Íslenski boltinn

Endaði ferillinn á þrennu og byrjaði aftur með þrennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson með boltann í leik á móti FH á síðasta tímabili sínu í efstu deild sumarið 2018.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson með boltann í leik á móti FH á síðasta tímabili sínu í efstu deild sumarið 2018. Vísir

Gunnar Heiðar Þorvaldsson er einn mesti markaskorari í sögu Vestmannaeyja og á að baki flottan feril bæði á Íslandi sem og úti í atvinnumennsku.

Flestir héldu nú að ferill Gunnars Heiðars Þorvaldssonar væri á enda en hann ákvað að taka skóna ofan hillunni eftir tæplega tuttugu og tveggja mánaða hvíld frá opinberum fótbolta.

Gunnar Heiðar varð 38 ára gamall í apríl síðastliðnum en hann sýndi gamla takta í leik með Knattspyrnufélaginu Framherjum-Smástund á Týsvellinum á laugardaginn. Hann er þjálfari liðsins og ákvað að setja sjálfan sig í byrjunarliðið að þessu sinni.

Gunnar Heiðar skoraði þrjú af fjórum fyrstu mörkum leiksins þegar Knattspyrnufélagið Framherjar-Smástund vann 8-0 á Létti. Gunnar Heiðar fór af velli á 53. mínútu leiksins en Léttismenn voru manni færri frá 20. mínútu. Það má sjá leikskýrsluna hér.

Þó að þetta hafi verið fyrsti leikur Gunnars Heiðars með liðinu í sumar þá var þetta fimmti leik KFS liðsins sem er með 12 stig á toppi A-riðils í 4. deildinni.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson lagði skóna á hilluna eftir 2018 tímabilið með ÍBV en hann náði þá að skora þrennu í síðasta leiknum sínum sem var á móti Grindavík í lokaumferðinni. Gunnar Heiðar „endaði“ ferillinn því á þrennu og byrjaði hann svo aftur á ný með því að skora þrennu.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði 61 mark í 127 leikjum fyrir ÍBV í efstu deild en hann er þriðji markahæsti leikmaður ÍBV frá upphafi í efstu deild á eftir þeim Tryggva Guðmundssyni og Steingrími Jóhannessyni.

Gunnar Heiðar skoraði einnig 63 deildarmörk í atvinnumennsku erlendis frá 2005 til 2015 en hann varð markahæstur í sænsku deildinni á sínum tíma með liði Halmstads BK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×