Íslenski boltinn

Tvíburabræðurnir frá Dalvík báðir ristarbrotnir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nökkvi Þeyr þarf að fylgjast með sínum mönnum í KA af hliðarlínunni næstu vikurnar.
Nökkvi Þeyr þarf að fylgjast með sínum mönnum í KA af hliðarlínunni næstu vikurnar. vísir/auðunn

Nökkvi Þeyr Þórisson, framherji KA, er ristarbrotinn og verður frá keppni næstu vikurnar. Dalvíkingurinn hafði spilað kvalinn í einhvern tíma áður en hann fór í myndatöku. Þar kom í ljós að hann er ristarbrotinn.

„Það er ekki alveg vitað hvenær þetta gerðist. Ég var með verk í ristinni en spilaði í gegnum sársaukann. En hann jókst og jókst þannig ég ákvað að fara í myndatöku. Og þá kom í ljós að ég var fótbrotinn,“ sagði Nökkvi í samtali við Vísi í dag. 

Hann grunar að hann hafi brotnað í leiknum gegn Víkingi í 2. umferð Pepsi Max-deildarinnar 20. maí en læknar telja að það gæti hafa gerst enn fyrr, jafnvel í janúar.

Ef allt gengur að óskum vonast Nökkvi til að geta byrjað að æfa aftur eftir fjórar vikur.

„Læknirinn vildi senda mig beint í aðgerð en þá væri tímabilinu lokið hjá mér. Hinn möguleikinn var að fara í göngugifs, vera í því í fjórar vikur og prófa svo til að sjá hvort ég væri enn með verk. Ef verkurinn er enn til staðar verð ég tvær vikur í viðbót í gifsi og prófa svo aftur. Og ef það gengur ekki fer ég í aðgerð,“ sagði Nökkvi.

„Vonandi get ég spilað eftir þessar 4-6 vikur, klárað tímabilið og farið svo í aðgerð. Þeir vilja alltaf senda mig í aðgerð upp á öryggið.“

Nökkvi byrjaði tímabilið af krafti. Dalvíkingurinn skoraði í 3-1 tapinu fyrir ÍA í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar og í bikarleiknum gegn Leikni R. skoraði hann tvö mörk og lagði upp tvö.

„Þetta er mjög svekkjandi. Ég bjóst ekkert við því að ég væri fótbrotinn þar sem ég var að spila. Þetta var áfall. Þetta kallast álagsbrot og það hefur eitthvað gefið sig,“ sagði Nökkvi.

Hann er ekki sá eini í fjölskyldunni sem er fótbrotinn. Tvíburabróðir hans, Þorri Mar, varð fyrir sömu meiðslum.

„Þetta er nákvæmlega sama brot og bróðir minn er með, bara á hinum fætinum. Þetta er bara speglun. Við erum eineggja tvíburar þannig ég gat ekki verið minni maður,“ sagði Nökkvi hlæjandi að lokum.

KA gerði 2-2 jafntefli við topplið Breiðabliks í gær. KA-menn eru í 10. sæti Pepsi Max-deildarinnar með tvö stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×