Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik 3-3 FH | Jafntefli niðurstaðan í skemmtilegum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var hart barist á Kópavogsvelli í kvöld.
Það var hart barist á Kópavogsvelli í kvöld. Vísir/Daniel

Breiðablik og FH gerðu 3-3 jafntefli í Pepsi Max deild karla í ótrúlegum fótboltaleik á Kópavogsvelli í kvöld. Miklar sveiflur voru í leiknum og mikill hiti var í mönnum undir lok leiks en bæði lið höfðu sitt að segja um dómgæslu kvöldsins.

Fyrir leik var mikið rætt og ritað um gengi Ólafs Helga Kristjánssonar, þjálfara FH, gegn Breiðablik en síðan Ólafur snéri heim þá hefur honum ekki enn tekist að leggja sitt fyrrum félag. Í þremur af fimm deildarleikjum gegn Blikum síðan 2018 hefur FH fengið á sig fjögur mörk. Markatalan er 18-8 Blikum í hag.

Þó svo að Blikar hafi átt leik fyrir aðeins þremur dögum gegn KA á Greifavelli á Akureyri þá var það ekki að sjá í dag þar sem Breiðablik virkaði hressara liðið á vellinum. Að sama skapi hafði FH fengið níu daga frí þar sem Stjarnan er í sóttkví en liðin áttu að mætast um síðustu helgi.

Leikurinn sjálfur

Það verður seint sagt að fyrstu tuttugu mínútur leiksins hafi verið mikið fyrir augað. Raunar var það svo að þær voru einfaldlega skelfilega leiðinlegar. Eftir það lifnaði svo heldur betur yfir leiknum á Kópavogsvelli.

Hjörtur Logi – vinstri bakvörður FH – kom gestunum yfir eftir frábæran undirbúning Þóris Jóhanns Helgasonar. Miðjumaðurinn ungi rak boltann inn á miðjuna frá hægri vængnum. Það kom enginn leikmaður Blika í hann svo Þórir gat rennt boltanum á milli Andra Rafns Yeoman í hægri bakverðinum og Elfars Freys Helgasonar sem var í miðverðinum.

Hjörtur Logi kom askvaðandi á blindu hliðina hjá Andra og skaut í fyrsta. Ekki frábært skot en það dugði til og gestirnir komnir 1-0 yfir.

Adam var þó ekki lengi í paradís en fimm mínútum síðar skoraði týndi sonur Kópavogs. Kristinn Steindórsson virðist hafa fundið markaskóna sína í geymslunni fyrir tímabilið. Hann rak endahöggið á góða skyndisókn Blika eftir að Oliver Sigurjónsson vann boltann ofarlegá vinstri vængnum.

Oliver gaf fyrir markið þar sem Thomas Mikkelsen var mættur á nærsvæðið eins og sönnum framherja sæmir. Daninn renndi sér í átt að boltanum en náði aðeins að slæma stóru tá í hann, þaðan fór boltinn yfir á fjær þar sem Kristinn var mættur og renndi boltanum yfir línuna.

Staðan orðin 1-1 og Kristinn – fyrrum leikmaður FH – kyssti Blikamerkið til að nudda salti í sárin.

Blikum fannst þeir hafa átt að fá meira út leik kvöldsins.Vísir/Daniel

Fimm mínútum síðar var staðan orðin 2-1 Blikum í vil. Mikkelsen skoraði þá með frábæru skoti af vítapunktinum eftir góða sókn heimamanna. Oliver sendi boltann af hægri yfir til vinstri á Davíð Ingvarsson sem óð upp völlinn og átti frábæra fyrirgjöf inn á teig sem sá danski nýtti frábærlega. Boltinn rakleiðis upp í samskeytin á marki FH og heimamenn trylltust á pöllunum.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik en FH-ingar voru nokkrum sinnum nálægt því að komast inn í sendingar heimamanna úr öftustu línu. Blikar voru kaldir í uppspili sínu frá Antoni Ara Einarssyni en þeir sluppu alltaf fyrir horn í kvöld.

Síðari hálfleikur byrjaði ótrúlega. FH jafnaði metin strax með marki sem verður eflaust rætt um á næstu dögum.

Jónatan Ingi eltir bolta sem Höskuldur Gunnlaugsson og Damir Muminovic ætla að skýla út af en það misheppnast og Jónatan nær að pota í boltann. Það var ómögulegt að sjá hvort boltinn hafi farið allur út af eða ekki en Jónatan náði allavega að senda á Atla Guðnason sem skoraði í autt markið og staðan því orðin 2-2.

Þegar rétt tæpur klukkutími var liðinn af leiknum voru heimamenn komnir yfir á nýjan leik og aftur var það Mikkelsen sem kom tuðrunni í netið. Markið var vægast sagt athyglisvert en Blikar fengu aukaspyrnu rúmum 25 metrum frá marki.

Andri Rafn tók spyrnuna stutt á Elfar Frey sem tók tvöföld skæri áður en hann renndi boltanum – með vinstri fæti – í gegnum vörn FH hægra megin á Brynjólf Andersen sem var allt í einu einn gegn Gunnari en í þröngu færi. Gunnar varði fast skot Brynjólfs frábærlega en Mikkelsen var – eins og hann er nær alltaf – réttur maður á réttum stað og staðan orðin 3-2 fyrir Blikum.

Gunnar varði frá Brynjólfir en Mikkelsen fylgdi eftir.Vísir/Daniel

Blikar gerðust svo aftur sekir um klaufalegan varnarleik en Damir renndi sér þá fyrir Þóri Jóhann inn í teig. Þórir stökk yfir Damir en datt í jörðina – hvort um leikaraskap var að ræða eða einfaldlega að Þórir hafi ekki haldið jafnvægi er óvíst en tæklingin var slök og hefði Þórir auðveldlega geta hlaupið á Damir og fengið víti.

Steven Lennon fór á punktinn og jafnaði metin af öryggi. Staðan orðin 3-3 og reyndust það lokatölur leiksins þrátt fyrir mikinn hita undir lok leiks þegar bæði lið fengu færi til að vinna leikinn.

Lokatölur 3-3 og stig á lið niðurstaðan á Kópavogsvelli. Blikar eru því enn taplausir á toppi deildarinnar með 11 stig eftir fimm umferðir á meðan FH er með sjö stig í fimmta sætinu.

Kristinn Steindórsson - einn markaskorara Blika - í baráttunni í kvöld.Vísir/Daniel

Af hverju var jafntefli?

Af því varnarleikur beggja liða var langt frá sínu besta. Bæði lið vilja eflaust meina að þau hafi átt að vinna leikinn og er alveg hægt að færa rök fyrir því. Jafntefli þó á endanum sanngjörn niðurstaða í stórskemmtilegum leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Thomas Mikkelsen skoraði tvö mörk í liði Blika og var alltaf hættulegur að venju. Þá var Oliver Sigurjónsson frábær að tengja saman vörn og sókn. Davíð Ingvarsson er hægt og rólega að verða einn skemmtilegasti bakvörður deildarinnar og var frábær fram á við í kvöld. Brynjólfur Andersen Willumsson gerði svo nær allt annað en að skora.

Hjá FH var Þórir Jóhann Helgason öflugur á miðjunni. Lagði upp mark og fiskaði víti. Daníel Hafsteinsson leit einnig vel út með sína ljósu lokka og Steven Lennon minnti að venju á Duracell-kanínu í fremstu víglínu. Þá var gamla brýnið Atli Guðnason sprækur.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur beggja liða en það var mikið af klaufamistökum hjá báðum liðum í öftustu línu.

Hvað gerist næst?

Það er lítið um frí í Pepsi Max deildunum þessa dagana. Aðeins fimm dagar eru í næsta leik liðanna. FH fær Fylki í heimsókn í Hafnafjörðinn á meðan Blikar heimsækja Íslandsmeistara KR.

Viðtal við Óskar Hrafn, þjálfara Breiðabliks, má finna hér.

Höskuldur: Fannst við klárlega eiga að vinna þennan leik

„Maður er svekktur, mér fannst við klárlega eiga að vinna þennan leik. Fannst við smá ryðgaðir í byrjun en tókum svo völd á vellinum. Mjög pirrandi mörk sem við fáum á okkur – allavega númer tvö og þrjú – svo maður er pirraður,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Blika, að leik loknum.

„Bæði við – og þeir sem eru að dæma leikinn – þurfum að standa okkur betur. Ef við horfum samt á okkur þá þurfum við að hætta að vera klaufar og það er margt sem við getum bætt,“ sagði fyrirliðinn um þau „ódýru“ mörk sem Blikar hafa fengið á sig í síðustu tveimur leikjum.

„Það er sterkt að vera taplausir og frammistaðan er búin að vera góð, stígandi ef eitthvað er. Auðvitað vildum við vinna heima á Kópavogsvelli og sýnum frammistöðu sem átti það skilið en ég segi bara að það er sterkt að vera taplausir og skora fullt af mörkum,“ sagði Höskuldur að lokum og tók undir að Blikar stefndu enn á að vera taplausir eftir heimsókn Blika í Frostaskjólið í næstu umferð.

Atli Guðnason: Erfiðara að spila þegar það eru þrír dagar á milli heldur en níu

„Mér fannst þetta góður leikur. Blikarnir meira á boltanum heldur en við refsuðum þrisvar og náðum í stig,“ sagði hljóðláti töframaðurinn Atli Guðnason eftir leik.

„Jú oftast held ég en þeir eru með góða menn fram á við sem eru alltaf líklegir til að skora. Þetta annað mark er náttúrulega algjört djók, hrikalega vel gert hjá honum en það er alveg viðbúið og þá verðum við bara að skora meira,“ sagði Atli aðspurður hvort þrjú mörk eigi ekki að duga til sigurs á útivelli gegn Breiðablik.

„Allt í lagi, kom einn slakur leikur gegn Víking en annars höfum við verið fínir og skorum fullt af mörkum en þurfum að fara fá færri mörk á okkur til að vinna leiki.“

„Það er erfiðara að spila þegar það eru þrír dagar á milli heldur en þegar það eru níu dagar á milli svo það var kærkomið að fá smá frí þegar Stjörnuleikurinn átti að vera. Nýttum það bara vel og komum ferskir inn í þennan leik. Þeir spiluðu á Akureyri um helgina, það hefði átt að hjálpa okkur og ég held það hafi gert það,“ sagði Atli að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira