„Ég er svekktur. Þetta var kaflaskipt en ég er fyrsta lagi ótrúlega svekktur yfir frammistöðunni í fyrri hálfleik,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, eftir 1-1 jafntefli gegn Fjölni í dag.
„Við komumst yfir snemma og þetta kom bara upp í hendurnar á okkur en svo verðum við eins og smástrákar og litlir í okkur. Við föllum niður og nánast bíðum eftir að þeir jafni en svo er ég stoltur af frammistöðunni í seinni hálfleik. Við vorum miklu hugrakkari og virkilega vildum vinna en það kom ekki. Við verðum að standa í lappirnar og halda áfram.“
KA er í 11. sæti deildarinnar með þrjú stig eftir fimm leiki og er uppskeran rýr fyrir norðan heiða.
„Nú er það bara endurheimt og við förum yfir þetta á morgun. Það er stutt á milli í þessu og við fáum annan heimaleik líka á móti öðrum nýliðum og við þurfum að gíra okkur vel upp og ná í þrjú stig til að kveikja á okkur í þessu. Þetta verður þyngra og þyngra þegar sigrarnir eru ekki að koma. Fyrst og fremst verðum við að reyna vinna vel og fá þessa sentímetra í lag sem að vantar uppá.“