Íslenski boltinn

Dúndurleikur Hannesar í Víkinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson varði þrjú dauðafæri frá Ágústi Eðvald Hlynssyni í leik Víkings og Vals í gær.
Hannes Þór Halldórsson varði þrjú dauðafæri frá Ágústi Eðvald Hlynssyni í leik Víkings og Vals í gær. vísir/daníel

Hannes Þór Halldórsson átti sennilega sinn besta leik eftir að hann kom heim úr atvinnumennsku þegar Valur vann Víking, 1-5, í Fossvoginum í Pepsi Max-deild karla í gær.

Þótt Valsmenn hafi unnið stórsigur fengu Víkingar sín færi í leiknum og Hannes þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum.

„Þetta eru vonbrigði. Þetta var mjög skrítinn leikur að mörgu leyti. Við töpuðum 1-5 en það kæmi mér ekki á óvart að Hannes yrði valinn maður leiksins,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir leikinn.

Víkingur komst yfir strax á 4. mínútu með marki Óttars Magnúsar Karlssonar. Valgeir Lunddal Friðriksson jafnaði fyrir Val fjórum mínútum síðar.

Skömmu síðar varði Hannes tvisvar í röð frá Víkingum, fyrst frá Ágústi Eðvald Hlynssyni og síðan Óttari. Hann varði svo fast skot þess síðarnefnda beint úr aukaspyrnu á 36. mínútu.

Eftir að Patrick Pedersen kom Valsmönnum í 1-4 fékk Ágúst Eðvald annað dauðafæri en aftur varði Hannes. Ágúst Eðvald komst í þriðja úrvalsfærið á 76. mínútu en Hannes sá enn og aftur við honum.

Hannes kórónaði svo frábæran leik sinn með ótrúlegri markvörslu frá Nikolaj Hansen þegar sex mínútur voru til leiksloka. Daninn átti þá góðan skalla að marki Vals en Hannes var snöggur niður og varði.

Hannes fékk talsverða gagnrýni fyrir frammistöðu sína á síðasta tímabili en miðað við frammistöðuna í gær er hann að nálgast sitt fyrra form.

Vörslur Hannesar úr leiknum gegn Víkingi í gær má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Markvörslur Hannesar gegn Víkingi

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×