Íslenski boltinn

Sautján ára guttar björguðu HK

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valgeir Valgeirsson hefur skorað tvö mörk og lagt upp tvö í þremur leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar.
Valgeir Valgeirsson hefur skorað tvö mörk og lagt upp tvö í þremur leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar. vísir/hag

Valgeir Valgeirsson sannaði einn einu sinni mikilvægi sitt fyrir lið HK í jafnteflinu við Gróttu , 4-4, í Pepsi Max-deildinni á laugardaginn. 

Annar sautján ára strákur, Ari Sigurpálsson, lét einnig til sín taka og skoraði jöfnunarmark HK-inga þegar sjö mínútur voru til leiksloka.

„Eins og við töluðum um í síðasta þætti er Valgeir mikilvægasti leikmaður HK, bæði í vörn og sókn. Hugarfarið hans smitar út frá sér,“ sagði Davíð Þór Viðarsson í Pepsi Max stúkunni í gær.

Valgeir meiddist í sigrinum á KR, 0-3, og lék ekki næstu tvo leiki HK. Hann byrjaði svo á bekknum gegn Gróttu en Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, setti inn á þegar það stefndi í óefni hjá Kópavogsliðinu.

„Þetta var væntanlega ekki eitthvað sem þeir lögðu upp með, að nota hann í þessum leik,“ sagði Davíð.

Ari skoraði jöfnunarmarkið af miklu harðfylgi aðeins þremur mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður. Hann var þá fljótur að hugsa og tæklaði boltann inn.

„Það er greinilega eitthvað við viðhorfið hjá þessum ungu leikmönnum í HK. Sjáðu markið hjá Ara. Þetta er greinilega svipað hugarfar og hjá félaga hans. Hann ætlar sér að gera hlutina, er grimmur og hikar ekki neitt,“ sagði Reynir Leósson.

„Þetta er nákvæmlega sama tilfinning og maður fékk. Maður hugsaði bara: eiga þeir einn svona í viðbót. Þeir björguðu þeim. Valgeir lagði upp þriðja markið og Ari skoraði það fjórða. Það er allavega jákvætt fyrir þá, að vera með tvo unga og flotta stráka,“ sagði Davíð.

Innslagið má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max stúkan - Valgeir og Ari komu HK til bjargar

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×