Enski boltinn

Mourinho ætlar ekki að horfa á þættina um Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mourinho er vanur að hafa myndavél á sér allan daginn.
Mourinho er vanur að hafa myndavél á sér allan daginn. getty/Matthew Ashton

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, ætlar ekki að horfa á heimildaþættina um liðið, Tottenham: All or Nothing, sem Amazon framleiðir. 

Fyrsta sýnishornið úr þáttunum var frumsýnt í dag en það má sjá hér fyrir neðan.

Í þáttunum er skyggnst bak við tjöldin hjá Tottenham á tímabilinu 2019-20 sem hefur verið afar viðburðarríkt. Amazon gerði svipaða þætti um tímabilið 2017-18 hjá Manchester City.

„Ég reyndi að gleyma tökuliðinu. Ég naut þess ekki. Ég er ekki hrifinn af því að vera í Big Brother,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi í dag og vísaði til raunveruleikaþáttarins vinsæla.

Mourinho segir að stuðningsmenn Tottenham ættu að fá eitthvað fyrir sinn snúð í þáttunum um liðið.

„Ekkert er gervi, allt er ekta. Þetta hlýtur að vera frábært fyrir þá að hafa alltaf fullan aðgang að okkur og sjá hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hjá fótboltaliði,“ sagði Mourinho sem ætlar þó ekki að setjast niður með fjölskyldunni og horfa á þættina.

„Ætla ég að horfa á þættina? Nei, nei. Ég vil það ekki og svo veit ég betur en allir hvað gerist hérna. En þetta verður mjög áhugavert fyrir fólk sem elskar fótbolta og íþróttir.“

Tottenham gerði markalaust jafntefli við Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gær. Spurs er í 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×