgir með. Eldum rétt óskaði eftir skráningu vörumerkja „Eldum rétt“ þann 7. apríl 2017 og fékk þau skráð þann 30. apríl sama ár.
Um svipað leyti varð fyrirtækið þess áskynja að Álfasaga notaði auðkennið „Borðum rétt“ og sendi Álfasögu í kjölfarið bréf þar sem tekið er fram að Eldum rétt væri rétthafi vörumerkisins sem Álfasaga bryti gegn með notkun „Borðum rétt.“ Samkvæmt frásögn Eldum rétt svaraði Álfaborg því þannig að hún hygðist ekki nota „Borðum rétt“ sem vörumerki. Þann 26. október sama ár sótti Álfaborg um skráningu hjá Einkaleyfastofunni á vörumerkinu „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt.“
Þann 21. júní síðastliðinn ákvað sýslumaður að banna notkun „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“ og starfrækslu heimasíðunnar bordumrett.is með lögum þar sem það bryti, vegna ruglingshættu, gegn vörumerkjarétti Eldum rétt. Þá tók Einkaleyfastofa, sem nú heitir Hugverkastofa, ákvörðun um að samþykkja ekki skráningu á vörumerkinu „Máltíð í góðu jafnvægi fyrir þig borðum rétt“ vegna ruglingshættu.