Íslenski boltinn

Óli Stefán hættur með KA

Ísak Hallmundarson skrifar
Óli Stefán er ekki lengur þjálfari KA.
Óli Stefán er ekki lengur þjálfari KA. vísir/tryggvi

Óli Stefán Flóventsson er hættur sem þjálfari KA í Pepsi Max deild karla, en þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef KA núna rétt í þessu.

KA hefur gengið illa í upphafi móts og er einungis með þrjú stig eftir fimm umferðir, í næstneðsta sæti deildarinnar. Óli tók við KA fyrir síðasta sumar og lenti liðið í 5. sæti í Pepsi Max deildinni í fyrra undir hans stjórn. Nú hafa Óli og Knattspyrnudeild KA hinsvegar komist að samkomulagi um að Óli láti af störfum.

Yfirlýsing af vef KA:

Knattspyrnudeild KA og Óli Stefán Flóventsson hafa komist að samkomulagi um starfslok Óla hjá félaginu.

Gengi KA það sem af er tímabili er ekki ásættanlegt og telja báðir aðilar nauðsynlegt að gera þessar breytingar til að liðið nái sér á strik og sýni sinn rétta styrk. Liðið náði fimmta sæti undir stjórn Óla Stefáns í fyrra sem er besti árangur félagsins síðan félagið kom aftur upp í deild hinna bestu á Íslandi.

Stjórn Knattspyrnudeildar KA þakkar Óla Stefáni fyrir framlag sitt til félagsins og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Félagið mun nú þegar skoða sín mál varðandi þjálfun liðsins og mun ekki tjá sig nánar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×