Íslenski boltinn

Fyrsti Guðjohnsen sem opnar ekki markareikninginn á móti ÍBV

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Borg Guðjohnsen, til hægri,  lék í gær sinn fimmta leik í Pepsi Max deildinni á ferlinum og skoraði sitt fyrsta mark.
Arnór Borg Guðjohnsen, til hægri,  lék í gær sinn fimmta leik í Pepsi Max deildinni á ferlinum og skoraði sitt fyrsta mark. Vísir/Vilhelm

Arnór Borg Guðjohnsen tryggði Fylki 2-1 sigur á FH í Kaplakrika í gærkvöldi eftir að hafa skorað sigurmarkið fjórum mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Faðir hans, Arnór Guðjohnsen, skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild fyrir Víking árið 1978, bróðir hans Eiður Smári Guðjohnsen, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Val 1994 og frændi hans, Sveinn Aron Guðjohnsen, skoraði sitt fyrsta mark í úrvalsdeildinni fyrir val árið 2017.

Sveinn Aron opnaði líka markareikning sinn í efstu deild með því að skora sigurmark skömmu eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Sveinn Aron kom inn á völlinn á 72. mínútu í stöðunni 1-1 á móti ÍBV og skoraði sigurmarkið aðeins mínútu síðar.

Arnór Borg Guðjohnsen er aftur á móti sá eini af þeim fjórum sem skoraði fyrsta markið sitt ekki á móti Eyjamönnum.

Feðgarnir Arnór og Eiður Smári skoruðu fyrsta markið sitt á móti ÍBV úti í Eyjum en Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði sitt fyrsta mark á móti ÍBV á Hlíðarenda.

Allir fjórir náðu þeir að skora sitt fyrsta mark fyrir tvítugsafmælið en Eiður Smári Guðjohnsen er sá yngsti sem hefur skorað í efstu deild á Íslandi.

Fyrstu mörk manna úr Guðjohnsen ættinni í efstu deild á Íslandi:

16. maí 1978 á Hásteinsvelli Arnór Guðjohnsen fyrir Víking R. á móti ÍBV [2-0 sigur, seinna mark]

(Var 16 ára og 287 daga gamall)

26. maí 1994 á Hásteinsvelli Eiður Smári Guðjohnsen fyrir Val á móti ÍBV [1-1 jafntefli, jöfnunarmark]

(Var 15 ára og 253 daga gamall)

4. júní 2017 á Hlíðarenda Sveinn Aron Guðjohnsen fyrir Val á móti ÍBV [2-1 sigur, sigurmark]

(Var 19 ára og 23 daga gamall)

13. júlí 2020 í Kaplakrika Arnór Borg Guðjohnsen fyrir Fylki á móti FH [2-1 sigur, sigurmark]

(Var 19 ára og 301 dags gamall)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×