Íslenski boltinn

Ólafur: Vorum stemmnings­lausir

Ísak Hallmundarson skrifar
Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson vísir/daníel

FH tapaði 1-2 fyrir Fylki á heimavelli sínum í Kaplakrika í dag. Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH var afar ósáttur að leik loknum.

,,Það má kannski setja marga miða á þetta. Mér fannst við einfaldlega slakir í fyrri hálfleik. Við vorum hægir, vorum stemmningslausir, fórum ekki í návígi, fórum ekki í pressu, fáum upp á síðasta þriðjung stöður sem við förum illa með, varnarleikurinn í fyrsta markinu var bara engan veginn nógu góður. Það kemur bara langur bolti, hægt að skalla hann heim eða negla honum í burtu en Fylkismaðurinn er fyrstur á hann.

Síðan fannst mér koma smá kraftur í seinni hálfleik en það er kraftur sem þarf auðvitað að vera frá upphafi. Þegar við jöfnum erum við með ,,momentum‘‘ í leiknum og þá aftur köstum við því frá okkur með því að færa þeim markið á silfurfati,‘‘ sagði Ólafur.

,,Þú getur kallað þetta andleysi, sem er slæmt í keppnisíþróttum, og svo á köflum dapran varnarleik. Við tökum ekki þau færi sem við fáum í leiknum, við fáum undir lokin reyndar til að jafna en við nýtum það ekki.‘‘

FH hefur lekið inn tólf mörkum í fimm leikjum, það er eitthvað sem er ekki í boði ef lið ætlar að vera í toppbaráttu.

,,Við harðneitum að verjast á köflum og sem lið erum við ekki nógu þéttir í þessum atriðum. Eins og í mörkunum í dag, þá var kannski ekki mikil hætta þegar stöðurnar komu upp. Á móti Blikunum töpum við líka bolta fyrir utan teiginn og það er komið mark í andlitið á okkur. Virðingin fyrir því að verjast er ekki nær,‘‘ sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×